miðvikudagur, mars 31, 2004

Eru karlmenn réttdræpir í auglýsingum?
Ég hef tekið eftir því að það er oftast í góðu lagi að fara illa með þá í þeim tilgangi að markaðssetja vörur. Í Wheetabix auglýsingunni, sem ég hef reyndar aldrei skilið, má sjá snælduvitlausan kvenmann hlaupa út um allt og berja það sem fyrir verður með tösku. Í töskunni reynist vera Wheetabix, það kemur á daginn þegar hún er komin heim til sín. En í lok auglýsingarinnar fer hún inn í svefnherbergi, þangað sem karlmaður nokkur er í fasta svefni, eða mér hefur allavega sýnst það vera karlmaður. Og hún sveiflar töskunni af afli og allt útlit er fyrir að hún ætli að dúndra henni í hausinn á sofandi gaurnum. Það er reyndar ekki sýnt heldur endar auglýsingin þarna, í einhverju sem á ábyggilega að vera einhvers konar djók. En hvernig liti þetta út ef brjálaður karlmaður æddi út um allt og berði tösku í allt sem fyrir yrði og endaði svo á að fara heim og buffa með töskunni konuna sína, sem, nota bene, væri í fasta svefni og ætti sér einskis ills von? Það mætti ábyggilega ekki. En þegar gerandinn er kvenmaður þá má auglýsa ,,orku" og hreysti og eitthvað þvíumlíkt.
Karlmenn eru líka aular sem geta ekki verslað, kunna ekki á þvottavélar og börn mega klína í þá súkkulaði ef þeir reyna að grípa í húsverkin og bjarga gardínum frá súkkulaðiklíningi. Mig grunar að þetta sé af því að karlmaðurinn er hlutlausa kynið í samfélaginu (konan er samt hlutlausa kynið í náttúrunni!). En ég held samt ekki að þetta sé af hinu góða, ekkert kynjamisrétti getur átt rétt á sér, eða hvað?

þriðjudagur, mars 30, 2004

Smá dæmisaga úr íslenskum raunveruleika: Jón, ja eða Jóna, er virkur djammari og neytandi alkóhóls og annarra vímugjafa. Jón(a) dettur að sjálfsögðu í það um helgar og slakar þá aldrei á fyrr en síðdegis á sunnudag þegar síðustu eftirpartíin leysast upp. Þess á milli hangir Jón(a) á knæpum og þjórar bjór og fær sér í haus og/eða nös áður en hann/hún keyrir til vinnu eða skóla (ef honum/henni þá helst á slíku). Jón(a) sækir um líf- og sjúkdómatryggingu hjá íslensku tryggingafélagin og líftryggir sig í botn. Ef hins vegar Jón(a) tryggir sig ekki fyrr en eftir að einn daginn þegar konan/karlinn er farin frá honum/henni og yfirdrátturinn sprunginn að það rennur upp fyrir honum/henni ljós og hann/hún ákveður að fara í meðferð, þá versnar í málum. Þá er honum/henni nefnilega greint frá því að ekkert tryggingafélag með sjálfsvirðingu taki að sér að tryggja einstakling sem hvorki dettur í það um helgar né virka daga. Alki/dópisti verður þannig að velja á milli líf- og sjúkdómatryggingar og meðferðar. Viva Islandia.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Horfði á morgunsjónvarpið - aftur. Sá bara síðustu tvo liðina, konu með páskaföndur og gull- og silfursmið (sem af andlitsdráttum að dæma hefur sent ófáa grátandi aðstandendur á Al-Anonfundi, en það er náttúrlega bara minn sleggjudómur). Orðið ,,list" kom lítið við sögu, tók allavega ekki eftir því. En það sem smiðurinn var með, skartgripir, bikar og 900.000 króna silfurskál, voru allt hlutir sem alla jafna flokkast sem list eða kannski ,,nytjalist". Það sem konan var með flokkaðist hins vegar undir ,,föndur".
Ég er því að reyna að átta mig á því hvar munurinn á milli föndurs og listar liggur. Konan var með svona týpíska grein sem hún hengdi páskagult dót á, egg og glerkúlur og einhverjar hænsnamyndir og svona. Alla jafna er svona ekki kennt við list. Ef hún hefði kúkað á greinina, nú eða hengt á hana túrtappa, þá hefði það hins vegar verið list. Ég óska hér með eftir skilgreiningum á föndri, með fókus á í hvaða hólf það flokkast undir listarhugtakinu.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Vá - 2 blogg á einum degi! Þurfti bara að koma þessu að:
Fliss mánaðarins fær Tvíhöfði - teiknimyndaserían, fyrir frasann: ,,Ég elska Gísla Martein!" (Áhugasamir verða að sjá til að fatta til fullnustu...).
Það er svo mikið rugl í gangi varðandi skipulagsmál á Íslandi, einkum og sér í lagi í Reykjavík. Í fyrsta lagi: Ef gamalt hús brennur eða er rifið eða eitthvað, þá er byggður einhver íburðarmikill glerskáli í staðinn, mitt á milli hinna gömlu húsanna. Í öðru lagi: Reykjavík er byggð upp um hæðir og hóla á meðan svæðin í gamla miðbænum drabbast niður. Í þriðja lagi: Móðins verslunarmiðstöð á Laugavegi - í staðinn fyrir nokkur friðuð gömul hús og svona? Hvað er þetta skipulagslið að hugsa? Í fjórða lagi: Risastór ofanjarðar-Miklabraut, sem skilur framtíðarbyggingasvæði í Vatnsmýri frá miðbænum. Og svo framvegis og svo framvegis.
Nenni ekki að fjölyrða mikið um þetta, þetta er bara svo mikið rugl. Kannski er til of mikið af sprenglærðum arkítektum á Íslandi, sem allir hafa sérhæft sig í glerbyggingum sem eru einkennilegar í laginu en þó ekki frumlegar og fyrirferðarmiklum umferðarmannvirkjum. Og ekki geta allir arkítektar orðið Vala Matt. Þá er náttúrlega fallegt af yfirvöldum að sjá til þess að þeir hinir séu ekki atvinnulausir.

mánudagur, mars 22, 2004

Violent Femmes, Pixies og Kraftwerk. Stefni á að sjá allt saman. Spurning hvern ég fæ með mér á Violent Femmes. Sá þá í Osló 1999. Keypti bol til minja, sem einhver samviskulaus íbúi Stúdentagarða (nánar tiltekið Eggertsgötu 30) hnuplaði úr þvottahúsinu árið 2000. Þannig að þó ekki væri nema fyrir það, þá verð ég að skella mér á tónleikana og finna glæpamanninn sem skartar bolnum mínum.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Sá stjörnu framtíðarinnar í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 í gær. Joseph Locsin hét hann, frá Filippseyjum. Semur og syngur píkupopp. Ég reyndi að horfa með opnum huga og hugsa ekki um Leoncie, enda væri það ljótt og þröngsýnt og meinfýsið af mér. Pilturinn var augljóslega dálítið stressaður. Stöð 2 sleppti því líka að tengja míkrófóninn hans framan af lagi, þannig að maður gat stúderað hreyfingarnar og svipbrigði án truflana frá röddinni. Eftir að míkrófónninn var tengdur kom í ljós að röddin var ekki sem verst, þó að klæðaburður, dansspor og annað hafi þurft ofurlítillar fínpússunar við... Mín hugmynd er að IDOL-droppátin sem eru að fara að stofna íslenskt boyband að erlendri fyrirmynd hafi samband við hann Joseph litla og taki hann með. Þannig myndi það líka öðlast ákveðinn alþjóðlegan blæ, sem er jú alþekkt uppskrift af vinsældum.

föstudagur, mars 12, 2004

Nú hef ég ekki farið á bíó lengi og hef þess vegna ekki séð myndina MONSTER sem alls staðar er lofuð í hástert. Ég hef þess vegna engar forsendur til þess að efast um gæði myndarinnar, né heldur snilldarleik aðalleikkonunnar, Charlize Theron. Í raun er ég bara nokkuð viss um að hún stendur sig með prýði sem ljótt miðaldra morðkvendi. Það sem ég skil hins vegar ekki er af hverju hún var valin og fituð og gerð sjúskuleg, þegar til er nóg af lítt aðlaðandi sjúskuðum leikkonum í meðalþyngd, sem margar búa yfir svakalegum hæfileikum en fá aldrei nein hlutverk af því að þær eru ekki nógu flottar.
Núna er hún Chalize búin að sanna að hún er ekki bara flott gella, heldur getur hún leikið líka. En hvað með allar hinar, sem eru ekki flottar gellur og fá þess vegna aldrei að sanna að þær geti leikið?
Jæja, ég er ekki í Hollywood.
Annað; ég hlustaði á Skonrokk í 10 - 15 mínútur síðdegis í gær. Mér heyrðist útvarpsmaðurinn kynna sig sem Orra Wium. Nema hvað, á þessum stutta tíma, sem innihélt a.m.k. 3 lög sagði Orri Wium ekki sjaldnar en þrisvar ,,að sjálfsögðu"! Þetta er að sjálfsögðu nokkur ofnotkun...

mánudagur, mars 08, 2004

Thíhí... hlustaði á STJÖRNUNA í dag... þar var verið að gefa sjálfshjálpardiska fyrir byrjendur í notkun Excel og Powerpoint osfr... Til að vinna disk þurftu hlustendur að svara fjórum svæsnum spurningum á borð við ,,hvað er Excel?"! Þarf maður diskinn ef maður veit það?

föstudagur, mars 05, 2004

Langar aðeins að tjá mig um útvarp. Alla jafna hlusta ég lítið á útvarp. Nema reyndar í bílnum, allavega síðan kassettutækið bilaði. Og ég er dálítið vandlát á stöðvar, ef ég hlusta á annað borð. Undanfarið hef ég hins vegar látið útvarpið ganga yfir daginn, en var með það á vonlausum stað þannig að eina útvarpsstöðin sem ég náði þar var Bylgjan. Hélt ekki að það myndi draga dilk á eftir sér, ætlaði bara að láta hana mala í bakgrunninum. Eftir um það bil 2 vikur (ég veit ekki af hverju ég lét þetta ganga svona lengi, einhver sjálfspyntingarhvöt / leti) færði ég útvarpið og get nú hlustað á fleiri stöðvar. Það var ekki seinna vænna, því ég var farin að búa mig undir að hringja í hinn geysispennandi útvarpsleik ,,fall eða fjársjóður"...
Nú er ég með ýmsar pælingar út frá þessari útvarpsupplifun minni, ja eða allavega tvær í bili.
Í fyrsta lagi: Er það einkenni vanhæfra útvarpsmanna að ofnota orðin ,,að sjálfsögðu", ,,auðvitað", ,,enginn annar en..." og ,,náttúrlega"*? ,,Þetta er að sjálfsögðu enginn annar en..." (og svo kemur eitthvað útjaskað léttpoppsnafn, Michael Bolton eða Bo til dæmis). Eða ,,þú ert auðvitað að hlusta á þáttinn XXX" - hvað er svona sjálfsagt og auðvitað við þetta allt? Þetta verður verulega pínlegt þegar þetta er ofnotað.
Í öðru lagi: Er mögulegt að of mikið af mentaðarlausi tónlist geti leitt til þunglyndis? Mér líður allavega mun betur eftir að ég stillti yfir á aðra stöð og fæ ekki lengur uppstríluð sykurpopplög á heilann, ekki það að þunglyndi hafi hrjáð mig, en það hefði getað gerst.
Já, það var ekki meira í bili. Nema smá meira nöldur: OgVodafone fær ekki meðmæli frá mér fyrir að vera snöggt né/eða greiðvikið að redda manni nettengingu heim.

*Nei, það er ekki u í náttúrlega, náttúrulega er (náttúrlega) annað orð.