þriðjudagur, apríl 15, 2008

Markaðsráðgjafi Hugleiða (ehf framtíðarinnar) ráðleggur framkvæmdastjóra eindregið að segja frá frumkvöðlaverkefni Hugleiða á öllum mögulegum vettvangi, svosem bloggi, Facebook, Linked-in og svo framvegis.

Lítt upplýstur framkvæmdastjóri myndi kannski láta hugsanlegan plebbaleik fæla sig frá því, en þrautþjálfaður af success coaches dauðans eins og þessi framkvæmdastjóri er þá skilur hann til hlýtar mikilvægi networking (hér með lýkur enskuslettunum í þessari færslu).

Þannig að hlutverk þitt, lesandi góður, er að lesa það sem hér fer á eftir, uppveðrast ef kostur er, og láta svo alla sem þú þekkir (einkum og sér í lagi eldri borgara eða fólk sem getur tekið sér frí í heila viku í maí) vita af þessu frábæra framtaki.

Vikuna 19. – 23. maí næstkomandi verður boðið upp á 3 yfirgripsmikil námskeið í Reykholti, Borgarfirði.

Í samvinnu við Snorrastofu verður boðið upp á námskeið í sögu Snorra Sturlusonar. Farið verður ítarlega í sögu Snorra Sturlusonar, sagt frá rannsóknum, gengið um svæðið og fleira. Námskeiðið er í umsjá Óskars Guðmundssonar sagnfræðings og rithöfundar en aðrir fyrirlesarar verða Sr Geir Waage, Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu og Evy Beate Tveter verkefnisstjóri. 30 kennslustundir.

Námskeið í leikrænni tjáningu verður í umsjá Margrétar Ákadóttur leikkonu og MA í leiklistarmeðferð. Byggt verður á sagnahefð Íslendinga og endað á leiksýningu á kvöldvöku síðasta kvöldið. 30 kennslustundir.

Námskeið í jóga verður í höndum Aaniku Chopra, en það námskeið er hið eina sem fram mun fara á ensku. Farið í fræðin að baki jógaiðkun, mataræði og lífsstíl og kenndar ýmsar æfingar. 30 kennslustundir.

Þátttakendur velja sér eitt þessara þriggja námskeiða og kennsla fer fram frá mánudegi til fimmtudags. Innifalið í námskeiðsgjöldum er fullt fæði og gisting auk tveggja kvöldvaka.

Gist verður í tveggja manna herbergjum á Fosshóteli Reykholti, nema annars sé sérstaklega óskað. Herbergin á hótelinu eru venju fremur rúmgóð og hvert herbergi er útbúið með heilsusængum og sérhönnuðum heilsusængurverum. Að auki eru á Reykholti heitir pottar, dagsbirtumeðferðarherbergi, nuddstólar og ýmislegt fleira sem gestum stendur til boða. Á kvöldvökunum koma meðal annars fram Sigurður Rúnar Jónsson eða Diddi fiðla, Sigurður Hreiðar Hreiðarsson rithöfundur og þéttur hópur heimamanna.

Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá sig í síma 562 5575 eða á netfanginu hugleidir@simnet.is



Fosshótel Reykholt

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home