þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Inspireruð af sjónvarpsþáttabloggi annarra verður Véfréttin líka að láta til sín taka hvað varðar:

LOST

Þegar við sáum fyrsta þáttinn hugsaði ég bara ,,enn það rugl!". Nennti ekki einu sinni að setjast niður og sökkva mér niður í þessa sápu. Fannst hún bara út í hött. Sveimhuginn var að horfa og ég var eitthvað að stússast og sá því nokkur brot úr fyrsta þættinum. En svo liðu vikur og maður heyrði fleiri og fleiri dásama sápuna. Svo að ég fór að horfa (múgæsingur). Því hefði ég ef til vill betur sleppt, því ég festist óvart líka. Dálítið vandræðalegt... verandi jafn mikil hugvitsvera og ég nú er...
En jæja. Mig langaði aðeins að benda á nokkur atriði sem hafa valdið mér heilabrotum.
Eitthvað hefur víst verið býsnast yfir að fólkið á eyjunni sé of fallegt og vel heppnað til að endurspegla samsetninguna í venjulegri farþegaflugvél. Má vera, en þá má benda á karlana, til dæmis John Locke, feita gaurinn með síða hárið, subbulega kennarann sem var að gefa hagnýtar upplýsingar um Monsoon-tímabilið í gær... o.s.f.r.
En konurnar eru hins vegar algerar stereótýpur. Hingað til hafa fjórar konur fengið að láta að sér kveða. Það eru glæpakvendið (Kate), Shannon, Claire og Kóreanska gellan (annað hvort hún eða maðurinn hennar heita Jin). Allar þvengmjóar, hávaxnar, með sítt hár og sykursætar. Allar líka á aldrinum 20 - 35. Engin eldri kona virðist hafa lifað slysið af, allavega er hún þá ekki umfjöllunar verð. Heldur engin lágvaxin kona eða kona í kjörþyngd, hvað þá yfirvigt. Merkilegt með kóreönsku konuna, hún er e.k. stökkbreytt afbrigði af Kóreubúa, u.þ.b. 50 sm hærri en samlöndur hennar. Heppilegt, því annars hefði hún greinilega ekki lifað slysið af. Reyndar hef ég einu sinni séð frönsku konunni bregða fyrir, en hún var víst á eyjunni áður en flugvélin brotlenti þar. Hún var sennilega um eða yfir 35. Enda er hún aukapersóna, látið að því liggja að hún sé geðveik, hugsanlega stórhættuleg og er hún því falin lengst inni í skógi.
Mig grunar að áhorf myndi ekkert vera minna þó að það væru svo sem ein eða tvær fullorðnar konur, nú eða feitlagnar, með í spilinu. Af hverju mega karlarnir alltaf vera alls konar en konurnar allar eins?
Svo er það matarleitin. Allir sem hafa horft á Survivor (þann mikla menningarþátt) hafa tekið eftir því að matarleit tekur hug fólks allan við aðstæður sem þessar. En fólkið á eynni er alltaf bara að tjilla eitthvað, leika sér með byssur, byggja fleka og rífast. Sá eini sem ég hef séð eitthvað vera að leita að mat er John Locke og meira að segja hann er ekkert alltaf að burðast með villisvín til byggða. Hann er alltaf að sinna sínum eigin hugðarefnum, búa til barnarúm fyrir Claire (sem var þvengmjó með kúlu þegar hún var ólétt) eða reyna að opna dularfulla hlerann sinn. Survivor-liðið er alltaf í sjónum, veiðandi með spjótum, uppi í trjám tínandi kókoshnetur, niðri í fjöru tínandi kræklinga eða eitthvað álíka o.s.f.r. Samt fá allir hamborgara og franskar á heilann og horast niður í frumeindir sínar. En á Lost-eyjunni lifa allir í slíkum vellystingum að enginn þarf að hafa fyrir því að afla matar og feiti gaurinn hefur ekki lést um gramm frá því að hann dagaði uppi á eyjunni.
Nóg um það.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Teljari.is er löngu kominn fram hjá fæðingarári mínu, yfir nútíðina og geysist inn í framtíðina á ógnarhraða...! Það hlýtur að þýða að einhverjir fleiri en ég sjálf skoði bloggið mitt. Jibbí!
Í dag er annars einn af síðustu yfirlýstu sumardögunum en samt er komið haust fyrir löngu og orðið ískalt úti. En óréttlátt.
Í dag er einnig afmælisdagur Michaels Jacksonar og það veit ég ekki vegna taumlausar aðdáunar á goðinu heldur vegna þess að bæði ég og systir mín eigum fyrrverendur sem einmitt deila afmælisdegi með honum Michael. Og í báðum tilfellum erum við gengdarlaust fegnar að vera fyrir lifandi slöngu lausar við umrædda fyrrverendur. Eins og við værum eflaust líka ef við hefðum einhvern tíma verið í tygjum við hann Michael. Sem er reyndar ögn fjarstæðukennt, ehn hey...
Bráðum byrjar skóli og alvöru vinna og ég verð að nýta tímann þangað til til að klára allt hitt!
Af þeim sökum: Ekki meira í bili.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Teljari.is (sjá efra horn vinstra meginn) nálgast óðum mitt eigið fæðingarár. Spennandi...?!?!?

(Þetta er það sem ég brýt heilann um á þessu fagra föstudagskvöldi...)

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Nýjasta æðið mitt:

http://www.living-foods.com/welcome.html

- lesið og látið sannfærast...!

föstudagur, ágúst 05, 2005

Stríðið er búið!
Fullnaðarsigur hefur verið unninn!
Þvengir eru officially OUT!
Þetta vissi ég alltaf. Allt frá því að þessi ósköp voru fyrst kynnt til sögunnar í Suður-Ameríku þegar ég var um það bil 4 ára. Strax þá hugsaði ég; Nei, þetta getur ekki verið gott.
Allar götur síðan hef ég ein verið að predika í mínu horni, Nei, band uppi í rassinum getur ekki verið af hinu góða; G-strengur hlýtur að vera enn ein bölvunin sem lögð er á konur. Og nú loksins eru blöðin full af yfirlýsingum um að aðrar konur séu búnar að fatta þetta líka og hættar að kaupa þvengi og farnar að spóka sig í klæðameiri undirfatnaði. Allt í einu er gyllinæð ekki lengur í tísku.
Nema hvað; alltaf stóð ég á mínu. Fjórir rassar my arse. Ég er bara með einn og hann rokkar. Ef einhver vill prófa að flengja hann þá er bara að skrá sig á biðlistann...

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Það er lítið um fersk blogg þessa dagana á tenglum Véfréttarinnar. Allir virðast vera uppteknir við að eiga sér líf nema Véfréttin sem bloggar næstum því daglega...
Andvarp.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Ég er unglingur á ný. Ég fór nefnilega út úr bænum um sjálfa verslunarmannahelgina. Hversu langt er eiginlega síðan síðast? En ókey, ég var ekki í 66°N galla, kúldraðist ekki í útældu kúlutjaldi og drakk ekki deigan dropa. Þannig að kannski er ég ekki alger unglingur enn, hugsanlega tekur yngingin lengri tíma. Sjáum til með næsta ár.
Fór með familíunni upp í Borgarfjörð. Kíktum á Hreðavatn. Tókum sightseeing um Bifröst, hvar ég mun hafa komið undir (var ég búin að nefna það?). Gistum svo í vöggu íslenskrar menningar á Fosshóteli Reykholti... voða fínt. Auglýsa? ÉG?
Deildartunguhver kíktum við síðast á í júní, hann hefur ekki breyst mikið síðan þá. Hann er ósköp taminn og manngerður og sorglegur eitthvað. En túristunum virðist finnast hann fínn. Sjálfri finnst mér tómatasjálfsalinn sem þar stendur flottari.
Hraunfossa hef ég aldrei séð áður, né heldur Barnafossa. En þar voru rauðúlpuklæddir túristar að spígspora um allar klappir sem skemmdu alla möguleika á myndatöku og drógu verulega úr ánægju náttúruupplifunarinnar. Fjórir þeirra stilltu sér upp með þrífót á algerum lykilstað og héngu bara þar, væmnir á svipinn. Það gerði það að verkum að nokkurn veginn enginn gat notið náttúruundursins í þá heilu eylífð sem þeir einokuðu það... nema þeir sjálfir náttúrlega. Skítapakk.
Já, svo var það Húsafell. Er ekki viss um að ég myndi finna mig í að eyða verslunarmannahelginni þar. Ekki fyrr en kannski eftir svona þrjú börn í viðbót.
Gefið mér nokkur ár.
Í Borgarnesi var víst eitt sinn bakarí er kennt var við Geira. Þar fengust löngum snúðar með alvöru súkkulaði, löngu áður en öðrum bökurum hugkvæmdist að baka svoleiðis. Fyrir nokkrum árum hætti Geiri að vera með bakarí upp á eigin spýtur en einbeitti sér að því að selja í búðirnar á svæðinu. Ég náði síðasta súkkulaðisnúðnum í Samkaupum í gær. Hann var ekki í hillunni sinni, heldur lá hann í reiðileysi í annarri hillu, í poka með gati á. Ég ýtti burt ásæknum hugsunum um hvað á daga hans hefði hugsanlega getað drifið áður en ég fann hann og hámaði hann í mig. Hann var dáldið þurr og mér varð reyndar svolítið bumbult á eftir. En ég neita staðfastlega að hugsa um ástæður þess að hann var skilinn eftir í götóttum poka í fjarlægri hillu.
Heima er annars best.