miðvikudagur, október 19, 2005

Nágrannar vorir á efri hæðinni eru ekki þekktir fyrir að eðla sig oftar en einu sinni í viku. Hingað til hafa þau haldið sig við sunnudagskvöld, laust upp úr miðnætti, það er að segja þegar heimilisfaðirinn er í landi.
Í gærkvöldi brá hins vegar svo við, að þegar ég, úrvinda af skóla-, vinnu- og meðgönguþreytu, ætlaði að fara extra snemma að sofa og var komin upp í upp úr tíu, að svo brugðust krosstré sem önnur tré. Þetta byrjar oft með nettu braki, sem maður tekur varla eftir, en svo verður það háværara. Þegar ég heyrði þetta fyrst hélt ég, í sakleysi mínu, að verið væri að saga einhvern harðan við á efri hæðinni (eftir miðnætti á sunnudegi, nota bene). En ef að Sveimhuginn hefði ekki svipt mér niður á jörðina hefðu ópin og stunurnar sem brátt fylgdu sennilega gert það um síðir.
Í stuttu máli sofnaði ég með kodda ofan á hausnum í gærkvöldi.
Annars bið ég mína dyggu lesendur forláts á skrifleysinu sem orsakast af of-álagi.
Hef verið að bræða með mér að bregðast við þessu klukki ykkar sem klukkað hafa, en hef ekki tíma fyrir svo frjó heilabrot sem stendur. Seinna.