mánudagur, september 25, 2006

Þó ekki væri nema til að losna við mitt eigið flekkótta fés af blogginu splæsi ég þessum hér inn:



Hef sagt það áður og þreytist seint á því; Ómar rokkar.

Sjáumst annað kvöld... jibbí...

fimmtudagur, september 21, 2006

Stundum sakna ég þess að hafa (ekki) titil á blogginu mínu. Titill dagsins í dag væri t.d. Aumingja ég.

Flest ykkar úr innsta kjarna munið eftir útbrotunum mínum í kringum munninn. Þau byrjuðu fyrir einu ári og 9 dögum. Vörðu í viku í senn. Fyrst leið mánuður á milli... svo styttra og styttra, uns þau voru orðin ein samhangandi heild og engin frí á milli.

Hef ekki orðið þeirra vör síðan í mars, sem gerir hálft ár. Breytt mataræði og hómópataremedíur í bland við hardcore sveppalyf hafa eflaust haft sitt að segja. Nema hvað; svona lít ég út í dag (nefið var étið af kólibrífíl):



Og nú virkar ekkert, nema þá helst sterakrem dóttur minnar (sem eflaust mun valda stríðum skeggvexti hjá mér áður en yfir lýkur). Svíð og brenn, engist og kvelst, hef geymt andlitið á mér undir rennandi köldu vatni stóran hluta dagsins. Því segi ég og skrifa aumingja ég!

miðvikudagur, september 20, 2006

Verandi orðin ráðsett úthverfahúsmóðir var ég alveg búin að gleyma því hvað drykkjuleikir geta verið skapandi.

• Potturinn hvein og sauð í tuttugu mínútur þangað til konan...
• Pungurinn fjaðurmikli vildi píku eina fjaðurlitla
• Básúnan breiða, gyllta var glöð og hávær þegar hún kom
• Lestarstarfsmaðurinn illi og alfiðraði kjúklingurinn fóru saman út til að borða snáka sem iðuðu
• Slökkviliðsteppið rauða en er bolur bítur hananú asni
• Einu kvöldi fyrir útskriftina miklu gerðist eitthvað voðalegt. Kornelía hljóp yfir mýrina gröðu, nakin og...

Eins og sjá má gildir það sama nú og fyrir 15 – 20 árum – því meira dónó, því meira fynd.

föstudagur, september 15, 2006

Ég er að fara í bústað um helgina.
Nanananananana, ég á mér líf...

miðvikudagur, september 13, 2006

Aðeins meira um Rock Star. Þegar þessi orð eru rituð stend ég í þeirri trú að úrslitin séu ekki enn kunn (ef það er misskilningur þá verður þessi færsla enn tilgangslausari en ella).

Því langar mig að reifa stuttlega æsispennandi samsæriskenningu sem ég heyrði um leið og fyrsti þátturinn hafði verið sýndur. Hún var á þá leið að þessi þáttaröð væri bara grín og yfirskin, í raun væri fyrir löngu búið að ákveða hver myndi vinna, nefnilega þessi hér:



Í ljósi þess að þessi keppandi hangir enn inni eftir því sem ég best veit ætla ég að leyfa mér að veðja á að samsæriskenningin eigi við rök að styðjast og að þessi verði sá ,,heppni" þegar upp er staðið. Go Toby.

sunnudagur, september 10, 2006

Í gær áttu tvær mikilvægar manneskjur afmæli. Önnur varð tveggja ára, hin þrítug. Það sem olli mér heilabrotum var ólíkt viðhorf þeirra tveggja til frumefnisins elds.

Annað þeirra reyndi af alefli að slökkva hann, með dyggri hjálp foreldra sinna.



Hitt slökkti (rafmagns-)ljósin, spreyjaði hárlakki á handlegginn á sér og bar upp að kertum.


Svo lengi lærir sem lifir.

miðvikudagur, september 06, 2006

Þó að ég eigi heima í úthverfi og aki um á steisjon þá verð ég að viðurkenna að ég hef alveg sloppið við að detta ofan í þennan Rock Star pott sem þorri landsmanna og -kvenna virðist sokkinn í.

Ég sé þetta sárasjaldan og hef enn ekki gert mig seka um að vaka fram eftir nóttu til að greiða ákveðnum keppanda atkvæði á forsendum þjóðernis fremur en hæfileika.

En ég viðurkenni þó að í aðra röndina finnst mér svona þjóðerniskenndar-innblásin þjóðarátök doldið krúttleg. Eyjan okkar er svoddan krútt.

En allavega; í kvöld sá ég brot í fyrsta sinn í margar vikur. Það sem fyrir augu bar minnti mig átakanlega á af hverju ég hef aldrei freistast til að horfa á meira en tvö til þrjú lög í einu.

Þið kannist öll við aulahrollinn, ekki satt? Jæja, það er allavega fátt sem kemur honum hressilegar af stað hjá mér en miðaldra málaðir útlifaðir gaurar sem hossa sér í sætunum eins og bældir táningar þegar þeir eru að tjá ánægju sína og ,,innlifun" inn í túlkun einhverra keppenda.

Ég get bara ekki lýst þessu, þetta er bara of auló. Og þegar ég fæ hrollinn fylgir gæsahúðin strax á eftir og þá neyðist ég til að skipta um rás (þó að ég eigi það á hættu að lenda inni á Smallville á Sirkús).


mánudagur, september 04, 2006

IKEA féllst á að taka athugasemdir Véfréttarinnar til greina og bjóða ásættanlegar sárabætur þannig að viðskiptabanninu hefur verið aflétt.

Hins vegar uppgötvuðu Véfréttin og nývígði eiginmaðurinn sykursæti alveg nýtt himnaríki, í fyrrum Blómavalshúsinu. Þar má finna kanaskran í ýmsum stærðum og gerðum (aðallega samt stórt) og hafi kona hug á að komast yfir eitthvað af því er leyfilegt að prútta.

Prútt! Jibbí!!!

Hjónakornin keyptu sér Risastórt Dallas-skrifborð, tvo himinháa skjalaskápa og fíneríis skenk á einungis ISK 40.000 (með smá prútti, auðvitað). Daginn eftir fengu nokkur gjafabréf að fjúka í sænska veldinu. Ein klassísk lítil Billy-hilla kom með heim þann daginn og ein svona Expedit (með 25 hólfum):

http://is04.ecweb.is/ecproof/upload/books/book_EDDBBD38-BD93-4460-BF0D-86ECCA5DBAFC/generations/g_0465949A-3135-444E-A1EB-2C9143D0895A/

Nú er allt á hvolfi. Helgin entist ekki til að koma öllu á sinn stað. Og nú er sveimhuginn aftur byrjaður að vinna og frúin á fullu í skólanum. Íbúðin verður á hvolfi fram undir jól.

En hey, við eigum nýjar mubblur og efnisleg hamingja flæðir um híbýli vor...