mánudagur, júní 28, 2004

Á kosningadaginn rifjaði Véfrétt um tísku liðinna ára með Sveimhuga, út frá áherslum dagsins í dag á 80's-æðið. Véfrétt og Sveimhugi rifjuðu upp 90's. Þetta er það sem rifjaðist upp:
* Skór með stáltá (stáltáin utan á, stundum bara stálplata).
* Levi's 501
* Litaðar gallabuxur (Sveimhugi átti hvítar, Véfrétt vínrauðar)
* Unglingajakkar/prakkarajakkar (svartir/grænir með appelsínugulu fóðri)
* Vesti, einkum leðurvesti!
Véfrétt heldur niðri í sér andanum af spenningi eftir endurkomu 90's tískunnar.

föstudagur, júní 25, 2004

Einu sinni var kjörinn forseti á Íslandi sem var með píku en ekki tippi eins og áður hafði tíðkast. Olli þetta miklum straumhvörfum fyrir íslenska þjóðarsjálfsmynd. Atvikið varð heimsfrægt, Ísland þótti hafa komist á toppinn hvað varðaði jafnrétti kynja og í beinu framhaldi lagðist kvenréttindabarátta af, rauðir sokkar komust úr tísku og orðið femínisti varð að fúkyrði.
Í ár eru kosningar og að þessu sinni eru frambjóðendurnir þrír allir með tippi (skv. traustustu heimildum Véfréttar). Ekki nóg með það, heldur eru þeir allir svo illa brenndir á viðureign sinni við íslenskt kvenfólk að þeir hafa leitað út fyrir landsteinana eftir kvonfangi allir sem einn.
Íslenskar konur eru sennilega komnar eins langt frá forsetaframboðinu og þær komast, eða má lesa út úr þessu einhver flóknari skilaboð?

miðvikudagur, júní 23, 2004

Grænu föndurskærin sem tekin voru af mér í málmleitinni á flugvellinum í Varjá hefði ég getað notað til að:
* Klippa ofan af popppokanum mínum og öðlast þannig greiðari aðgang að innihaldinu.
* Klóra mér í moskítóbitunum.
* Klippa af mér sætisbeltið ef sylgjan stæði á sér.
* Framkvæma flugránið sem ég neyddist til þess að fremja með naglaklippunum í staðinn.

föstudagur, júní 11, 2004

Vá, en magnað einkanúmer... HÓPÓ... á hópferðabifreið (rútu) frá Hópferðamiðstöðinni!

fimmtudagur, júní 10, 2004

Þetta gerði Véfrétt í gær:
* Skoðaði fáklætt fólk á Austurvelli og dáðist að asbest-eiginleikum íslenskrar húðar um leið og hún velti því fyrir sér hvaða gen séu ríkjandi í hennar eigin kulda-óþolnu gæsahúð.
* Lét ,,ballansera" bílinn, eða allavega dekkin á bílnum, og komst um leið að því að stýrisendi er í hassi og bíður þess eins að valda hörmulegu slysi á (aðeins) fjórbreiðri Miklubraut (/Hringbraut) á háannatíma.
* Tók þátt í því ódæði að gæsa vesalings varnarlausa en velviljaða verðandi brúður sem er nýkomin heim frá Brandararíkjunum, til þess eins að láta dubba sig upp í grímubúning og gera sig að athlægi í nýbyggðu uppahverfi í Hafnarfirði.
Þetta ætlar Véfrétt að gera í dag:
* Gefa góða veðrinu á Íslandi annan séns.
* Hringja í Bílaverkstæði Bjössa og láta redda stýrisendanum, helst á morgun.
* Pakka barnafötum ofan í Póllandsferðatösku.
* Hvetja fólk til að skrifa undir Hringbraut í göng (http://www.tj44.net/hringbraut/undirskrift/).
Enn sannast hið fornkveðna; allt að gerast...

þriðjudagur, júní 08, 2004

Véfrétt heyrði um námsbraut á framhaldsskólastigi fyrir verslunarfólk. Þar getur kassafólk í Bónus fengið þá skólun sem það þarf. Véfrétt gleðst í hjarta sínu og sér strax fyrir sér hnignun og endalok hinnar íslensku þjónustulundar, sem bæði klórar og bítur í eðli sínu og á það til að toga í hár líka. Upp munu renna tímar stimamjúkra og kurteisra afgreiðslumanna og -kvenna sem stjana við viðskiptavininn á alla hugsanlega lundu og verða við öllum óskum hans og dyntum með bros á vör. Vá, hvað það verður gaman að vera til eftir nokkur ár.
Vonandi verður í framhaldi boðið upp á kurteisisnámsbraut fyrir bankastarfsfólk, starfsfólk Tryggingastofnunnar og LÍN og yfirleitt alla sem þurfa að svara í síma eða yfir höfuð þjónusta óbreytta en langþreytta borgara.
Að lokum er rétt að taka fram að Véfrétt hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að ná frama í stjórnmálum og er þegar hafin handa við að ná því takmarki.

mánudagur, júní 07, 2004

Og þá eru það útnefningar líðandi stundar:
Hrósið skiptist á milli afgreiðslustúlku með aflitað hár í bensínsjoppu á Húsavík, fyrir að hringja í blómaafgreiðslukonu í plássinu og græja afgreiðslu fyrir hjálparlausa utanbæjarkonu á hvítasunnudegi og forsetans fyrir að gera ekki eins og Davíð vill.
Andhrósið, sumsé skömm í hattinn, fær Kaffi Krókur á Sauðárkróki fyrir hallærislegan salatbar og fábreytilegt úrval kaffidrykkja (en annars ekki alslæm búlla).