fimmtudagur, apríl 26, 2007

Véfréttin er frekar stolt. Á þessum ágæta tengli er að fylgja umfjöllun og viðtal um og við hennar heittelskaðan (síðast í þættinum, draga sleðann aftarlega).

Hulunni hefur verið svipt af huldumanninum og hljóðsmalanum...

mánudagur, apríl 23, 2007

Véfréttin skilur ekki af hverju hún og einhverjar þúsundir í viðbót voru látnar æða í Kringluna og á fleiri kjörstaði á laugardegi fyrir nokkrum árum til að kjósa burt flugvöllinn í Vatnsmýri ef það er svo hægt að dæma þessi atkvæði sem marklaus og einskis verð. Nú er iðulega talað um málið eins og það megi bara einhverjir pólitíkusar ákveða, eftir eigin geðþótta, hvort flugvöllurinn verður eða fer. Hey, við vorum búin að svara: Við viljum hann burt og nota plássið í annað. Ok? Véfréttin fúla er enn í tölvuherbergi tengdó, ásamt ört stækkandi fjölskyldu sinni. Von er á tryggingamati og fleiru þannig í vikunni, vonandi.

Véfréttin óskar eftir íbúð til leigu / íveru. Verður að vera ódýr (/ókeypis) og laus nú strax. Ef einhver er að fara til útlanda vill Véfréttin minna á að hún er afar fær í fóðrun gæludýra og blómavökvun. Og ekki gleyma því að minna er um innbrot í íbúðir sem búið er í heldur en þær sem standa tómar...

sunnudagur, apríl 15, 2007

Véfréttin hefur verið í útlegð frá heimili sínu á þriðja sólarhring. Ástæðan er grunur um svona. Sem gæti útskýrt af hverju Véfréttin er enn með hitavellu, viskírödd, kinnaholubólgu og æjá, var búin að lofa að fara ekki út í of nánar lýsingar. En þetta gæti líka útskýrt af hverju Véfréttin er fyrirvaralaust, og á gamalsaldri, orðin vegan - að sjálfri sér forspurðri (ef svo má að orði komast).

Þannig að enn gæti orðið bið á að Véfréttin skrifi einhverjar djúsí færslur um eitthvað sem máli skiptir (fyrir aðra en hana sjálfa). En takk fyrir sætu kommentin frá því síðast!

Andvarp...

sunnudagur, apríl 08, 2007

Véfréttin er búin að vera lasin. Þá meinar Véfréttin MEGA-lasin. Véfréttin kann sig betur en svo að fara út í grafískar lýsingar á veikindum sínum, en í stuttu máli eru í dag liðnar 4 vikur síðan Véfréttin einfaldlega lagðist – og síðan hefur hún legið. Þannig að það sem þið hafið hugsanlega heyrt um að vetrarflensurnar í ár væru óvenjulega svæsnar – það voru ekki ýkjur.

Needless to say er Véfréttin ekki að fara að útskrifast í vor af þessum sökum. Nú er bara að vona að síðustu leifar viskíraddarinnar rjátlist af annars dagfarsþýðum raddböndunum svo að Véfréttin geti talað Nemendaskrá og aðra mikilvæga aðila til og fengið að útskrifast í haust.

Doldið súrt í broti – en hey...

Nú eru páskar og allir eru glaðir. Páskar eru strangheiðin vorhátíð, fyrir þá sem eru eitthvað að spá í helgi og heilagleika. Og páskar rokka, þegar hægt er að njóta þeirra með hreinan öndunarveg, hljóðlátan maga og hefðbundinn líkamshita (semsagt næst).

Tölvan er stappfull af rusli og netið er í rusli líka (mæli eindregið á móti nettengingum frá ákveðnu fyrirtæki er slær um sig með ímynd ákveðins nagdýrs). Þannig að þó að rofað hafi til á köflum í hitakófinu og ljóst sé orðið að verkefnaskil fyrir vorið eru úr sögunni þá hefur Véfréttin ekki haft mjög greiðan aðgang að sínu eigin bloggi. En ef þetta birtist... þá er greinilega ekki öll von úti enn.

Efnisorð: