föstudagur, mars 05, 2004

Langar aðeins að tjá mig um útvarp. Alla jafna hlusta ég lítið á útvarp. Nema reyndar í bílnum, allavega síðan kassettutækið bilaði. Og ég er dálítið vandlát á stöðvar, ef ég hlusta á annað borð. Undanfarið hef ég hins vegar látið útvarpið ganga yfir daginn, en var með það á vonlausum stað þannig að eina útvarpsstöðin sem ég náði þar var Bylgjan. Hélt ekki að það myndi draga dilk á eftir sér, ætlaði bara að láta hana mala í bakgrunninum. Eftir um það bil 2 vikur (ég veit ekki af hverju ég lét þetta ganga svona lengi, einhver sjálfspyntingarhvöt / leti) færði ég útvarpið og get nú hlustað á fleiri stöðvar. Það var ekki seinna vænna, því ég var farin að búa mig undir að hringja í hinn geysispennandi útvarpsleik ,,fall eða fjársjóður"...
Nú er ég með ýmsar pælingar út frá þessari útvarpsupplifun minni, ja eða allavega tvær í bili.
Í fyrsta lagi: Er það einkenni vanhæfra útvarpsmanna að ofnota orðin ,,að sjálfsögðu", ,,auðvitað", ,,enginn annar en..." og ,,náttúrlega"*? ,,Þetta er að sjálfsögðu enginn annar en..." (og svo kemur eitthvað útjaskað léttpoppsnafn, Michael Bolton eða Bo til dæmis). Eða ,,þú ert auðvitað að hlusta á þáttinn XXX" - hvað er svona sjálfsagt og auðvitað við þetta allt? Þetta verður verulega pínlegt þegar þetta er ofnotað.
Í öðru lagi: Er mögulegt að of mikið af mentaðarlausi tónlist geti leitt til þunglyndis? Mér líður allavega mun betur eftir að ég stillti yfir á aðra stöð og fæ ekki lengur uppstríluð sykurpopplög á heilann, ekki það að þunglyndi hafi hrjáð mig, en það hefði getað gerst.
Já, það var ekki meira í bili. Nema smá meira nöldur: OgVodafone fær ekki meðmæli frá mér fyrir að vera snöggt né/eða greiðvikið að redda manni nettengingu heim.

*Nei, það er ekki u í náttúrlega, náttúrulega er (náttúrlega) annað orð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home