fimmtudagur, október 28, 2004

Hugleiðing um vöfflujárn:

Þau eru ekki öll þar sem þau eru séð...

þriðjudagur, október 26, 2004

Véfrétt kemst í álnir...

Sjá hér að ofan; nýstofnaða leitargræju frá google. Svona farið þið, lesendur góðir, að: Leitið að einhverju eins og t.d. travel, music, video, porn, health, maternity, sport eða pregnancy. Þá koma upp einhverjar niðurstöður og jafnframt þar fyrir ofan tenglar sem einhver fyrirtæki (í tengdum iðnaði) hafa borgað fyrir. Á þá skal smellt og með það sama fer Véfrétt að græða á tá og fingri. Hljómar eins og eitt af þessum lélegu plottum, já, en Sveimhugi prófaði þetta og er nú orðinn moldríkur!
Lifi sjálfstæður atvinnurekstur!

föstudagur, október 15, 2004

Stórmarkaðir eru alltaf með einhverja tilboðsdaga helgaða ákveðnum löndum. Í gær sá ég t.d. tvær aðskildar auglýsingar, eina um breska daga og aðra um danska, í sitt hvorri búðinni. Ég fór að velta því fyrir mér af hverju þessar auglýsingar kveikja engan eld í æðum mínum (eins og tilboðsauglýsingar eiga náttúrlega að gera). Komst að þeirri niðurstöðu að það væri vegna knýjandi skorts á framandleika. Hvern langar að gera sér ferð í ákveðna búð til að kaupa sér aðeins fleiri breskar eða danskar vörur en venjulega? Nú geri ég mér grein fyrir að þetta val á þemadagalöndum tengist eitthvað viðskiptasamböndum Íslands, en engu að síður er á hreinu að ég myndi leggja mun meira á mig til að komast í viðkomandi verslun ef um aðeins meira spennandi þjóðir væri að ræða. Segjum bara t.d. Azerbadjanskir dagar í Nóatúni. Eða Qatarskir dagar í Nettó. Angólskir dagar í Bónus? Nú, eða það sem myndi raunverulega gera mig glaða: Súrenamskir dagar, í bara hvaða búð sem er!

fimmtudagur, október 14, 2004

Fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor í neyslu og vantar sambönd:

www.dopsalar.blogspot.com

... sem reyndar minnir mig á slagorð sem ég er mjög hrifin af:

Smoke bush - not Irak!

miðvikudagur, október 13, 2004

Áður en ég kem mér að efninu vil ég fyrst hafa þetta á hreinu: Enginn hefur nokkru sinni vænt mig um að velgja næturgölum undir uggum á nokkurn hátt. Það er frekar að ég sé beðin (mis-) kurteislega að halda mínum hljóðum fyrir sjálfa mig þegar mér verður það á að falla í söngtrans innan um fólk. Þess vegna er afar hæpið að ég myndi nokkurn tíma hafa tekið þátt í IDOL - Stjörnuleit. Komst næst slíkum glappaskotum þegar ég mætti í áheyrnarpróf fyrir Hárið snemma á tíunda áratugnum, sá Emilíönu Torrini og fleiri söngspírur í biðröð og bakkaði hvekkt út. Nema hvað. Það sem ég vildi sagt hafa var að ég er ekki alveg viss um að aldurstakmörk í IDOLinu séu réttlætanleg. Kannski standast þau ekki einu sinni jafnréttislög. Hver ákvað það að eftir kvah, 27 ára aldur (er það annars ekki aldurstakmarkið? Jæja, allavega 26, 27 eða 28, nenni ekki að tékka) sé maður ekki lengur hæfur til þess að slá í gegn og verða poppstjarna? Á hvaða forsendum er slíkt ákveðið?
,,Æ, ertu orðin(n) 27? Hérna er skófla, þú getur byrjað að grafa gröfina þína núna."
Ég skora á eitthvert rebel á virðulegum aldri að mæta í keppnina og ljúga til um aldur sinn (og vinna).

þriðjudagur, október 12, 2004

Mér hefnist grimmilega fyrir vel meinta framtaksemi mína, því nú er kominn linkur inn á mig úr Durham Doðrantinum og það gæti haft afdrifaríkar afleiðingar. Hef fram til þessa lagt mig í líma við að segja engum frá blogginu mínu, en nú gæti það borist út sem eldur í skrjáfandi sinu. Fyrir þig (ef einhver ert) sem smelltir þér hingað inn beint frá Durham vil ég segja þér frá því að ég er hvorki jafnoki meðal-nemanda í Íslömskum fræðum hvað varðar afköst né orðforráð. Enda set ég ekki markið svo hátt. Bloggið mitt er fyrst og fremst útrás fyrir nöldurþörf, eins og flest íslensk blogg. Dagbókin mín er mun líflegri, en því miður fyrir upplýsingaþyrsta hef ég í rúm 17 ár haft þann sið að hafa hana prívat og get ómögulega hugsað mér að kommersíalisera hana núna.
En ef ég væri ekki í losti yfir þessari óvæntu markaðssetningu myndi ég ef til vill segja nokkur vel valin orð um über-pólitískan fund sem ég fór á í gær. Hjá stjórnarandstöðunni hér í bæ (fyrir þá sem ekki fylgjast með). Myndi gjarnan vilja segja nokkur orð um crowdið þar, en því fylgir töluverð áhætta fyrir pólitískan frama minn, ef eitthvert þeirra skyldi nú álpast hingað inn dag einn. Og hvað veit maður, ef markaðssetningin heldur áfram með þessum hætti?
Allavega, þemað var umhverfismál. Meðal margra áhugaverðra staðreynda og hugmynda sem varpað var fram stendur þessi hugstaðmyndarreyndarspurning eftir: Á að rukka fólk fyrir rusl sem það sendir frá sér? Hugmyndin er þá að vigta og rukka eftir kílóum, eða grömmum kannski, er ekki viss. Frábært fyrir barnafjölskyldur með bleiurassa í sínum röðum. Enn betra fyrir fatlaða og aðra sem þurfa að geta treyst á einnota dót alls konar. Sé fyrir mér nýja tegund glæpa: Að henda ruslinu sínu í tunnu nágrannans... hrollvekjandi verknaður! Annars gefur þetta líka möguleika á því að fara bara með ruslið sitt eitthvert afsíðis, upp á öræfi til dæmis, og skilja það eftir þar. Spennandi valmöguleiki semsagt.
Og nú er ég hætt.

mánudagur, október 11, 2004

Vil bjóða nýjustu bloggsystur mínar velkomnar til leiks (af því að ég er svo mikill reynslubolti í þessum efnum, haha) og vil í leiðinni hrinda af stað getraun / keppni; hvor er afkastameiri?
www.stpie.blogspot.com
www.evahronn.blogspot.com

föstudagur, október 08, 2004

Véfrétt er borgið! Um leið fær Véfrétt innblástur. Í dag bárust í póstinum heldur en ekki gleðileg tíðindi. Í appelsínugulu sérmerktu umslagi, skreyttu með glaðlegum marglitum doppum barst Véfrétt eftirfarandi tilkynning: Nýju Always Ultra vernda þig! Og hvað þarf varnarlaust konugrey frekar, á þessum síðustu og verstu? Ekki nóg með það, heldur var í hugvitssamlegu broti á bak við þessa hughreistandi tilkynningu búið að koma fyrir einmitt einu svona verndandi bindi (sem Véfrétt hugkvæmdist til dæmis að líma á vegginn fyrir ofan höfðagaflinn sinn og þannig sofa örugg hér eftir, einnig mögulega á stuðarann á bílnum).
En ekki var allt sem sýndist. Fyrir neðan bindið stóð, með smáu letri: Prufa - notið ekki. Hvað var þá til bragðs að taka? Véfrétt las meira og komst þá að því að með því að mæta á Tapas-barinn á næstunni og dansa við latínó-fola í bleikri skyrtu gæti hún átt möguleika á stórkostlegri ferð fyrir 2 á Karnival á Kanarí. Í beinu samhengi (?!) er fullyrt að nýr og endurbættur blár (!) kjarni í Always Ultra bindunum dragi í sig meiri vökva en kjarni nokkurs annars bindis. Það er nú einmitt það sem við þurfum: Þurrari kvenmannsklof (betri getnaðarvörn er ekki hægt að hugsa sér).
Akkúrat á þessari stundu gegnir appelsínugula orðsendingin, með ónothæfa prufubindinu, hlutverki þroskaleikfangs fyrir bindisneytanda framtíðarinnar sem situr sallasátt(-ur?) í sinni einkar rakadrægu Bambolina-bleiu og kynnir sér eðli og eiginleika Always Ultra (einkum og sér í lagi límröndina) í þaula.

fimmtudagur, október 07, 2004

Lengi hefur Véfrétt ekki dottið í hug nokkur skapaður hlutur til að blogga um. Nema þá helst eitthvað húsmæðra- og/eða uppeldistengt, sem er bara engan veginn kúl. Þannig að þögnin hefur ríkt á blogginu og myndi ríkja enn, ef ekki kæmi til skyndileg framtakssemi. Nei, Véfrétt hefur enn ekki komið neitt í hug til að blogga um. Véfrétt er sannfærð um að heimsmálin séu á hraðleið til helvítis og að það taki því ekki að tjá sig um slík málefni. Hins vegar er hægt að blogga um ekkert, eins og hér má sjá, og þá lítur út fyrir að bloggað hafi verið nýlega og þessi langa bloggeyða verður minna þrúgandi.