þriðjudagur, júlí 26, 2005

Á morgun kemur tvennt mikilvægt (ef ég hef skilið rétt):

  1. Álagningarseðlarnir
  2. Eva Hrönn

(Ath. atriðum á listanum hér að ofan er ekki endilega raðað eftir mikilvægi)

sunnudagur, júlí 24, 2005

Undanfarið hef ég tekið eftir fréttaflutningi af skeleggri ungri stúlku með sterkar skoðanir. Hún heitir Arna Ösp Magnúsardóttir. Mig grunar að hún muni innan skamms nappa titlinum Mótmælandi Íslands. Helgi Hós getur þá loksins slappað af og sest í helgan stein.
Ég hlakka til að fylgjast með henni.

föstudagur, júlí 22, 2005

Í seinni tíð hef ég þróað með mér mikla andúð á hvers konar óhreinindum í almenningssturtum. Í seinni tíð segi ég, því langt fram eftir öllum aldri öslaði ég hár og hor upp í ökkla án þess að hugsa mig tvisvar um. En núorðið er ég mjög pjöttuð og þegar ég fer í sturtuna í Baðhúsinu gríp ég hiklaust til sturtugólfsköfunnar (er til eitthvað official orð fyrir þetta tæki?) ef mér hugnast ekki útgangurinn á gólfinu. Nema hvað, fyrir nokkrum dögum var í búin að púla og puða og taka vel á og var sennilega ekki að líta mikið í kringum mig á leiðinni í sturtuna, en þegar ég stóð undir bununni og leit yfir gólfið fylltist ég hinum mesta viðbjóði. Gólfið var löðrandi í rauðri sokkaló, og slóðin lá þar að auki beint að sturtunni minni. Ég bölvaði sjálfri mér fyrir að hafa ekki horft betur niður fyrir tærnar á mér þegar ég valdi mér sturtu og hneykslaðist hjartanlega á þeirri óforskömmuðu konu sem hafði subbað svona út. Ef að maður á rauða sokka sem láta svona mikla ló, hugsaði ég, þá er það nú það minnsta sem maður getur gert að dusta hana af einhvers staðar yfir ruslafötu eða vaski eða eitthvað áður en maður fer í sturtuna! Ég meina, þetta er náttúrlega svo pínlegt fyrir konugreyið, allir hljóta að sjá þegar hún þrammar inn í sturtuna, löðrandi í rauðri sokkaló og sporar allt út um allt... en vandræðalegt! Ég fylltist megnri vanþóknun og varð litið niður fyrir mínar eigin tær, einna helst í þeim tilgangi að reyna að skola lóna burtu úr sturtunni minni, svo að ég þyrfti nú ekki að standa í henni. Sá ég þá mér til mikillar skelfingar að eitthvað af þessari lævíslegu ló hafði, sennilega þegar ég tiplaði kvenlega yfir að sturtunni eins og mér einni er lagið, þegið far með fótum mínum og festst undir nöglinni á stórutá. Þvílíkur viðbjóður! Annarra manna (/kvenna) sokkaló á mínum tám! Föst! Það var ekki fyrr en ég byrjaði í nettu panikki að reyna að losa hana með hinni löppinni að það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði einmitt verið í rauðum sokkum í ræktinni þennan daginn.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Var að horfa á fréttir Stöðvar 2. Þar er kominn nýr fréttastjóri - Sigmundur Rúnarsson (sem fyrir nokkrum árum ku hafa tekið sér listamannsnafnið Ernir). Mér leist bara ágætlega á það, eða alveg eins, hafði enga sérstaka skoðun á því máli. Þangað til hann missti sig! Það var verið að fjalla um hvernig örorkubætur skerðast við allt mögulegt og það er náttúrlega slæmt mál. En Sigmundur Ernir treysti ekki áhorfendum til að álykta um það sjálfum, heldur þrumaði hann yfir lýðnum, úr fréttamannsstólnum nota bene, um hve slæmt þetta væri nú allt saman og hvernig þessu þyrfti nú að kippa í liðinn. Við sátum sem þrumu lostin í sófanum okkar og vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið! Var ekki meiningin að hann væri fréttamaður? Og þar að auki yfirmaður hinna fréttamannanna? Hvað var þetta eiginlega?

föstudagur, júlí 15, 2005

Nýkomin heim úr 4ra daga reisu út á land. Svaka stuð.
Við áttuðum okkur á því að við erum ekki hardcore innanlandsferðalangar. Í fyrsta lagi gleymdist ýmislegt, eins og til dæmis yfirhöfn fyrir Sveimhugann, hlífðarfatnaður einhvers konar fyrir barnið... já og svona smotterí. Í öðru lagi er það greinilega ekkert fyrir áhugafólk að tjalda á Íslandi í dag. Við þóttumst nokkuð vel útbúin með 11 ára gamla kúlutjaldið okkar og einnota bensínstöðvagrillið, en áttuðum okkur fljótt á því að við áttum ekki séns í atvinnufólkið sem var með borðstofu inni í tjaldinu sínu, svefnálmur til beggja handa, alls kyns rafmagnsdót tengt í risastóra fjallabílinn, batterís-lampa, háþróaða prímusa, gasgrill, ferðahægindastóla, uppblásnar heilsudýnur og svo framvegis. Við eigum ekki einu sinni svefnpoka, en sængin virkar ágætlega. Svo var klæðnaður okkar heldur í samræmi við tjaldstæðatískuna, gallabuxur þykja ekki inn í þeim kreðsum, ekki heldur léttir skíðajakkar eða strigaskór. Málið er útivistarfatnaður úr efnum sem maður kann ekki að nefna (mér detta í hug orð eins og goritex og kevlar en veit eigi vel hvort þau eiga við hér). Ég var mjög fegin að Sveimhuginn skyldi vera með flíspeysuna sína meðferðis, því að þó að hún sé bara svört og það séu engar æpandi endurskinsrendur á henni, né heldur áberandi hipp framleiðandamerki (Cintamani, 66°N eða annað enn meira framandi og flott) þá var hún allavega úr flís.
Það fór samt ágætlega um okkur, í kyrrð og ró undir rótum Vatnajökuls. Skaftafell rokkar. En ég hef mikið pælt í þessu með útbúnaðinn, og svona sé ég dæmið fyrir mér:
Maður getur reiknað með því að sofa... tja, í allramestalagi 7 nætur á ári í tjaldi (ef maður er virkilega einbeittur tjaldari). Og ég sé fyrir mér að ef par ætlar að vera með allt sem það þarf að eiga til að vera gjaldgengt á íslensku tjaldstæði, semsagt allt sem hér var upptalið að framan, auk t.d. ferðaeldhúsáhalda, með tilheyrandi flugnahlífum og plast-kampavínsglösum osfr. þurfi maður að borga tja, eigum við að skjóta á 500.000? Þá er ég að hugsa um ,,startpakkann". Ég hef náttúrlega ekkert verðskyn í þessu tilfelli, en ég veit bara að þetta er allt rándýrt og ég geri með að báðir aðilar í parsambandinu þyrftu að eiga a.m.k. 2 svona überútivistarklæðnaði, svona til skiptanna. Og svo þarf á hverju ári að endurnýja eitthvað og bæta við og laga osfr... þannig að kostnaðurinn endurtekur sig á nokkurra ára fresti. Já og svo verður maður helst að eiga jeppa eða veglegan heimilistrukk.
Nú. Dýrustu hótelnætur á Íslandi kosta um 20.000.- Kvöldmatur, tja, svona 6.000. - fyrir tvo. Morgunmatur innifalinn. 7 nætur á þannig hóteli kosta því 182.000. Maður getur verið allan daginn á kafi í nátturunni upp fyrir haus, látið mýið narta í allt kvikt hold, dottið ofan í hveri og jökullón, kalið á jökulbreiðu, sólbrunnið í siglingu og svo framvegis. En svo bara farið heim á hótel, matast og gengið til náða, þurr og áhyggjulaus. Það tæki mann 2 og hálft ár með þessu móti að eyða jafn miklu og sá sem fær sér útilegustartpakkann.
Ekki svo að skilja að ég myndi nokkurn tíma borga 20.000 fyrir gistingu.
Borguðum 5.000 krónur á hinu mjög svo íslenska gistiheimili Lunda á Vík í Mýrdal í fyrrinótt og þó að ég mæli ekkert sérstaklega með því þá gengdi það algerlega hlutverki sínu.
En ekki er hægt að ljúka ferðatengdu íslensku bloggi án smá veðurrembings, þess karakteríska íslenska kæks. Markmiðið með ferðinni var leynt og ljóst að komast úr rigningunni og það tókst - við höfðum uppi á sólinni í Skaftafelli, króuðum hana af uppi við jökulinn og héldum henni í gíslingu í heilan dag, drógum hana svo með til Víkur og þaðan á Hvolsvöll þar sem við notuðum hana meðal annars til að ná upp mannsæmandi hita í sundlauginn. Slepptum henni að lokum lausri í Hveragerði í gærkvöldi, svona rétt áður en við fórum yfir Kambana í höfuðborgardrungann.

mánudagur, júlí 11, 2005

Nú erum við að fara í ferðalag (aftur). Á Stórreykjavíkursvæðinu er rigning. Við vonumst til að finna smugu út úr henni. Það er helsta markmið ferðalagsins.
En eiginlega ættum við að vera lögð af stað fyrir löngu. Ef að Sveimhuginn vissi að ég er að eyða dýrmætum tíma í ekki merkilegri iðju en að blogga myndi hann eflaust hoppa hæð sína í loft upp af bræði. En sælir eru fávísir (sem fara með börn út á róló í rigningu).
Sveimhuginn keypti nýjasta eintakið af Frjálsri verslun. Þar eru taldar upp 70 áhrifamestu konurnar í íslensku viðskiptalífi. Gott og vel. Blaðaði í gegnum blaðið, það er voða fínt. Sætar og krúttlegar myndir af öllum duglegu konunum og nokkrum körlum líka. Á þó eftir að taka sjálft lesefnið út, út frá femínísku sjónarhorni.
Nema hvað, þetta minnti mig á mynd sem ég sá í Fréttablaðinu, eða öðrum sams konar miðli, í síðustu viku. Það var mynd af leiðtogum G8 ríkjanna og nokkrum öðrum mikilvægum einstaklingum frá ýmsum löndum (nokkrir svartir, meira að segja, sem líta má á sem vísbendingu um afríkanskan uppruna) sem stilltu sér upp með þeim til myndatöku. Nema hvað; eitthvað þótti mér torkennilegt við myndina, svo að ég staldraði við hana og rýndi í pínulitlu svarthvítu andlitin þar til ég áttaði mig á því hvað það var. Af 20 lykilpersónum, á fundi G8 ríkjanna, var ekki ein einasta KONA!!! Ég varð svo gáttuð að ég bara glápti og glápti, taldi aftur, rýndi meir og var áfram gáttuð.
Spáið í því...
Og í framhaldi af þessu G8 dæmi öllu langar mig að segja brandara, en hann er svo lame að ég kann ekki við að setja hann á blogg, þar sem hver sem er gæti rekið í það augu... og dæmt mig um aldur og ævi fyrir aulaskap. En ef einhver vill samt leggja það á sig er velkomið að meila mér og ég mun brandarast til baka um hæl...

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Allow me to say:

1998...

http://ies.waw.pl/~jmarci/helga/

föstudagur, júlí 01, 2005

Í dag varð Húsasmiðjan loks talsvert ríkari - þökk debetkortinu mínu.
Annars knýja Live 8 tónleikarnir mig til að viðra bloggleg viðhorf: Það er varðandi þessa kröfu hugsjónapopparanna (/markaðssetningarsnillinganna) um niðurfellingu skulda. Ókey, ég viðurkenni að ég er of löt, nú á föstudagskvöldi, til að leita að þessu dæmi öllu á netinu og lesa mér til um smáatriðin í þessarri kröfu þeirra. Þannig að kannski er eitthvað twist í henni, sem gerir þetta að skynsamlegri lausn. En annars er þetta alveg brjálæðislega einfeldningsleg og hallærisleg krafa sem gerir alla tónleikana og umstangið í kringum þá svolítið heimskulegra en það ætti að vera. Og ókey, takk, vel nærða og vel greidda vestræna fólk fyrir að leggja ykkar af mörkum til að senda nokkrar krónur til ykkar minna nærðu og síður partígreiddu meðsystra og -bræðra, en hefði ekki verið tilvalið að nota tækifærið til að kynna sér málin aðeins?