föstudagur, janúar 26, 2007

Grasekkja ég orðin er
grasekkja ég verða mun
uns sveimhuginn minn aftur fer
að snúa sér í átt að mér

Öxulveldið hefur hann tælt
og við sveimandi hugann djarflega gælt
á meðan vex mér gras á kinn
og ég syrgi sveimhugann minn

Erfiðir dagar fara í hönd
komast mun ei lönd eða strönd
heima bundin húsi í
samúðarkveðjur óskast því

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Véfréttin er ekki sérstaklega áhugasöm um íþróttir, án þess þó að vera með neina kergju í garð þeirra sem þær stunda eða hafa á þeim áhuga.

Hins vegar fyllist Véfréttin gjarnan angist þegar hún fréttir af slæmu gengi landsliðsins í handbolta og að sama skapi gleðst hún innilega þegar því gengur vel.

Þessar tilfinningasveiflur í tengslum við gengi landsliðsins orsakast af því að í heimalandi Véfréttarinnar hefur gengi handboltalandsliðsins mjög sterk áhrif á þjóðina, sjálfsmynd hennar, sálarástand og samskipti þegna innbyrðis. Þegar vel gengur hjá landsliðinu gengur allt betur hjá þjóðinni og allir eru ögn léttari í lund. Það fellur Véfréttinni betur í geð heldur en þunglyndi og bölsót í kjölfar slæms gengis.

Ergó: Véfréttin heldur eindregið með íslenska handboltalandsliðinu (þó að hún horfi ekki á leiki). Viva la handbolti.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Herra og frú Véfrétt brugðu fyrir sig betri fætinum um helgina og fóru í kvikmyndahús. Sko þau, ekki dauð úr öllum æðum, ha!

Myndin sem þau sáu var Köld slóð. Það var reyndar ekki fyrsta val, en Smárabíó fær algera falleinkun fyrir hrikalega þjónustu við viðskiptavini sína. Nokkur orð um það:

Það er kalt mat Véfréttarinnar að það sé ekki eðlilegt að mörghundruð metra biðraðir séu daglegt brauð í bíóhúsi - eða það er allavega ekki eðlilegt að þegar raðir eru svo langar að aðeins séu starfsmenn í tveimur miðasölulúgum af fjórum. Þetta leiðir til þess að fólk sem mætir akkúrat tímanlega missir ekki bara af auglýsingunum, heldur einnig fyrsta kortérinu af myndinni.

Í því tilfelli sem hér um ræðir geta Véfrétt og Sveimhugi svo sem sjálfum sér um kennt að það var uppselt á myndina sem þau langaði á, þau hefðu átt að vera ögn fyrr á ferðinni. En þetta er samt skítabíó - aldrei þangað aftur. Það er óforskammað að gera ekkert til að grynnka á endalausri röð.

Nú... væntingar hjónanna til kvikmyndarinnar sem þau enduðu á voru ólíkar. Véfréttin hélt að hún væri léleg og Sveimhuginn að hún væri góð. Enda fór svo að myndin kom Véfréttinni skemmtilega á óvart en olli Sveimhuganum miklum vonbrigðum.

Í sjálfu sér er ekki meira um þessa kvikmynd að segja en hinar íslensku myndirnar, en það er eitt sem Véfréttin finnur sig knúna til að tjá sig um. Það var ógeðfelldasti kvikmyndakoss sögunnar, ef frá eru taldir kossar sem beinlínis eiga að vera ógeðslegir, ofbeldisfullir eða annað í þeim dúr.

Þresti Leó Gunnarssyni og Elvu Ósk Ólafsdóttur tókst það sem engu öðru kvikmyndapari hefur fram til þessa tekist; að senda Véfréttina heim með viðvarandi klígju. Pjæ.

föstudagur, janúar 12, 2007

Einu sinni sá véfréttin þátt í sjónvarpinu sem hét "Rock'n'roll daughters". Mjög áhugavert, út af fyrir sig.

Fyrir þessi jól voru nokkur svona rokkbörn með í útgáfuflóðinu. Véfréttin hefur ekki gert ýtarlega úttekt á þeim, en man eftir þremur í svipinn, það er Elísabet Ellenar- og Eyþórsdóttir, Bryndís Jakobs- og Ragnhildar-Gísladótturdóttir og Whatshisname PálmaGunnarssonarson.

Rock´n´roll daughter


Þetta finnst véfréttinni athyglisvert, en hefur eiginlega ekkert sérstakt um þetta að segja. Nema kannski að Bryndís þessi var bara með mömmu sinni í einhverju lagi á safnplötu (Megasarlög) en ekki með sína eigin plötu. Hún var samt eiginlega mest kúl því að hún spilaði á gítar líka.

Sem aftur leiddi véfréttina út í vangaveltur um það hve ótrúlega oft konur láta sér nægja að vera söngkonur, á meðan karlar, hversu vel syngjandi sem þeir eru, eru meira í því að spila á hljóðfæri líka og semja lög og texta.

Það eru jú nokkrir gaurar sem láta sér nægja að syngja, en það eru mun fleiri konur. Það er meira að segja þannig að ef að ein kona er í bandi er hún nær undantekningaaust söngkonan og fær í besta falli að hrista hristu með. En gaurarnir eru í öllu öðru.

Þess vegna finnst Véfréttinni Lay Low kúl og aðrar framtakssamar konur, meira að segja Hera, þó að ósennilegt sé að fleiri hrós til þeirrar ungu konu muni sjást á Aðeins hinu besta.

Og varðandi Vestmannaeyjar: Skelfileg sjóferð, engir lundar, heitavatnslaus heiti pottur, ægilega hjálplegir eyjaskeggjar, fræðslumyndbönd í lange baner, þrettándatrúarbrögð og að lokum heimsókn til Kennarasleikjunnar. Hitti ekki Árna Johnsen að þessu sinni, þó að eiginmaður minn og tengdafaðir hafi ekið upp heimkeyrsluna hans og mágkona mín hafi tekið myndir af húsinu hans (þekki þau ekki). Sá hins vegar Geir Jón löggugaur, hann er líka frægur Vestmanneyjingur.





fimmtudagur, janúar 04, 2007

Véfréttin forðast stundum að minnast á og ræða hluti sem henni finnst einkenna plebba og hvítt hyski að ræða um. Þannig hefur hún t.d. ekki eytt miklu púðri í umræðu um skaupið, enda er það svo að ekki er mikil yfirstandandi umræða um það í félagahópi véfréttarinnar.

En eitt langar véfréttina að leggja til málsins að þessu sinni. Það er; skaupið er alltaf skemmtilegt. Það skiptir eiginlega engu máli hvort það er eitthvað ögn minna fyndið þetta árið og ögn hnyttnara hið næsta, það er samt alltaf skemmtilegt. Það er það skemmtilega við það.

En eins og margir sem komnir eru á jafn virðulegan aldur og hún sjálf heldur véfréttin mest upp á sum af þessum gömlu... jafn vel sum sem öðrum eru löngu gleymd. Ahhh... það voru góðir tímar.

En í dag er véfréttin á leiðinni til Vestmannaeyja með fríðu föruneyti. Farvel fasta land. Vei, vei, vei!

mánudagur, janúar 01, 2007

Kæru mikilvægu lesendur.

Véfréttin þakkar samfylgdina á liðnu ári og óskar þess heitt og innilega að árið sem nú er í startholunum verði okkur öllum stærra, feitara, safaríkara og hamingjuþrungnara en nokkurt þeirra sem á undan hafa komið.