laugardagur, janúar 17, 2004

Hver ber ábyrgð á því að Gísli Marteinn skuli ævinlega vera kynnir á öllum fancy verðlaunaafhendingum? Ég hélt að ég gæti komist ósködduð frá Íslensku tónlistarverðlaununum ef ég horfði bara á þau með öðru auganu. En ónei, strax næstu nótt fékk ég Gísla-Marteins-martröð. Það er nóg að slysast endrum og sinnum til að kveikja á kassanum á laugardagskvöldum og lenda í Gísla-Marteins-gildru. Því ákalla ég umheiminn og alheimssálina og bið aðeins um eitt (að þessu sinni): Ekki meiri Gísla Martein!!!

föstudagur, janúar 09, 2004

Alveg frá því á gamlárskvöld hef ég átt í innra stríði um það hversu réttlætanlegt sé að blogga um áramótaskaupið. Hluti af mér er sannfærður um að til þess að vera alvöru-bloggari verði hver og einn að láta í ljósi skoðanir sínar á umdeildasta sjónvarpsefni í heimi, annar hluti af mér telur það fyrir neðan virðingu sína að leggjast í sama sollinn og hitt hvíta hyskið (ísl. þýðing af hugtakinu ,,white trash") og fjasa um jafn veraldlegt og útjaskað umræðuefni, svo er það þriðji hlutinn sem fær hreinlega fiðring í magann yfir tilhugsuninni um að leggjast í sollinn og allt sem því fylgir... niðurstaðan er að ég segi nokkur orð. Bara fá. Kannski svona 20. Þau eru þessi:
Skaupið var vont. Skaupið var verra en hversdagslegasta hvíthyskisblogg um skaup getur orðið. Undanfarin skaup hafa hins vegar verið ágæt. Búið.