föstudagur, febrúar 24, 2006

Lítið um blogg undanfarið og lítið um blogg á næstunni. En ég klökkna samt yfir þeirri þolinmæði sem þið sem haldið áfram að smella á véfréttina sýnið.

Skoffínið var að klukka mig. Gott, skoffín. Mun hiklaust láta klukkast - um leið og ég er búin að öllu hinu sem ég þarf að gera.

Nokkur atriði, til að vinna upp fyrir liðið og komandi bloggleysi.

Ég var að átta mig á því að möguleikar mínir á því að láta drauminn rætast og gerast Júróvisjón-kynnir eru óðum að minnka. Um leið rann upp fyrir mér að líkurnar á að ég muni læra nægilega fluent frönsku áður en ég verð formlega afskrifuð sökum elli eru einnig hverfandi.

Ég mæli með að fólk fari í tónsmiðju Benna Hemm Hemm og Möggu Stínu á 5tu hæð Borgarbókasafnsins klukkan 21.00 og 23.00 í kvöld. Myndi fara ef ég gæti. Farið fyrir mig og berið kveðju mína!

Fréttir óskast af Söru sem fór til Brasilíu fyrir tveimur og hálfri viku og hefur síðan verið hljóð sem gröfin. Saaaara!

Ef einhvern vantar íbúð í vor þá er ég með í handraðanum herbergi í tveggja manna íbúð á stúdentagörðunum frá byrjun maí til byrjun júlí. Leigist á kostnaðarverði (sem er ekki hátt).

Hverjum haldiði annars með í Ædolinu? Ég horfi næstum aldrei á það, né Desperate housewifes, Lost, Survivor eða aðra vitleysu sem ég er vön að límast við þegar ég get. Endilega segið mér hvað er að gerast!

Og aðalatriðið: Ég fæ svo LEIÐINLEGA meila! Ég fæ þrenns konar meila:

1) Ruslpóst frá skólanum, tilkynningar um alls konar bull
2) Ábyrgðarfullan póst frá kennurum og pólitíkusum sem segja manni að gera eitthvað
3) Áframsendan sniðugheitapóst frá vinum og vandamönnum.

Þegar í raun ég þrái bara eins konar póst:

Sendibréfapóst! Þar sem einhver segir mér fréttir og svona, spjallar um daginn og veginn og endar á ,,skriv snart", sem einnig er hægt að skrifa svona:

S K R I V
N
A
R
T

!

mánudagur, febrúar 13, 2006

Ef eitthvert ykkar, kæru (fjölmörgu) lesendur, á leið í Bónus á næstu dögum og sér þar í grænmetiskælinum aldeilis smekklegar litlar plasddósir sem merktar eru Bónus-Hummus, þá ráðlegg ég ykkur, kæru vinir, að láta ekki glepjast. Bónus er og verður Bónus og ekki halda að þið séuð að fara að kaupa einhverja gæðavöru, sko.
Ef síðan einhverju ykkar mun einhvern tíma hugkvæmast að búa til hummus með AB-mjólk eða annarri mjólkurvöru, þá eruð þið að syndga gegn Hummus-guðinum og munið gjalda rækilega þegar að skuldadögum kemur!
Svona á Hummus að vera, og enga vitleysu svo:

300 gr kjúklingabaunir
2 hvítlauksrif
2 msk tahini (eða 1 dl sesamfræ)
1 sítróna (safinn)
2 msk sojasósa
1 tsk salt
2 msk ólívuolía
1/2 - 3/4 dl vatn

Við má einnig bæta, á góðum degi:

4 - 8 knippum (svona 20 - 30 stönglum) af steinselju


Svo skal öllu smellt í matvinnsluvél og þrýst á þar til gerðan ON-hnapp.

Verði ykkur að góðu.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Hef verið að reyna að gera svona kort af löndunum sem ég hef farið til. Sé þetta hjá Evu núna, en reyndi þetta líka þegar Steinunn gerði þetta fyrir svona hálfu ári. Get ekki nú frekar en þá fengið kortið til að birtast á blogginu. Skítakort (skítablogg?).

En það sem ég fór að hugsa er að það borgar sig engan veginn að heimsækja Evrópulönd, þau þekja svo lítinn hluta. Mitt stærsta vandamál, ef marka má kortið, er að hafa aldrei komið til Norður-Ameríku (nema Grænlands, sem nær reyndar yfir myndarlegasta svæði). Óska hér með eftir sponsor til að ég geti bætt úr þessu.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Á meðan matsverkefnið sem ég er að fara að lesa er að mjatlast í gegnum prentarann ætla ég að leyfa mér þann munað að blogga agnarögn. Það er munaður sem ekki verður mikið af á næstunni, allavega ekki næstu þrjá mánuðina (kannski lengur). Þegar ég sagði í haust að það væri mikið að gera í skólanum, þá vissi ég ekkert...
Tel það skyldu mína að upplýsa lesendur um að hafinn er útungunartími fyrir þau egg sem voru nýverpt þegar eitrað var fyrir rúmum tveimur mánuðum. Í gær fann ég hina myndarlegustu lirfu á þvotti sem lá í stofusófanum og í ljós kom að hún var ekki ein á ferðinni. Stofusófar eru sagðir kjörheimkynni fyrir tribba þar eð þar finnst iðulega nóg að bíta og brenna. Skemmst er frá því að segja að sófinn var tekinn í gegn og þess strengd heit að snæða aldrei matarbita framar neins staðar annars staðar en í eldhúsinu!
Í nótt dreymdi mig svo lirfur og fullvaxna tribba sem gátu breytt sér í flugur og flogið út um allt... innst inni veit ég líka að það sem gerðist í sófanum er í þessum rituðum orðum líka að gerast á bak við eldhússkápana, inni í sökklum, á bak við lista... úti um allt. Senn verður allt kvikt á ný.
Og varðandi Silvíu Nótt í Júróvisjón - oj hvað Kristján Hreinsson er mikill leiðindaseggur. Ég meina, ég skil hann alveg, en öll hin lögin (allavega sem ég hef heyrt, nema kannski eitt) eru bara einkar leiðinleg. Hvað er þá málið? Ef að Silvía Nótt keppir fyrir Íslands hönd verður það í fyrsta sinn síðan Gleðibankinn sló í gegn (hjá mér) sem ég verð ekki bara áhugasöm um Júró, heldur beinlínis stolt fyrir Íslands hönd! Og það gerist nú ekki of oft.