föstudagur, febrúar 25, 2005

Ég hef alltaf haldið að Egill Helgason væri svona frekar klár. Reyndar veit ég ekkert sérstakt um hann, veit bara að hann hefur haldið úti þessum þokkalegu viðtalsþáttum sínum og oft náð að snerta á athyglisverðum málum. Hann virðist líka oft ná nokkuð vel til viðmælenda sinna og fá þá til að opna sig dálítið og svo er hann ágætur í að stjórna umræðum. Þannig að ég hélt svona, án þess að hafa verið beint að brjóta um það heilann, að hann væri frekar klár.
Svo var ég með kveikt á sjónvarpinu í morgun og þegar ég sá að hann var sestur hjá bítisgenginu þá stillti ég fókusinn á hann og fór að fylgjast með. Og ég missti málið.
Þvílík þvæla! Fyrst lét hann móðann mása um að kristin siðfræði væri undirtónninn í íslenskri (og norrænni) menningu. Ókey, gott og vel. Augljóslega hefur kristin siðfræði spilað inn í, ég myndi samt fara varlegar í fullyrðingarnar en hann, en það er allt í lagi að hafa skoðun. Nema hvað, allt í einu var kristni orðin betri en hindúismi (orðrétt) og ,,við erum allavega ekki að undiroka konur eins og múslimar gera"... og svo framvegis. Úff.
Fyrir áhugasama um málæðið vil ég benda á að hægt er að fara inn á visir.is, velja Stöð 2 þar vinstra megin (eða bara http://www.stod2.visir.is/) og fara inn á Ísland í Bítið þann 25. febrúar 2005 og velja Egil. Fyrir aðra áhugasama má ég til með að auglýsa þáttinn hans (ef það var meiningin með gorgeirnum, þá hef ég bitið á agnið) sem verður í hádeginu á sunnudaginn og þá ætlar hann einmitt að útlista nánar yfirburði kristinnar trúar, ja eða fá aðra til þess.
Góða helgi!

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Og svo einn athyglisverður tengill frá Sveimhuganum...

http://www.nobodyhere.com/neus.hier

- þetta krefst þess að maður taki virkan þátt!

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Samkvæmt ábendingu frá Söru:

www.string-emil.de

- Njótið heil!

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Hvað er plebbaskapur? Og hvað er plebbablogg? Mig grunar að til að standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til plebbabloggs þurfi nauðsynlega að blogga nokkur orð um ædol.
Nú.
Ég sé ædolið aldrei samdægurs, hvað þá í beinni útsendingu. Ég er hins vegar nógu mikill plebbi til að láta taka það upp fyrir mig og banna öllum í kringum mig að tala um það þar til ég hef náð að horfa á upptökuna ( = tvö plebbastig í einu höggi).
Þökk sé upptökufærni tengdafjölskyldu minnar, þá veit ég nú að einungis fimm næturgalar eru eftir í keppninni um átrúnaðargoð Íslands. En plebbaskapur minn gengur ekki það langt að ég hafi fundið mér mitt eigið átrúnaðargoð í þeirra röðum.
Ég get ekki einu sinni sagt að ég haldi einlæglega með neinu þeirra umfram önnur.
Hildur Vala er reyndar vinkona hæstvirtrar (smjaður, smjaður) mágkonu minnar (sem les bloggið mitt víst stundum). Þannig að ég hef fylgst með henni af meiri áhuga en hinum frá upphafi. Og hún hefur aldrei klikkað, sem er nokkuð magnað.
Hin gellan sem hefur aldrei klikkað er Heiða.
Af þeim tveimur væri Hildur Vala sennilega meira spennandi karakter til að fylgjast með í poppbransanum. Heiða væri hins vegar ábyggilega meðfærilegri poppstjarna - svona ný Birgitta.
Kárahnjúkagaurinn syngur þokkalega, á köflum, en hann er brjálæðislega leiðinlegur og val hans á starfsvettvangi ber vott um gengdarlaust dómgreindarleysi/siðblindu.
Þá eru tveir eftir... Ylfa á góða spretti en kúkar alveg á sig þess á milli. En í vissri tónlist væri hún samt frábær - með smá þjálfun og svona.
Svo er það íþróttagellan. Stundum góð, stundum ekki. Hún virkar ekki sem neitt sérstakt poppstjörnuefni samt. Ekki Ylfa heldur reyndar.
Svo er spurning með liðið sem er dottið út. Ég held að Brynja frá Akranesi verði stjarna, hvað sem tautar og raular. Hún þarf ekki einu sinni að syngja, fólk elskar hana bara fyrir að vera til. Kannski verða hún og Ísfirðingurinn ungi ofurstjörnupar einn fagran dag í náinni framtíð!
Og nú er ég ekki bara búin að blogga um ædol heldur líka smá stjörnuslúður og þá er plebbabotninum náð í bili.
Gerðu svo vel, Steinunn (nú þú).

föstudagur, febrúar 04, 2005

Byrjunarlínur þjóðsöngs Angóla:

O patria nunca mais esqueceremos
os heróis do quatro de Fevreiro

Þýðing:

Ó föðurland, aldrei framar munum vér gleyma
hetjum fjórða febrúar...

Þetta er nefnilega merkisdagur þar í landi.

Angola avante!

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

... já, svo að ég fékk náðarsamlegast leyfi hjá hr. kennara til að færa mig. Færði mig með pomp og prakt í annað sæti, lengst úti í horni í byrjun næsta tíma. Sit þar við hliðina á fámálum en einkar viðkunnalegum miðaldra manni sem er óskaplega hávaxinn en ekki að sama skapi þéttvaxinn. Og viti menn; skyndilega gat ég fylgst með. Og þegar ég stranda þá veitir fámáli sessunauturinn minn mér hæversklegar en þó einhvern veginn nett föðurlegar leiðbeiningar, oftast án þess að ég þurfi að nefna það. Einu sinni eða tvisvar hef ég líka getað reddað honum pínu, annars myndi skapast ójafnvægi og það má nú ekki gerast.
En í dag er konan sem ekki kunni að kveikja fjarverandi. Og ég hef þungar áhyggjur af því að hún sé heima með kvíðakast eða aðra sálarkröm sem orsakast af því hvað ég var vond við hana að finna mér annað sæti án þess að segja við hana orð. Kannski kemur hún aldrei aftur og þá mun ég aldrei geta bætt fyrir mögulega fjandsamlega strauma með því að brosa til hennar og taka af áhuga þátt í samræðum um barnabörnin hennar fimm.
Fyrir utan það... er að drukkna í vinnu.
Sólarhringurinn virðist fljótt á litið vera fullur af tíma - þar af eru til dæmis 24 skilgreindir. En þeir fuðra upp og hverfa sporlaust um leið og maður opnar augun. Einkennilegt.