miðvikudagur, mars 31, 2004

Eru karlmenn réttdræpir í auglýsingum?
Ég hef tekið eftir því að það er oftast í góðu lagi að fara illa með þá í þeim tilgangi að markaðssetja vörur. Í Wheetabix auglýsingunni, sem ég hef reyndar aldrei skilið, má sjá snælduvitlausan kvenmann hlaupa út um allt og berja það sem fyrir verður með tösku. Í töskunni reynist vera Wheetabix, það kemur á daginn þegar hún er komin heim til sín. En í lok auglýsingarinnar fer hún inn í svefnherbergi, þangað sem karlmaður nokkur er í fasta svefni, eða mér hefur allavega sýnst það vera karlmaður. Og hún sveiflar töskunni af afli og allt útlit er fyrir að hún ætli að dúndra henni í hausinn á sofandi gaurnum. Það er reyndar ekki sýnt heldur endar auglýsingin þarna, í einhverju sem á ábyggilega að vera einhvers konar djók. En hvernig liti þetta út ef brjálaður karlmaður æddi út um allt og berði tösku í allt sem fyrir yrði og endaði svo á að fara heim og buffa með töskunni konuna sína, sem, nota bene, væri í fasta svefni og ætti sér einskis ills von? Það mætti ábyggilega ekki. En þegar gerandinn er kvenmaður þá má auglýsa ,,orku" og hreysti og eitthvað þvíumlíkt.
Karlmenn eru líka aular sem geta ekki verslað, kunna ekki á þvottavélar og börn mega klína í þá súkkulaði ef þeir reyna að grípa í húsverkin og bjarga gardínum frá súkkulaðiklíningi. Mig grunar að þetta sé af því að karlmaðurinn er hlutlausa kynið í samfélaginu (konan er samt hlutlausa kynið í náttúrunni!). En ég held samt ekki að þetta sé af hinu góða, ekkert kynjamisrétti getur átt rétt á sér, eða hvað?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home