þriðjudagur, júlí 25, 2006

Einu sinni á ári vinnur maður í lottói. Eða þannig líður manni alltaf. Jafnvel þó að vísbendingar við skattaframtal bendi til þess að hagur konu muni vænkast í lok júlí þá er kona alltaf jafn skelfing hissa - og glöð.

Reyndar hef ég líka lent í því að lottóvinningurinn var öfugur og það var ég sem þurfti að borga yfirvöldum háar fúlgur. Það var minna gaman.

Merkilegt hvað kona er einföld - það er ekki eins og kona eigi ekki sjálf þennan pening og hafi ekki unnið fyrir honum með eigin blóði, svita og tárum. Kannski er þetta svona ,,enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur - og fengið á ný"-fílingur.



Allavega; hvet mína nýríku lesendur til að tjá fögnuð sinn (eða örvæntingu) í þar til gerðri comment-lykkju hér fyrir neðan...

föstudagur, júlí 21, 2006

Einhver ykkar sem þetta lesa eru fróðari en ég um lifnaðarhætti Múslima. Þó veit ég að þeir sem trúaðir eru stunda ekki mikið af kynlífi fyrir hjónaband eða utan þess. Svo eru þeir náttúrlega umskornir og sama á við um einhverja aðra trúarhópa líka, man ekki alveg hvaða og hvaða ekki.

Þó að umskurður karla sé víða að miklu leyti menningarleg athöfn helst hann, eins og margar aðrar menningarlegar athafnir í hendur við trúarleg gildi. Þó að undantekningar séu að sjálfsögðu mýmargar má sjálfsagt í stuttu máli segja að þar sem fólk er nógu trúrækið og annt um sínar menningarlegu skyldur til að umskera sveinbörn sín sé því að sama skapi annt um ýmis menningarleg gildi, eins og t.d. skýrlífi.



Af þessum sökum er ég gersamlega gáttuð á æsifréttum liðinna daga. Einhverjar mannvitsbrekkur í heiminum stóra hafa nefnilega komist að því að færri umskornir menn fá alnæmi en óumskornir.

DUH!

Missti andlitið þegar virðulegur íslenskur sérfræðingur á sviði læknavísinda kom í viðtal í sjónvarpsfréttunum og reyndi vandræðalega að bera rök fyrir því að umskornir Afríkubúar væru hugsanlega ögn hreinni en hinir skítugu Afríkubúarnir (hans orð, ekki mín) og því væru þeir ólíklegri til að fá alnæmi.

Nefnilega. Spurning um að setja nokkra mannfræðikúrsa inn í skylduna í læknisfræðinni?

sunnudagur, júlí 16, 2006

Það er ansi margt undir sólinni sem veldur Véfréttinni heilabrotum. Margt af því hefur hún tjáð sig um á þessari síðu hér. Eitt af því sem alltaf skýtur upp kollinum með reglulegu millibili eru vírgirtir kvenmannsbarmar.

Hljómar fáránlega, ekki satt?

Hverjum dytti í hug að vírgirða karlmannsbarma? Tja, eða karlmannseistu? Sjáið þið fyrir ykkur pungbindi / nærhald með stálspöngum? Myndi það slá í gegn?

Samt eru það samantekin ráð nærfataframleiðenda að lauma stálspöngum inn í svo til hvern einasta kvenmannsbrjóstahaldara sem framleiddur er, án tilliti til stærðar, lits eða lögunar. Og já; þetta er nákvæmlega jafn óþægilegt og það hljómar.

Stundum getur konan verið í brjóstahaldaranum með spöngunum í í einhvern tíma, áður en þær fara að stingast einum of þrúgandi inn í rifbeinin undir brjóstunum. Þá er ekki um annað að ræða en að munda skærin, framkvæma nettan uppskurð við enda borðans sem umlykur járnbindingarnar og fjarlægja hinn sveigða aðskotahlut.

Þær konur sem trassa þetta lenda iðulega í því fyrr eða síðar að borðinn gefur sig sjálfkrafa og steypustyrktarjárnið skutlast í gegnum litlu götin á tromlunni í þvottavélinni og eyðileggur gangverkið.

Því lengur sem Véfréttin brýtur heilann um tilgang vírbindinganna, því ringlaðari verður hún. Það eina sem hún getur látið sér detta í hug er að haldararnir líti betur út vírbundnir en vírlausir þar sem þeir hanga á herðatrjám í búðinni og eiga að ganga í augun á væntanlegum kaupendum.

Þegar brjóstahaldarinn er hins vegar kominn í notkun gerir járnið ekkert nema að meiða. Það breytir því þó ekki að haldararnir eru iðulega góðir eftir aðgerðina og gagnast vel vírlausir.

Véfréttin er nýlega búin að fjárfesta í nýjum brjóstahöldurum og eins og lög gera ráð fyrir var hún fljót að framkvæma uppskurð. Eitthvað var hún þó að flýta sér og láðist að fjarlægja járnspangirnar af eldhúsborðinu. Dóttirin fann þær og þótti þær forvitnilegar. Fór með þær til föður síns og spurði hvað þetta væri. Faðirinn klóraði sér í kollinum og stóð á gati.

Véfréttin fylgdist með heilabrotum feðginanna úr laumi um stund og hafði gaman af áður en hún svipti hulunni af leyndardómnum. Hins vegar fannst henni viðbrögð þeirra draga saman allt það sem hún hefur um vír í brjóstahöldurum að segja;

til hvers?

mánudagur, júlí 10, 2006

Í fyrstu átta eða níu skiptin sem ég kom til Póllands var allt krökkt þar af agnarsmáum bílum, svo smáum að vart var auga á þá komandi, nema fyrir þær fyrrgreindu sakir að af þeim var krökkt. Þeir voru af heimamönnum nefndir Maluch.

Ég minnist þess að hafa ferðast víða um Varsjá í svo ofurlitlum Maluch að konu fannst kona eiginlega ekki vera í bíl. Ekki mikil öryggistilfinning. En síðast þegar ég var í Póllandi (2004) hafði þeim fækkað verulega.

Nema hvað; í morgun sá ég Ómar Ragnarsson á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisvegar á hreinræktuðum míkróskópískum appelsínugulum Maluch - þeim fyrsta sem ég hef séð hér á landi. Ég hef sagt það áður og segi það enn; Ómar Ragnarsson er mesti töffari Íslandssögunnar.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Þessa dagana bíð ég spennt eftir skilaboðum frá æðri máttarvöldum í draumi (ekki spyrja af hverju, því véfréttin svarar ekki beinum spurningum).



En það er annað hvort eitthvað sambandslaust þarna upp, eða þá að ég fatta ekki skilaboðin. Í nótt dreymdi mig þó að litli bróðir litla stráksins sem var myrtur af unglingsstaula í USA fyrir áratug eða svo (sjá 60 minutes í gærkvöldi) vann svaka summu í bandarísku lotteríi. Kannski var það ábending? Best að kaupa allavega lottó til öryggis.

En áður en ég fór markvisst að bíða skilaboða dreymdi mig súran en afar sérstakan draum. Þannig var mál með vexti að ég var stödd á sólarströnd með kunningjahópi. Alls staðar í kringum okkur var fólk að skemmta sér, á hinum ýmsu forsendum.

Fólkið í mínum hópi var þó eitthvað misvel upplagt. Svo virtist sem á það hefði verið lögð sú kvöð að innbyrða sem mest af göróttum drykkjum og þannig átti að vera tryggt að allir skemmtu sér.

Man sérstaklega eftir sterkri tilfinningu um að mig langaði alls, alls ekki að taka þátt í þessu. Man svo einnig eftir að hafa pantað mér skyndibita með ákveðinni vinkonu (sem meira að segja les bloggið mitt - vúúú... spennó! Hver skyldi það vera? Hver skyldi það vera???) og um leið reynt árangurslaust að útskýra fyrir henni að mig langaði aðeins að taka púlsinn á mannlífinu og svona áður en ég dytti í það. Jafnvel íhuga möguleikann á að sleppa því alveg og finna mér eitthvað annað til dundurs (útskýringar mínar mættu litlum skilningi en kokkurinn vildi ólmur fá að vita hvort skyndibitinn, sem ég náði ekki að smakka áður en ég vaknaði, væri ekki sérdeilis framúrskarandi).

Jiii... en ógissla halló. Gvuuuð... ég verð að forða mér úr úthverfinu áður en ég týni mér í þessum andlega þroska.