föstudagur, júní 30, 2006

Ég viðurkenni að ég hef haft mjög blendnar tilfinningar í garð msn messenger notkunar. Stundum hef ég lent í því að límast við skjáinn tímunum saman og pikka í gríð og erg á móti einhverjum sem í flestum tilfellum eru stödd erlendis.

Mér hefur fundist þetta dálítið nördalegt. Það er samt ekki aðalmálið. Það er bara eitthvað svo ,,ónáttúrulegt" við þetta. Eitthvað með að sjá bara þurrlega stafi á litlum skjá og svo endrum og sinnum broskalla og jafnvel myndir. Svo skellir maður upp úr, flissar og fnæsir eða bölsótast og jafnvel fellir tár. Allt fyrir framan skjá.



Svo gerðist það með ónefnda vinkonu mína að hasshausinn (no sympathy there) sem hún bjó með í ákveðinni evrópskri stórborg dömpaði henni. Hún var þá í fríi í þriðja heims (brilliant hugtak!) heimalandi sínu, ásamt eins og hálfs árs gamalli dóttur sinni. Eða eitthvað þannig. Mér er ekki vel kunnugt um smáatriðin. Allavega; hún ákvað að ílendast í heimalandinu.

Í heimalandinu eru veraldarvefstengingar með öðrum hætti en í evrópsku stórborginni. Þar verður mín kona að smella sér á rándýr og heldur fábreytileg netkaffihús til að skrifa mér mis-upplýsandi einnar setningar meila og draumar um msn-samskipti eru orðnir að fjarstæðukenndum órum.

Nú er liðið hálft ár. Dóttirin er orðin tveggja og vinkonan 29 ára í gær. Og rauði kallinn hennar í msn glugganum mínum er eins konar Móri - minnir mig á horfnar hrókasamræður, allt frá stjórnmálaspjalli og / eða uppeldisráðleggingum út í trúnó, sem áttu sér stað fyrir tilstilli msn messenger. Já og svo skiptumst við á myndum og stundum vorum við með webcam og svona, nóg að gera.

Ég hélt þá að samskipti okkar væru hálfkjánaleg og saknaði þess að spjalla við hana augliti til auglits, þó að við höfum reyndar stundum spjallað símleiðis og ég einu sinni heimsótt á þessum blómatíma msn-sambands okkar. Nú hef ég ekki haft símann hennar því familían er flutt og fúli leigjandinn í gamla húsinu segist ekki vita nýja símann (hún sendi mér reyndar númerið loks í morgun en þegar ég hringdi náði ég bara í mömmu hennar - mín ennþá á netkaffihúsinu).

Allavega; það sem ég á við er þetta. MSN er ekki sem verstur samskiptamáti. Hann er bara öðruvísi en annað sem ég hef vanist. Nú ætla ég að hætta að flækjast í kreddum um að eitthvað sé öðruvísi en manni líður. Héðan í frá mun mér þykja kúl að sitja ein með sjálfri mér og hlægja og gráta fyrir framan tölvuskjá. Það er betra en ekkert samband.


Nia litla sem nú er tveggja

þriðjudagur, júní 27, 2006

Þar sem ég hleyp á morgnana (þegar ég nenni) er auðugt fuglalíf (hí á ykkur, borgarbúandi lesendur).




Þessa dagana eru litlu greyin voðalega stressuð. Þeir virðast telja næsta víst að minn helsti og jafnvel eini tilgangur með því að hlunkast þarna fram og aftur eftir vegarslóðanum sé að koma höndum yfir afkvæmi þeirra (án efa ykkur kjötætunum að kenna, sé ykkur í anda æðandi yfir mela og móa með blóðþyrst blik í auga í leit að ungakrílum til að tæta í ykkur).

Til þess að varna því að mér takist þetta ætlunarverk mitt setja þeir í gang svakalegt leikrit fyrir mig. Ég er satt að segja gáttuð á þeim leikhæfileikum sem fyrirfinnast í dýraríkinu. Þeir þykjast eiga hreiður hér og þar og gera sér upp ægilega móðursýki þegar ég móð og másandi nálgast. Færa sig um set og þykjast eiga hreiður þar líka - verða aftur móðursjúkir... og svo framvegis. Voða mikið að gera.

Á meðal annarra trikka má nefna t.d. ,,slasaða fuglinn" - þá tyllir einhver þeirra sér á veginn fyrir framan mig og haltrar dramatískt, þannig að ég ætti að halda að ég gæti auðveldlega náð honum, en þegar ég nálgast (skokkandi í sakleysi mínu) rennir hann sér á loft eins og orrustuflugvél. Sem minnir mig á; mikið er ég fegin að þetta er ekki kríuvarp.

Hér er annars linkur á bók sem nýlega afboðaður brúðkaupsgestur var að senda frá sér:

http://www.king-cart.com/cgi-bin/cart.cgi?store=linda018&product_name=Devil+King+Of+The+Sixth+Heaven&return_page=&user-id=&password=&exchange=&exact_match=exact

Stillið ykkur, æstu kaupendur...

fimmtudagur, júní 22, 2006

Véfréttin er komin heim, endurnærð á líkama og sál.

Véfréttin hefur það sem af er vikunni verið afar upptekin, við boðskortaskrif og -sendingar og veikt barn (með vænni dýfu af mömmusammara).

Nú eru svo til öll boðskort komin út (nema vandræðakortin, meira um þau á öðrum vettvangi).

Ef þú, lesandi góður, hefur ekki fengið boðskort, þá ertu annað hvort

a) Utan þess hrings sem við höfum skilgreint sem innsta
b) Með það á samviskunni að hafa ekki boðið okkur í þitt eigið brúðkaup (sem er reyndar gott mál, í hreinskilni sagt - fáir jafn firrtir og við að bjóða mörghundruð manns!)
c) Búin(n) að flytja nýlega og við vitum ekki nýja heimilisfangið.

Ef þú hefur eitthvað við þessi atriði að athuga má benda á að senda kvörtunarmeil á netfang Véfréttarinnar sem samanstendur af upphafsstöfum hennar, atmerki og einkennisstöfum BTnets. Já og landastöfunum góðkunnu.


Amríska útgáfan af véfréttinni og sveimhuganum.

laugardagur, júní 17, 2006

Sveimhuginn reyndi að stela Austurlandi í gær.

Véfréttin stoppaði hann af.

Það er svolítið klént að halda úti veður-bloggi, þegar maður er á ferð, ekki satt?
Engu að síður er mér veðrið einkar hugleikið þessa dagana. Og í dag er þjóðhátíðaveður undir vatnajökli.

Fussum svei.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Allar mínar óskir hafa ræst. Sólin skein og skein og skein og skein svo í henni hvein í allan dag. Ég er meira að segja með rautt nef og kinnar, þessu til sanninda. Ég lít svo á sem almættið sé að launa mér þolinmæði mína og þrautseigju.

Smá sýnishorn af blíðu:



Svona leit Lögurinn út síðdegis í dag. Fínn?!

Að hugsa sér að fyrir aðeins fáeinum dögum hafi ég þurft að banka upp á hjá virðulegri frænku og betla lopahúfu...



... sem reyndar var geðveikt pæjuleg. Nei, ég meina bad ass.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Hér er ég nú:

http://www.fosshotel.is/en/hotel/fosshotel_laugar.html

Þó í kílómetrum talið séum við ekki mikið fjær Norðurpólnum en í gær, þá er töluverður munur á hitastigi. Þannig er það alltaf. Reykjadalur er pottur. Mæli ekki með að vera ólétt og föst í einkennisbúningi hér að sumarlagi.

Eins og ég kann þó vel við gott veður!

Stýrið litla er lasið og því er ekki útiveru að heilsa. Inni er hægt að finna upp á ýmsu, til dæmis er snyrtiveski móðurinnar eylíf uppspretta ánægju og útrásar fyrir sköpunargleðina.

En allavega; fjarri heimahögum kemst ég vart nær því að vera ,,heima" en hér.

mánudagur, júní 12, 2006

Ég er að átta mig á því hvað Húsavík er nálægt Norðurpólnum. Þegar norðanvindurinn blæs, eins og núna, þá er engrar undankomu auðið. Allir útlimir frosnir.

Ég reyndi heiðarlega að stunda holla útiveru með dóttur minni í dag, hér við flóann fagra, þar sem hvalirnir flatmaga og skvetta stundum rassi fyrir túristana... en svona rétt til að minna mig á hvar ég var stödd framreiddi Húsavík SLYDDU. Við erum að tala um... jú, er ekki 12. júní?

Ekki á Norðurpólnum.

Á Norðurpólnum er eylífur vetur.

Needless to say pakkaði ég stuttbuxum, pilsum og hlírabolum fyrir ferðalagið. Fyrir barnið tók ég þó með regn- og kuldagalla, eina ferna lopasokka, flís-/ullarhúfu, vatteraða vettlinga og allar græjur. Hún gæti sennilega sofið úti, ef til þess kæmi.

En fyrir mig... tjah, segjum bara að ég þurfti að impróvisera í fatasamsetningum í dag. Og til allrar lukku á ég móðursystur hér í bæ sem lánaði mér þessa líka pæjulegu hvítu hekluhúfu með deri. Ég var WAY COOL (tók mynd - set hana inn á morgun ef ég get). Þetta var eiginlega highlight dagsins.

Annars höfðum við mæðgur það ágætt hér inni á hótelherberginu, megnið af deginum. Með ofninn á fullu blasti, mokandi ímynduðum sandi í ímyndaðar fötur með ímynduðum skóflum og rólandi okkur í ímynduðum rólum...

sunnudagur, júní 11, 2006

Véfréttin er á Sauðárkróki.

Hér er blautt.

Véfréttin hafði gert sér vonir um æsispennandi Sjómannadagshátíðahöld, kappróðra, koddaslag (eða hvað það nú aftur er eða heitir - þegar tveir sitja á priki fyrir ofan vatn) og annað sem Véfréttin hefur fram til þessa einvörðungu séð í sjónvarpinu.

En; ónei. Samkvæmt þeim traustustu heimildum sem móttökudaman gat fundið á netinu er ekki neinu slíku að fagna á Sauðárkróki í dag. Sjómannadagshátíðahöldin eru víst á Hofsósi í dag, en þar er Véfréttin ekki.

Véfréttin reynir þá bara aftur síðar.

laugardagur, júní 03, 2006

BARNASÆTI Á HJÓL ÓSKAST.

Ég held að ég geti reddað hjóli, hjálmar eru til og annar aukabúnaður reddast. En barnasætið sjálft vantar.

Vegna þess hve lunkin ég er nú orðin við að setja myndir inn á bloggið (eftir að mér hugkvæmdist að byrja á því) get ég myndskreytt þessa draumóra mína:









Líst best á svona appelsínugulan.

Veit einhver um notaðan, ódýran, sem bíður örlaga sinna?

föstudagur, júní 02, 2006

Hmmm... tilraunir mínar til að gera Mosó að betri bæ eru eitthvað að klikka...

Og sjá; himnarnir gráta.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Dauft er yfir blogginu þessa dagana.

Ekki að það komi á óvart - mér er harla ljóst að ekki dugir að blogga ekki múkk svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir en gusast svo fram á bloggvettvanginn með miklar væntingar um lífleg viðbrögð.

Fyrr eða síðar hljóta mínir kæru vinir og vandamenn og fyrrum dyggu lesendur að átta sig á kombakki Véfréttarinnar og fara að lesa (sjá teljara til hægri, neðan við linka) og kommentera (sjá hér að neðan)...

Þar til það gerist mun ég ótrauð halda mínu striki.

Að lokum tel ég við hæfi að senda Reykvíkingum mínar innilegustu samúðarkveðjur vegna nýrrar borgarstjórnar. Mér þykir leitt hve útlitið er svart í höfuðborg lands míns og sver að ef ég væri involveruð í pólitíkina þar, eins og sums staðar annars staðar, þá myndu hlutirnir ekki fara svona illa, frekar en sums staðar annars staðar... ;)