mánudagur, maí 29, 2006

Þó að ég geri mér grein fyrir því list- og menningarlega gildi sem felst í veggjakroti, eða svokallaðri graffiti-list, þá er ég ekki sérstakur aðdáandi greinarinnar. Vissulega gera fín og vönduð vegglistaverk gráa lestargangaveggi í útlöndum meira fyrir augað en ella, en þessi týpísku krú-kröss sem hér á landi eru algengust eru ekki akkúrat minn tebolli.

Búandi í fjölbýlishúsi sem er miðsvæðis í mínu byggðarlagi má ég þó eiga von á kroti hér og þar. Finnst það yfirleitt til ósóma, enda óðum að nálgast miðjan aldur...

Í gær brá þó svo við að ég sá alveg ný og fersk skilaboð á húsveggnum, aftantil. Þau birtust á stað sem er annars ókrotaður. Þar var ekki á ferðinni neitt hallærislegt nikk eða krú-krot, heldur beinskeitt og hápólitísk skilaboð. Ég verð að viðurkenna að ég trúði vart mínum eigin augum og gladdist ósegjanlega yfir því að mitt eigið fjölbýlishús skyldi hafa orðið fyrir valinu og öðlast það hlutverk að birta sauðsvörtum almúganum skilaboðin:

Meat is murder.


:)

föstudagur, maí 26, 2006

sexý, trendí og vel greiddu blogglesendur.

Í gær gerðist Véfréttin villt og tryllt og breytti um lúkk á síðunni lúnu.

Vegna tækniörðugleika duttu öll gömlu kommentin út. Vil þakka ykkur öllum innilega fyrir stórkostlega kommentavirkni í gegnum tíðina en því miður eru þau horfin á vit minninganna.

En nú er allavega hægt að byrja að setja inn komment - alveg upp á nýtt!

fimmtudagur, maí 25, 2006





Véfréttin hatar barnaafmælisboð.

Það er ekki af því að Véfréttin

a)hati börn
b)hati foreldra
c)hati afmæli
d)hati boð
e)hati pakka

- þvert á móti. Véfréttin er mjög hrifin af öllu ofangreindu. Einkum og sér í lagi hefðunum að gefa og þiggja, enda hvoru tveggja einkar ánægjulegt.

Það sem að véfréttin hatar er hjörð af uppdubbuðum, hávaðasömum gríslingum í sykursjokki innan um úttaugaða, uppdressaða foreldrar að reyna að halda fronti sem bæði doldið sjík og trendí fólk á framabraut en um leið umhyggjusamir foreldrar við aðstæður sem í besta falli myndu leyfa eins atkvæðis orðaskipti ef vit ætti að vera í. Já og mömmur á rítalíni og barmi taugaáfalls reynandi að halda úti milljón kökutegundum og brauðtertum, blöðrum, skemmtiatriðum, hreinu húsi og vitrænum samræðum. Segi mömmur, því að pabbar virðast ekki undir sérstaklega miklum félagslegum þrýstingi varðandi framkvæmd afmælisboða sinna eigin barna. Sem betur fer fyrir þá.

Þessari andúð á barnaafmælisboðum hefur Véfréttin haldið í 20 ár, eða frá því hún sjálf óx upp úr að vera í fyrstnefnda hópnum.

Þegar Véfréttin var barnlaus brostu barneigandi vinkonur hennar djúpviturlega í kampinn og þóttust nú aldeilis vita að þetta ungæðingslega viðhorf hennar myndi nú aldeilis breytast þegar hún sjálf bættist í þeirra hóp.

Nú eru liðin 2 og hálft ár síðan, en hvað hefur gerst?

Ekkert, nema fóbían hefur ágerst til muna vegna ákveðinna breytinga sem eiga sér stað þegar barn fæðist. Þegar það gerist opnast nefnilega skotveiðileyfi á foreldrana. Það gildir einu þó að hinir nýbökuðu foreldrar eigi ekki nema nokkurra vikna kríli - skyndilega eru þeir skyldaðir til að mæta í afmæli allra afkvæma vina og vandamanna undir 10 ára aldri - stundum eldri. Þannig hefur fóbían nærst og dafnað.

Ef einhver skyldi velkjast í vafa, þá get ég upplýst að dóttir Véfréttarinnar fór ekki fram á afmælisveislu á eins árs afmæli sínu og helst ekki tveggja ára. Þegar þar kemur að munu þau mál tekin fyrir á yfirvegaðan hátt og fundin lausn sem ekki leggur neinn á geðsjúkrahús í kjölfarið.

Þið sem enn eruð barnlaus en teljið möguleika á að það breytist áður en þið farið opinberlega úr barneign getið tekið þessa færslu sem góðlátlega viðvörun.

Þið hin - ég samhryggist. En munið bara - ef þið viljið koma út úr skápnum og játa kvíða ykkar og almenna andúð á þessu stórlega ofmetna félagslega fyrirbæri þá er ég fús til að ræða málin, bjóða öxl til að gráta á og stofna fjöldahreyfingu ef áhugi er fyrir hendi.

Knús,

Véfréttin sem fer í eitt í dag (og vonar að foreldrarnir lesi ekki blogg - eða taki því a.m.k. ekki persónulega ef þeir gera það).

mánudagur, maí 22, 2006

Jetzt habe ich eine neues Auto.

Es ist sehr schön.

Es ist dunkelrot und ganz einfach wunderbar.

Ich habe es heute gekauft, mit mein mann und mit ein wenig Geld.

Ich bin tadellos glükclich, weil material Wohl ist die wichtigste Sache im Leben...

(fyrirgefðu ef þig svíður í augun, Laila mín...)

sunnudagur, maí 21, 2006



Geri aðrir ellibelgir betur.
Síðasta verkefninu var skilað í... fyrradag. Fjúh. Þetta var síðasta skilaverkefni annarinnar, nú get ég mundað bloggfingur á ný. Vííí!

Ég fagnaði áfanganum með því að borga formúgu fyrir að fá að fara með Sveimhuganum að horfa á 74 ára gamalmenni í góðum holdum trítla um svið Laugardalshallarinnar og syngja smá.

Tveimur kvöldum áður fór ég og fagnaði því að vera næstum því búin með önnina með því að horfa á annars konar tónlistarflutning í Fríkirkjunni. Sat svo gott sem með Smog í kjöltunni og óttaðist að fá t.d. sinadrátt og verða þekkt upp frá því sem konan sem sparkaði í Smog.

En nú er helgi, vor og... bráðum kosningar, já.

Hlakka til þegar það hættir að snjóa.