sunnudagur, október 29, 2006

Véfréttin er í keppni við Skoffínið um verstu nágrannana. Undanfarið hafa nágrannar Skoffínsins haft yfirhöndina, en þessa helgi hafa grannar Véfréttar heldur betur verið að skora stig.

Glöggir lesendur muna eflaust eftir aðventuslagsmálunum í fyrra. Síðan hafa aðeins einu sinni brotist út virkilega messí slagsmál, þó að reyndar hafi ýmislegt verið í gangi þarna á efstu hæðinni.

Á föstudaginn kom litla kjarnafjölskylda Véfréttarinnar heim eftir langa vinnu-, skóla- og leikskólaviku, með innkaupapoka í hönd, og rakst á lögguna í anddyrinu. Húsbóndinn hafði þá verið að henda grjóti í húsið um hríð með það að skálkaskjóli að konan hans hefði læst hann úti.

Bóndinn hvarf af vettvangi er laganna verðir mættu. Þeir reyndu kurteislega að fá frúna til að opna, en fundu þess engin merki að hún væri yfir höfuð inni í íbúðinni.

Nú, herrann kom aftur að vörmu þegar löggurnar snöggu fóru og fann m.a. upp á því snilldarráði að keyra rúntinn bílastæði - gata - bílastæði með bílflautuna á fullu. Ef það opnar ekki læstar hurðar, þá veit ég nú ekki hvað.

Svo sparkaði hann í hús og hurðar, skoppaði um móann fyrir aftan hús öskrandi ókvæðisorð og bjó til ýmiss konar hávaða sem við vitum ekki alveg hvernig varð til, þar eð útsýni úr gluggum og gægjugötum er takmarkað.

Löggan kom aftur, fjögur stykki í þetta sinn, en ekkert gerðist.

Árla á laugardagsmorgun vöknuðu íbúar við dynki, spark og öskur. Hinn útilokaði kavalér var mættur enn á ný og tekinn til við fyrri iðju. Enn komu verðir laga og reglu og enn virtist ekkert gerast.

Ef frá eru talið bank á hurðir og svona smotterí hefur verið tiltölulega rólegt frá því í gær.

Frú Véfrétt og herra Sveimhugi eru farin að líta fasteignaauglýsingar hýrari augum en áður.

Af hverju geta ekki allir grannar verið svona:


?

miðvikudagur, október 18, 2006

þriðjudagur, október 17, 2006

Véfréttin skammast sín ósegjanlega fyrir að hafa ánetjast B-klassa sjónvarsefni um ægileg sæskrímsli, samsæri spilltra ráðamanna til að halda þeim leyndum fyrir saklausum almenningi og baráttu fagurrar vísindakonu (sem einnig er einstæð móðir, til að auka enn á heilagleikann) og geðfatlaðs tryggingasölumanns til að koma upp um kvikindin.

En skaðinn er skeður og Véfréttin er miður sín yfir að hafa misst af þætti gærkvöldsins. Neyðist til að horfa á endursýningu síðdegis í dag og kompromisera afar dýrmætum vinnutíma fyrir vikið.

Véfréttin er veikgeðja.

föstudagur, október 13, 2006

Orð, orðatiltæki eða orðaástarsamband dagsins er:

Hætis hót

Það slær það ekkert út.

sunnudagur, október 08, 2006

Véfréttinni þykir dálítið leiðinlegt að vera ekki fyrst með fréttirnar, en eiginlega eiga véfréttar að spá fyrir um hlutina löngu áður en þeir gerast. Sem slík er véfréttin engan veginn að standa sig.

En véfréttina langar sumsé til að segja þeim ykkar sem ekki hafa nú þegar brugðið fyrir sig betri fætinum og skroppið á myndina BÖRN í bíó að það er alveg þess virði. Það er dásamlegt að fara í íslenskt bíó og fá ekki aulahrollinn í eitt einasta skipti.



Sjálfsagt gæti söguþráðurinn verið eitthvað beisnari og eitthvað meira svona spennó lagt í verkið, sko. En leikurinn er svo dásamlega smooth og sögusviðið svo eðlilegt, meira segja ofbeldið er ekki blásið upp... og svo mætti lengi telja... að ég vil bara lýsa þessa mynd mikið afrek í íslenskri kvikmyndasögu. Nú skil ég af hverju fólk segir alltaf loksins þegar þessi mynd berst í tal.

Síðast þegar ég fór á íslenska mynd í bíó þá hét hún Blóðbönd. Hún var hreinn hryllingur frá upphafi til enda. Þvílík sóun á fé og fyrirhöfn. Ég var fyrirfram bjartsýn því ákveðnar vinkonur höfðu lagt hönd á plóg... í stuttu máli hef ég ekkert minnst á mína upplifun af myndinni við þær. Óþarfi að vera dónó þegar kona kemst hjá því.

Samt var, meira að segja í Blóðböndum, aðeins skárri leikur en í mörgum öðrum myndum, á köflum. En myndin var bara svo hryllilega léééééééleg. Úff.

Allavega, segi það sama og margir aðrir: Börn koma skemmtilega á óvart. Meira svona.

Yfir í næsta efni: Véfréttin fór á djammið í gær eftir langt hlé. Véfréttin þarf að fara á endurhæfingarhæli fyrir sál og líkama einhvers staðar í Suður-Ameríku til að jafna sig á þeim viðbjóði samfélagslegrar hnignunar sem þar bar fyrir augu... og vit...

þriðjudagur, október 03, 2006

Í síðustu vikunni varð Véfréttin eldri. Merkilegt hve einn dagur getur munað miklu. Einu sinni var þetta til dæmis spurning um kosningarétt. Bara hálfur bekkurinn mátti kjósa.

En nú er Véfréttin formlega jafn gömul og þessir klassísku makkar eru margir:



Einhverra hluta vegna virðist það vera lenska að fólk á svipuðum aldri og véfréttin virðist telja það á einhvern hátt skammarlegt. Sem er furðulegt. Allavega í tilfelli véfréttarinnar, enda hefur hún af hörku og þrautseigju barist í gegnum hvert árið á fætur öðru, gert alls kyns vitleysur og ýmiss konar mistök, lært af flestum en endurtekið sum... Í stuttu máli er Véfréttin stolt af hverju ári.

Nú nemur Véfréttin tölfræði af miklum móð.



Eftir langan og erfiðan dag á bókhlöðunni, stumrandi yfir fjölbreytilegum formúlum fór Véfréttin að semja með sér kenningu.

Kenningin var á þá leið að aldur ætti ekki að meta í árum. Manneskja sem hefur setið fyrir framan Leiðarljós í imbanum alla ævi ætti nefnilega ekki að teljast jafn gömul og t.d. einstæð fjögurra barna móðir sem brotist hefur til mennta þrátt fyrir bág kjör og jafnvel skoðað heiminn í leiðinni. Eða frækinn landkönnuður, upprisinn dópisti, Móðir Teresa.

Til að meta raunverulegan aldur þyrfti þannig að búa til jöfnu. Alla reynslu þyrfti að meta og umbreyta í tölur, 1 fyrir að horfa á Leiðarljós í ár, 2 fyrir að horfa á fréttir í ár, 4 fyrir að fara til útlanda í viku, 7 fyrir að koma út úr skápnum... og svo framvegis.

Þannig ætti hver og einn að geta slegið eigin reynslustig inn í ýtarlega formúlu og þannig fengið út árafjölda út frá reynslutengdum þroska.

Með þessu er véfréttin ekki að gefa í skyn að hún yrði aldursforseti jafnaldra sinna við beitingu slíkrar formúlu. Aðeins að aldur í árum er afar afstætt hugtak.

En eftir sem áður er véfréttin afar stolt af bæði hverju einasta ári og reynslukorni.