fimmtudagur, júní 28, 2007

Nú er ljóst að kumlið verður ekki okkar.

Við fórum þó í húsaskoðun í húsið við hliðina, sem tilheyrir öðrum eiganda, en er á könnu sama fasteignasala.

Hvort sem það var fölleit IKEA-innréttingin sem olli, blindandi glampinn af gljáfægðum Sjálfstæðiserninum í hnappagati fasteignasalans eða undarleg ýldulyktin af geymsludóti nágrannakonunnar, þá féllum við bara alls ekki fyrir hinni íbúðinni. Þó að þær væru nokkurn veginn eins.

Og leitin heldur áfram.

Höfum snúið okkur nokkuð að endurskoðunum og sem stendur eru tvær í sigtinu og eitt tilboð í gangi í þessum rituðum orðum.

Andvarp.

mánudagur, júní 25, 2007

Eftir að þriðja tuginum lauk í íbúðaskoðuninni ákváðu hjónin að skrolla til baka og skoða aðeins betur það sem þau skoðuðu í fyrstu törn.

Og viti menn; nú hefur dregið til tíðinda. Hjónakornin hafa gert einkar siðsamlegt tilboð í ákveðna eign, sem hefur það helst til að bera fram yfir aðrar að státa kumli í bakgarðinum.

Kuml eru víst friðuð og því er tryggt að ekkert verði byggt í rytjulega en þó ögn rómantíska trjálundinum fyrir aftan viðkomandi eign.

Vei, vei, vei...

Og svo er bara að bíða og sjá hvort eigandinn er til í að selja.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ef að Véfréttin myndi, fyrir einhverja kaldhæðni örlaganna, álpast á rafmagnslínu og stikna, falla svo logandi til jarðar og kveikja með því sinueld og valda rafnmagnsleysi í nálægum byggðarlögum, myndi þá fyrirsögnin í Fréttablaðinu vera á þessa leið:

„Seinheppin kona kveikti sinueld“?

mánudagur, júní 18, 2007

Véfréttin er enn í húsnæðisleit.

Véfréttin sefur, dreymir, borðar, kúkar, grætur, hlær, hóstar og andar húsnæðisleit.

Dónalega lága tilboðinu var hafnað. Gert var dónalega hátt gagntilboð. Véfréttin og Sveimhuginn hafna því. Á meðan hafa 6 íbúðir til viðbótar verið skoðaðar.

Hlíðarbraut
Guðrúnargata
Klapparhlíð
Reyrengi
Jöldugróf
Fellahvarf

Véfréttin varð ástfangin af einni þessarra. Því miður voru í gangi tvö tilboð í þessa dásamlegu eign þegar Véfréttinn og spúsi skoðuðu og því lítið svigrúm fyrir hjónin að toppa það, sérstaklega þar sem þau eru bundin af því að þurfa að bjóða sína eigin upp í, í stað þess að blaka bara milljónunum beinum og berum framan í væntanlega seljendur. Andvarp.

Hjarta Véfréttarinnar varð þar eftir og er þar enn, þar sem hinir gerspilltu seljendur vaða yfir það á skítugum skónum og hinir ljónheppnu kaupendur geta traðkað á því um leið og þeir fá afhent.

En það er nokkuð ljóst að aðrar íbúðir standast engan samanburð eftir þetta. Annað andvarp.

Að öðru:

Véfréttin gleðst yfir reykingabanninu, en hefur þó ekki gerst svo fræg að mæta á reyklausan skemmtistað eða kaffihús nema í eitt einasta skipti síðan lögin tóku gildi. Betur má ef duga skal.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Véfréttin er allsendis ófær um að skrifa um nokkuð annað en húsnæðisleit þessa dagana, af sömu ástæðu og hún er ófær um að hugsa um nokkuð annað.

Frá síðustu færslu hefur Véfréttin skoðað eina íbúð í viðbót, en Sveimhuginn svaðalegi hefur skoðað tvær. Hann er sumsé farinn að fara sínar eigin leiðir... nánar tiltekið á hann félaga sem er fasteignasali og lumar á ýmsu.

En í gær settust hjónin við tölvuna, opnuðu heimabankann, Excel og nokkrar góðar heimasíður og fóru að reikna. Eftir mikið reikn, blót, svita og streð komust þau að niðurstöðu: Með því að losa sig við báða bílana geta þau gert dónalega lágt tilboð í álitlega íbúð sem annars er til sölu á svívirðilega háu verði (fermetraverð á hvern skráðan fermetra er 362.000 - gerist það hærra?).

Nú er beðið eftir að hinn húsafróði og handlagni faðir Véfréttarinnar komi heim frá Krít og geti farið með í skoðunarferð um eignina til að hjálpa til við að skera úr um hvort vert sé að svo mikið sem prófa að gera þetta dónalega tilboð yfir höfuð.

En í millitíðinni smella Véfréttin léttúðuga og Sveimhuginn svakalegi sér á ættarmót í Eldborg (sem Véfréttin hefur fram til þessa tengt við smérsýru, ellur og rifin tjöld, en það var víst bara eitt árið).

þriðjudagur, júní 05, 2007

Í dag eru einungis tveir mánuðir, sléttir, í að Véfréttin eigi að verða léttari.

Og Véfréttin er enn á húsnæðismarkaðnum, með bumbu, barn og bónda. Ekki gott mál.

Véfréttin og Sveimhuginn hafa þó ekki setið auðum höndum. Nú hafa 17 híbýli verið skoðuð, eða eiginlega 19 því á einum stað í dag voru 3 íbúðir til sýnis. Já eða eiginlega 22 í allt ef telja má örsmáar leiguíbúðir sem hafa fylgt sumum eignunum.

En upptalningin er á þessa leið (í nokkurn veginn réttri röð):


Viðarás
Dverghamrar
Dalssel
Vallarás
Kólguvað
Merkjateigur
Undraland
Víðiteigur
Þúfubarð
Ferjuvogur
Álakvísl
Ásbúðartröð
Stekkjahvammur
Langholtsvegur
Andrésbrunnur
Hallakur (x3)
Galtalind

Impressive?

Nema hvað, Véfréttin og maki eru gjörsamlega að þrotum komin andlega. Þetta er erfiður, brútal og ljótur bransi. Allar eignir eru á viðurstyggilega uppsprengdu verði (nema eign hjónakornanna sem enginn sýnir áhuga þrátt fyrir fagra lýsingu, lokkandi myndir og afburðagott ástand, sjá mbl.is).

Og Véfréttin og makinn eru eiginlega lúsblönk fyrir, ekki mikið ráðrúm til að bæta miklum afborgunum við.

Merkilegt nokk virðast eignirnar sem eru í Hafnarfirði í hvað bestu ástandi, ef frá eru taldar splunkunýjar eignir. Sveimhuginn er orðin svag fyrir Hafnarfirði. Véfréttin veit að þar er allavega einn góður leikskóli og er því jákvæð.

Þess utan er spurning um þessi nýrri hverfi á höfuðborgarsvæðinu, hvað af þessu er vænlegt til framtíðarbúsetu og hvað af þessu er bara gettó framtíðarinnar? Og á hvaða stöðum verður gott að selja aftur, þegar þar að kemur, eftir 2 - 20 ár? Allar ábendingar eru vel þegnar. Takk fyrir kommentin á síðasta blogg, btw.

Svo virðist ekkert hlaupið að því að finna jarðhæðaríbúðir, eftir draumórum Véfréttar, hvað þá með barnheldri verönd. Andvarp, stuna og dæs.

Véfréttina langar að loka sig inni, helst undir þykkum feldi á la Ljósvetningagoði, nema bara ekki til að hugsa. Einmitt til að hætta að hugsa, þetta er svo lýjandi og svekkjandi bransi.

Hér eru hamingjusöm mörgæs og selur, sem hafa fundið vel staðsett hús að sínu skapi. Það má líta á þetta sem táknmynd.

föstudagur, júní 01, 2007

Véfréttin og Sveimhuginn eru búin að skoða 5 íbúðir. Þið sem þekkið hjúin vitið að þetta er jú bara upphitun, en engu að síður er Véfréttin strax orðin andlega uppgefin.

Það sem hefur gerst á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru frá því að Véfréttin var síðast í húsnæðisleit er að kröfur Véfréttarinnar hafa aukist um þvílíka býsn að annað eins er fáheyrt. Þegar Véfréttin var síðast í húsnæðisleit vildi hún helst setjast að á svæðum sem hún vill síst sjá nú.

Ekki er nóg með að staðsetning sé farin að hafa meiri áhrif á stefnu Véfréttarinnar en góðu hófi gegnir, heldur er Véfréttinni mjög umhugað um hluti eins og fjölda íbúða í húsi (gjarnan vill hún einbýli, ekki alveg að fara að gerast) og aðgengi að garði, sem og stærð garðs og fleira í þeim dúr. Helst vill Véfréttin myndarlegan og barnheldan sólpall. Og ekki vill Véfréttin of gamalt hús, best væri ef það hefði verið byggt á síðasta áratug, þó að ákveðin skeptík sé bundin við góðærisbyggingarnar sem sprottið hafa upp eftir breytingar á lánakerfinu 2004.

Sveimhuginn er á öðrum buxum. Hjarta hans slær í 104 Reykjavík og þar grefur hann upp hvern háaldraða fúahjallinn á fætur öðrum sem hann reynir að fegra fyrir Véfréttinni (en þar sem Sveimhuginn er viðkvæmur fyrir umfjöllun á Véfréttarblogginu skal hér með undirstrikast að ást Véfréttarinnar á honum er enn sem fyrr mikil og heit).

Honum hefur þó tekist að fá Véfréttina að mestu leyti ofan af plönum um að flýja land hið snarasta, með smérbornum loforðum um landaflutninga á næsta eða þarnæsta ári (gæti verið gildra). Og þangað til verða hjónakornin með börnin tvö að hafa þak yfir höfuðið.

Véfréttin ákallar nú lesendur sína. Hvað vitið þið, kæru lesendur, um Norðlingaholt?

Hvernig fólk er þar, er þetta eitthvað gettó? Vitið þið um einhvern sem á þar heima? Vitið þið um einhvern sem veit um einhvern sem á þar heima? Og vitið þið eitthvað um Kólguvað? Þar ku vera nóg laust á neðri hæðum. Vitið þið kannski um einhvern sem vill flytja þangað með Véfrétt og fjölskyldu? Eða eru þið kannski sjálf til í... eh... hm.

Eða vitið þið um aðra góða staði, íbúðir, hús, búgarða... þar sem Véfréttin fær drauma sína uppfyllta og litla familían fær dafnað í gleði og góðviðri?

Á meðan Véfréttin engist um og kvelst af valkvíða - og af þeim dapurlegu örlögum að verða, fjárhagsins vegna, að öllum líkindum að horfa á bak mörgum af sínum mikilvægustu hreiðurgerðardraumórum, lætur hún sig dreyma um útlönd. Sjáið bara hvað það er fínt í Gautaborg... meira segja að vetri til!