föstudagur, mars 12, 2004

Nú hef ég ekki farið á bíó lengi og hef þess vegna ekki séð myndina MONSTER sem alls staðar er lofuð í hástert. Ég hef þess vegna engar forsendur til þess að efast um gæði myndarinnar, né heldur snilldarleik aðalleikkonunnar, Charlize Theron. Í raun er ég bara nokkuð viss um að hún stendur sig með prýði sem ljótt miðaldra morðkvendi. Það sem ég skil hins vegar ekki er af hverju hún var valin og fituð og gerð sjúskuleg, þegar til er nóg af lítt aðlaðandi sjúskuðum leikkonum í meðalþyngd, sem margar búa yfir svakalegum hæfileikum en fá aldrei nein hlutverk af því að þær eru ekki nógu flottar.
Núna er hún Chalize búin að sanna að hún er ekki bara flott gella, heldur getur hún leikið líka. En hvað með allar hinar, sem eru ekki flottar gellur og fá þess vegna aldrei að sanna að þær geti leikið?
Jæja, ég er ekki í Hollywood.
Annað; ég hlustaði á Skonrokk í 10 - 15 mínútur síðdegis í gær. Mér heyrðist útvarpsmaðurinn kynna sig sem Orra Wium. Nema hvað, á þessum stutta tíma, sem innihélt a.m.k. 3 lög sagði Orri Wium ekki sjaldnar en þrisvar ,,að sjálfsögðu"! Þetta er að sjálfsögðu nokkur ofnotkun...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home