fimmtudagur, mars 31, 2005

Ég á vin sem er blaðamaður í Brussel. Hann er með gráðu í stjórnmálafræði og blaðamennsku og allt, klár og sniðugur. Hann er hollendingur.
Hann þakkaði mér fyrir að frelsa Bobby Fischer, í nafni the whole freethinking world.
Tja, það var nú ekki ég sem frelsaði Bobby. Kunni samt ekki við annað en að taka kurteislega undir þakkirnar og láta sem ég hefði vissulega átt hlut að máli. Ekki vildi ég valda honum vonbrigðum.
Ég gleðst vissulega yfir því að það séu nú einum færri samviskufangar á vegum Bandaríkjanna. En það virtist koma flatt upp á Íslendinga að Bobby Fischer tæki stórt upp í sig. Meiningin var að hann krypi á kné og táraðist og viðhefði fögur orð um íslenska gestrisni og íslenskt göfuglyndi, helst grátklökkur.
Eitt af því sem kom bjargvættunum á óvart var að hann skyldi vera Gyðingahatari. Það hefði nú verið hægt að grafast fyrir um það áður, það er ekki eins og maðurinn sé þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum. Nema hvað; fólk sýpur kveljur þegar Bobby níðir Gyðinga. Mér fannst það líka frekar ósmekklegt þangað til ég komst að því að hann væri sjálfur Gyðingur!
Hvernig í ósköpunum geta Palestínumannahatarar í Ísrael fett fingur út í það þó að einn úr þeirra röðum fetti fingur inn á við... ef þið skiljið hvað ég á við...?!
Negri má segja Niggah en hvítingi fer í fangelsi fyrir það (ja, sums staðar). Íslendingur má segja að Íslendingar séu fífl, en það kemst í blöðin ef útlendingur missir það út úr sér.
Bobby má alveg endilega úthúða eigin þjóð eða kynstofni eða hvað það skal kalla.
Á meðan held ég áfram að úthúða Íslendingum á blogginu mínu.

sunnudagur, mars 27, 2005

Heilagur dagur.
Er einni tönn fátækari.
Það er sexí.
Er búin að horfa mikið á sjónvarp. Langar að segja eitthvað jákvætt og skemmtilegt um sjónvarp, til að vera ekki eins og allir hinir nöldurseggirnir sem fá útrás á netinu. En í augnablikinu er það eina sem mér dettur í hug þessar brjálæðislega dapurlegu Reykjavíkurnætur. Vil ekki segja neitt ljótt... en ég get allavega sagt: Af hverju?
Matur er góður. Hann er samt mun síðri í fljótandi formi.
Veðrið er gott líka. Tilvalið að grilla páska-eggaldinið, er það ekki?

sunnudagur, mars 06, 2005

Tel rétt að upplýsa lesendur mína um það að ég þarf eigi lengur að horfa á upptekið ædol. Né heldur gera umhverfi mitt meðvirkt á vitneskjuleysi mitt um úrslit síðasta þáttar (vel orðað, ekki satt?). Frá og með síðastliðnum föstudegi er heimili mitt komið með aðgang að Stöð 2. Ekki af því að við höfum splæst - okkur var gefin áskrift! Ekki átti ég nú von á því. En takk, tengdó!
Þannig að nú get ég ekki bara bloggað um ædol, heldur líka Opruh (sér á parti) og Joey (sem ég er búin að horfa á 1 sinni og fannst slappt) og Reykjavíkurnætur (byrjar bráðum) og nýja þáttinn hans Hemma Gunn (get ekki beðið) og alls konar fleira.