föstudagur, júní 01, 2007

Véfréttin og Sveimhuginn eru búin að skoða 5 íbúðir. Þið sem þekkið hjúin vitið að þetta er jú bara upphitun, en engu að síður er Véfréttin strax orðin andlega uppgefin.

Það sem hefur gerst á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru frá því að Véfréttin var síðast í húsnæðisleit er að kröfur Véfréttarinnar hafa aukist um þvílíka býsn að annað eins er fáheyrt. Þegar Véfréttin var síðast í húsnæðisleit vildi hún helst setjast að á svæðum sem hún vill síst sjá nú.

Ekki er nóg með að staðsetning sé farin að hafa meiri áhrif á stefnu Véfréttarinnar en góðu hófi gegnir, heldur er Véfréttinni mjög umhugað um hluti eins og fjölda íbúða í húsi (gjarnan vill hún einbýli, ekki alveg að fara að gerast) og aðgengi að garði, sem og stærð garðs og fleira í þeim dúr. Helst vill Véfréttin myndarlegan og barnheldan sólpall. Og ekki vill Véfréttin of gamalt hús, best væri ef það hefði verið byggt á síðasta áratug, þó að ákveðin skeptík sé bundin við góðærisbyggingarnar sem sprottið hafa upp eftir breytingar á lánakerfinu 2004.

Sveimhuginn er á öðrum buxum. Hjarta hans slær í 104 Reykjavík og þar grefur hann upp hvern háaldraða fúahjallinn á fætur öðrum sem hann reynir að fegra fyrir Véfréttinni (en þar sem Sveimhuginn er viðkvæmur fyrir umfjöllun á Véfréttarblogginu skal hér með undirstrikast að ást Véfréttarinnar á honum er enn sem fyrr mikil og heit).

Honum hefur þó tekist að fá Véfréttina að mestu leyti ofan af plönum um að flýja land hið snarasta, með smérbornum loforðum um landaflutninga á næsta eða þarnæsta ári (gæti verið gildra). Og þangað til verða hjónakornin með börnin tvö að hafa þak yfir höfuðið.

Véfréttin ákallar nú lesendur sína. Hvað vitið þið, kæru lesendur, um Norðlingaholt?

Hvernig fólk er þar, er þetta eitthvað gettó? Vitið þið um einhvern sem á þar heima? Vitið þið um einhvern sem veit um einhvern sem á þar heima? Og vitið þið eitthvað um Kólguvað? Þar ku vera nóg laust á neðri hæðum. Vitið þið kannski um einhvern sem vill flytja þangað með Véfrétt og fjölskyldu? Eða eru þið kannski sjálf til í... eh... hm.

Eða vitið þið um aðra góða staði, íbúðir, hús, búgarða... þar sem Véfréttin fær drauma sína uppfyllta og litla familían fær dafnað í gleði og góðviðri?

Á meðan Véfréttin engist um og kvelst af valkvíða - og af þeim dapurlegu örlögum að verða, fjárhagsins vegna, að öllum líkindum að horfa á bak mörgum af sínum mikilvægustu hreiðurgerðardraumórum, lætur hún sig dreyma um útlönd. Sjáið bara hvað það er fínt í Gautaborg... meira segja að vetri til!


4 Comments:

Blogger Drífa Þöll said...

ég vona innilega að það gangi vel að semja um íbúðakaupin hjá ykkur hjónum. annars veit ég að fín sjómannsfrú býr í norðlingaholti og ber því vel söguna. hún og fjölskylda er einmitt í göngufæri við reynisvatn, stutt að fara að dorga ef menn og konur hafa gaman af stangveiði. bendi líka á að það er nóg laust húsnæði í vestmann, einbýlishús með garði og palli á verði 2 herbergja blokkaríbúðar í slömmhverfum borgar óttans.

föstudagur, júní 01, 2007 11:52:00 f.h.  
Blogger Véfrétt said...

Innilegustu þakkir fyrir innleggið. Hef einbýlishúsið í Eyjum á bak við eyrað... og bíð spennt eftir fleiri upplýsingum um hugsanlega tilvonandi nágranna mína ;-)

föstudagur, júní 01, 2007 12:55:00 e.h.  
Blogger Unknown said...

Jamm Gógó býr í Rauðavaði. Voða ángægð en e-h hluta vegna aftur byrjuð að leita að íbúð...Er á jarðhæð og með pall ef það heillar.
Fuss...norðlingaholt...

föstudagur, júní 01, 2007 8:25:00 e.h.  
Blogger Skoffínið said...

Er ekki Gautaborg nær miðborg Reykjavíkur heldur en Norðlingaholt. Sem minnir mig á það, var ekki eitthvað sem hét Villingaholt þarna upp frá?

föstudagur, júní 08, 2007 12:38:00 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home