þriðjudagur, júní 05, 2007

Í dag eru einungis tveir mánuðir, sléttir, í að Véfréttin eigi að verða léttari.

Og Véfréttin er enn á húsnæðismarkaðnum, með bumbu, barn og bónda. Ekki gott mál.

Véfréttin og Sveimhuginn hafa þó ekki setið auðum höndum. Nú hafa 17 híbýli verið skoðuð, eða eiginlega 19 því á einum stað í dag voru 3 íbúðir til sýnis. Já eða eiginlega 22 í allt ef telja má örsmáar leiguíbúðir sem hafa fylgt sumum eignunum.

En upptalningin er á þessa leið (í nokkurn veginn réttri röð):


Viðarás
Dverghamrar
Dalssel
Vallarás
Kólguvað
Merkjateigur
Undraland
Víðiteigur
Þúfubarð
Ferjuvogur
Álakvísl
Ásbúðartröð
Stekkjahvammur
Langholtsvegur
Andrésbrunnur
Hallakur (x3)
Galtalind

Impressive?

Nema hvað, Véfréttin og maki eru gjörsamlega að þrotum komin andlega. Þetta er erfiður, brútal og ljótur bransi. Allar eignir eru á viðurstyggilega uppsprengdu verði (nema eign hjónakornanna sem enginn sýnir áhuga þrátt fyrir fagra lýsingu, lokkandi myndir og afburðagott ástand, sjá mbl.is).

Og Véfréttin og makinn eru eiginlega lúsblönk fyrir, ekki mikið ráðrúm til að bæta miklum afborgunum við.

Merkilegt nokk virðast eignirnar sem eru í Hafnarfirði í hvað bestu ástandi, ef frá eru taldar splunkunýjar eignir. Sveimhuginn er orðin svag fyrir Hafnarfirði. Véfréttin veit að þar er allavega einn góður leikskóli og er því jákvæð.

Þess utan er spurning um þessi nýrri hverfi á höfuðborgarsvæðinu, hvað af þessu er vænlegt til framtíðarbúsetu og hvað af þessu er bara gettó framtíðarinnar? Og á hvaða stöðum verður gott að selja aftur, þegar þar að kemur, eftir 2 - 20 ár? Allar ábendingar eru vel þegnar. Takk fyrir kommentin á síðasta blogg, btw.

Svo virðist ekkert hlaupið að því að finna jarðhæðaríbúðir, eftir draumórum Véfréttar, hvað þá með barnheldri verönd. Andvarp, stuna og dæs.

Véfréttina langar að loka sig inni, helst undir þykkum feldi á la Ljósvetningagoði, nema bara ekki til að hugsa. Einmitt til að hætta að hugsa, þetta er svo lýjandi og svekkjandi bransi.

Hér eru hamingjusöm mörgæs og selur, sem hafa fundið vel staðsett hús að sínu skapi. Það má líta á þetta sem táknmynd.

1 Comments:

Blogger Unknown said...

Æ greyið mitt...
Ef það er einhver huggun þá er Halló Hafnarfjörður orðinn mjög ofarlega settur á óskalista okkar, sérstaklega golfsjúklingnum sem ég er gift og með fokdýrt árskort á Hvaleyrarvelli. ( Og neitaði einu sinni að skoða íbúðir í Skerjafirði afþví þær voru svo langt frá miðbænum...)
Og ég sé fram á að lítið einbýli með garði á semi-viðráðanlegu verði sé ekki að finna í mínum ástkæra miðbæ.
Svo ég styð þetta heilshugar! Og þú átt meiri von á að ég fylgi þér þangað fyrir rest heldur en í hið forbandede Norðlingaholt!
ps
Þú þarft endilega að kenna Ösp að setja inn myndir á bloggið.
Knús
H

þriðjudagur, júní 05, 2007 10:04:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home