fimmtudagur, júní 07, 2007

Véfréttin er allsendis ófær um að skrifa um nokkuð annað en húsnæðisleit þessa dagana, af sömu ástæðu og hún er ófær um að hugsa um nokkuð annað.

Frá síðustu færslu hefur Véfréttin skoðað eina íbúð í viðbót, en Sveimhuginn svaðalegi hefur skoðað tvær. Hann er sumsé farinn að fara sínar eigin leiðir... nánar tiltekið á hann félaga sem er fasteignasali og lumar á ýmsu.

En í gær settust hjónin við tölvuna, opnuðu heimabankann, Excel og nokkrar góðar heimasíður og fóru að reikna. Eftir mikið reikn, blót, svita og streð komust þau að niðurstöðu: Með því að losa sig við báða bílana geta þau gert dónalega lágt tilboð í álitlega íbúð sem annars er til sölu á svívirðilega háu verði (fermetraverð á hvern skráðan fermetra er 362.000 - gerist það hærra?).

Nú er beðið eftir að hinn húsafróði og handlagni faðir Véfréttarinnar komi heim frá Krít og geti farið með í skoðunarferð um eignina til að hjálpa til við að skera úr um hvort vert sé að svo mikið sem prófa að gera þetta dónalega tilboð yfir höfuð.

En í millitíðinni smella Véfréttin léttúðuga og Sveimhuginn svakalegi sér á ættarmót í Eldborg (sem Véfréttin hefur fram til þessa tengt við smérsýru, ellur og rifin tjöld, en það var víst bara eitt árið).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home