þriðjudagur, október 12, 2004

Mér hefnist grimmilega fyrir vel meinta framtaksemi mína, því nú er kominn linkur inn á mig úr Durham Doðrantinum og það gæti haft afdrifaríkar afleiðingar. Hef fram til þessa lagt mig í líma við að segja engum frá blogginu mínu, en nú gæti það borist út sem eldur í skrjáfandi sinu. Fyrir þig (ef einhver ert) sem smelltir þér hingað inn beint frá Durham vil ég segja þér frá því að ég er hvorki jafnoki meðal-nemanda í Íslömskum fræðum hvað varðar afköst né orðforráð. Enda set ég ekki markið svo hátt. Bloggið mitt er fyrst og fremst útrás fyrir nöldurþörf, eins og flest íslensk blogg. Dagbókin mín er mun líflegri, en því miður fyrir upplýsingaþyrsta hef ég í rúm 17 ár haft þann sið að hafa hana prívat og get ómögulega hugsað mér að kommersíalisera hana núna.
En ef ég væri ekki í losti yfir þessari óvæntu markaðssetningu myndi ég ef til vill segja nokkur vel valin orð um über-pólitískan fund sem ég fór á í gær. Hjá stjórnarandstöðunni hér í bæ (fyrir þá sem ekki fylgjast með). Myndi gjarnan vilja segja nokkur orð um crowdið þar, en því fylgir töluverð áhætta fyrir pólitískan frama minn, ef eitthvert þeirra skyldi nú álpast hingað inn dag einn. Og hvað veit maður, ef markaðssetningin heldur áfram með þessum hætti?
Allavega, þemað var umhverfismál. Meðal margra áhugaverðra staðreynda og hugmynda sem varpað var fram stendur þessi hugstaðmyndarreyndarspurning eftir: Á að rukka fólk fyrir rusl sem það sendir frá sér? Hugmyndin er þá að vigta og rukka eftir kílóum, eða grömmum kannski, er ekki viss. Frábært fyrir barnafjölskyldur með bleiurassa í sínum röðum. Enn betra fyrir fatlaða og aðra sem þurfa að geta treyst á einnota dót alls konar. Sé fyrir mér nýja tegund glæpa: Að henda ruslinu sínu í tunnu nágrannans... hrollvekjandi verknaður! Annars gefur þetta líka möguleika á því að fara bara með ruslið sitt eitthvert afsíðis, upp á öræfi til dæmis, og skilja það eftir þar. Spennandi valmöguleiki semsagt.
Og nú er ég hætt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home