föstudagur, október 08, 2004

Véfrétt er borgið! Um leið fær Véfrétt innblástur. Í dag bárust í póstinum heldur en ekki gleðileg tíðindi. Í appelsínugulu sérmerktu umslagi, skreyttu með glaðlegum marglitum doppum barst Véfrétt eftirfarandi tilkynning: Nýju Always Ultra vernda þig! Og hvað þarf varnarlaust konugrey frekar, á þessum síðustu og verstu? Ekki nóg með það, heldur var í hugvitssamlegu broti á bak við þessa hughreistandi tilkynningu búið að koma fyrir einmitt einu svona verndandi bindi (sem Véfrétt hugkvæmdist til dæmis að líma á vegginn fyrir ofan höfðagaflinn sinn og þannig sofa örugg hér eftir, einnig mögulega á stuðarann á bílnum).
En ekki var allt sem sýndist. Fyrir neðan bindið stóð, með smáu letri: Prufa - notið ekki. Hvað var þá til bragðs að taka? Véfrétt las meira og komst þá að því að með því að mæta á Tapas-barinn á næstunni og dansa við latínó-fola í bleikri skyrtu gæti hún átt möguleika á stórkostlegri ferð fyrir 2 á Karnival á Kanarí. Í beinu samhengi (?!) er fullyrt að nýr og endurbættur blár (!) kjarni í Always Ultra bindunum dragi í sig meiri vökva en kjarni nokkurs annars bindis. Það er nú einmitt það sem við þurfum: Þurrari kvenmannsklof (betri getnaðarvörn er ekki hægt að hugsa sér).
Akkúrat á þessari stundu gegnir appelsínugula orðsendingin, með ónothæfa prufubindinu, hlutverki þroskaleikfangs fyrir bindisneytanda framtíðarinnar sem situr sallasátt(-ur?) í sinni einkar rakadrægu Bambolina-bleiu og kynnir sér eðli og eiginleika Always Ultra (einkum og sér í lagi límröndina) í þaula.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home