miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Orð dagsins eru komin frá Voltaire og þó hann hafi sennilega sjaldnast mælt á engilsaxneska tungu þykir Véfrétt óþarft að vera að þýða allt sem hún rekst á fram og til baka og lætur það bara flakka svona, enda væru þessi orð ekki spakari þó Véfrétt hefði mælt þau sjálf: "It is dangerous to be right on a subject on which the established authorities are wrong."

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Hvaða mýta er það að börn fíli skemmtaratakt? Ég hef stundum hlustað á Útvarp Latabæ, þá helst í bíl, vegna skorts á boðlegum útvarpsstöðvun almennt. Ekki það að ég sé að afsaka! Nema hvað; það slær mig hve keimlíkur flutningur þessara laga er iðulega. Söngvarar eru mishæfir, en syngja alltaf eins, alveg án tilþrifa og undirleikur hefur engum breytingum tekið á þeim áratugum sem liðnir eru síðan ég sat sem límd með hlustunarpípur við hátalarana og hlustaði á ferskustu barnaslagara bernsku minnar. Og sem barni þótti mér ekkert síður gaman að flottum bongóbítum eða öðru grípandi og skemmtilegu. Ég hef reyndar heyrt stöku tilraunir með teknótakt og þess háttar í barnalögum og sömuleiðis endurgerðir á einhverjum poppsmellum í flutningi Rokklinga eða sambærilegra fyrirbæra, en einnig þar er skemmtarafílingurinn aldrei langt undan. Ég hef stungið upp á því við Sveimhuga að gera metnaðarfulla barnaplötu, en hlaut vægast sagt dræmar undirtektir. Nú skora ég á einhvern hinna fjölmörgu lesenda bloggsíðunnar (hey, heimsóknafjöldi er strax aftur kominn upp í 28, ha!) að leggja mér lið í að umbylta barnatónlistarsögu Íslands. Það er kominn tími á almennilega fönkí barnaplötu!

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

4 lítrar af ananassafa. Brjáluð barnafjölskylda með bílflautumaníu. Ofannaktir karlmenn í gífurlegu úrvali. Kona að gefa boli (fyrir börn). Dvergvaxnir hundar í böndum. Reiðhjól. Barnakerrur. Chopperar. Kaffihús með stóla og borð úti á götu. Afsláttarvörur í kössum. Börn með bolta. Rónar. Unglingagengi með gorgeir. Sætir strákar sem Sara hefur kysst. Bílastæðahörgull. Sólbrúnar sjónvarpsstjörnur. Gaurar að spila á gítar. Löng biðröð í ísbúðinni. Ódýrar trendlopapeysur á standi. Sviti. Opnir bílgluggar. Neongræn garðhúsgögn. Yfirstandandi viðgerðir á gangstéttum og götum. Hótelsalerni með snertiljósrofa. Hálfhruninn veggur. Garðhlið sem stendur á sér. Tómar dósir. Gönguljós. Fimm stafa símanúmer. Tjörnin. Nýtt kaffihús. Nauðrakaður köttur. Og allt þetta er allt, allt öðruvísi þegar þessi óútskýranlega birta helst í hendur við þennan óútskýranlega hita.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Hvað kom fyrir teljarann minn? Ég sem fylgdist alltaf svo spennt með því hvernig talan steig hærra og hægra, sigraði hvert hundraðið á fætur öðru... svo allt í einu hverfur teljarinn í nokkra daga og kemur svo til baka núllstilltur. Ekki sniðugt!
Annars eru í dag 9 mánuðir frá 11. nóvember og um leið 3 mánuðir í þann næsta.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Í 15 langa og erfiða daga hefur Véfrétt tilheyrt verkalýðnum, hinni vinnandi stétt, hinum þjáðu. En ekki lengur, það tilkynnist hér með að Véfrétt hefur skrifað sitt síðasta orð um dásemdir íslenskrar náttúru og er frjáls úr viðjum launaþrælkunarinnar!