þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Hvaða mýta er það að börn fíli skemmtaratakt? Ég hef stundum hlustað á Útvarp Latabæ, þá helst í bíl, vegna skorts á boðlegum útvarpsstöðvun almennt. Ekki það að ég sé að afsaka! Nema hvað; það slær mig hve keimlíkur flutningur þessara laga er iðulega. Söngvarar eru mishæfir, en syngja alltaf eins, alveg án tilþrifa og undirleikur hefur engum breytingum tekið á þeim áratugum sem liðnir eru síðan ég sat sem límd með hlustunarpípur við hátalarana og hlustaði á ferskustu barnaslagara bernsku minnar. Og sem barni þótti mér ekkert síður gaman að flottum bongóbítum eða öðru grípandi og skemmtilegu. Ég hef reyndar heyrt stöku tilraunir með teknótakt og þess háttar í barnalögum og sömuleiðis endurgerðir á einhverjum poppsmellum í flutningi Rokklinga eða sambærilegra fyrirbæra, en einnig þar er skemmtarafílingurinn aldrei langt undan. Ég hef stungið upp á því við Sveimhuga að gera metnaðarfulla barnaplötu, en hlaut vægast sagt dræmar undirtektir. Nú skora ég á einhvern hinna fjölmörgu lesenda bloggsíðunnar (hey, heimsóknafjöldi er strax aftur kominn upp í 28, ha!) að leggja mér lið í að umbylta barnatónlistarsögu Íslands. Það er kominn tími á almennilega fönkí barnaplötu!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home