miðvikudagur, júlí 05, 2006

Þessa dagana bíð ég spennt eftir skilaboðum frá æðri máttarvöldum í draumi (ekki spyrja af hverju, því véfréttin svarar ekki beinum spurningum).



En það er annað hvort eitthvað sambandslaust þarna upp, eða þá að ég fatta ekki skilaboðin. Í nótt dreymdi mig þó að litli bróðir litla stráksins sem var myrtur af unglingsstaula í USA fyrir áratug eða svo (sjá 60 minutes í gærkvöldi) vann svaka summu í bandarísku lotteríi. Kannski var það ábending? Best að kaupa allavega lottó til öryggis.

En áður en ég fór markvisst að bíða skilaboða dreymdi mig súran en afar sérstakan draum. Þannig var mál með vexti að ég var stödd á sólarströnd með kunningjahópi. Alls staðar í kringum okkur var fólk að skemmta sér, á hinum ýmsu forsendum.

Fólkið í mínum hópi var þó eitthvað misvel upplagt. Svo virtist sem á það hefði verið lögð sú kvöð að innbyrða sem mest af göróttum drykkjum og þannig átti að vera tryggt að allir skemmtu sér.

Man sérstaklega eftir sterkri tilfinningu um að mig langaði alls, alls ekki að taka þátt í þessu. Man svo einnig eftir að hafa pantað mér skyndibita með ákveðinni vinkonu (sem meira að segja les bloggið mitt - vúúú... spennó! Hver skyldi það vera? Hver skyldi það vera???) og um leið reynt árangurslaust að útskýra fyrir henni að mig langaði aðeins að taka púlsinn á mannlífinu og svona áður en ég dytti í það. Jafnvel íhuga möguleikann á að sleppa því alveg og finna mér eitthvað annað til dundurs (útskýringar mínar mættu litlum skilningi en kokkurinn vildi ólmur fá að vita hvort skyndibitinn, sem ég náði ekki að smakka áður en ég vaknaði, væri ekki sérdeilis framúrskarandi).

Jiii... en ógissla halló. Gvuuuð... ég verð að forða mér úr úthverfinu áður en ég týni mér í þessum andlega þroska.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home