sunnudagur, júlí 16, 2006

Það er ansi margt undir sólinni sem veldur Véfréttinni heilabrotum. Margt af því hefur hún tjáð sig um á þessari síðu hér. Eitt af því sem alltaf skýtur upp kollinum með reglulegu millibili eru vírgirtir kvenmannsbarmar.

Hljómar fáránlega, ekki satt?

Hverjum dytti í hug að vírgirða karlmannsbarma? Tja, eða karlmannseistu? Sjáið þið fyrir ykkur pungbindi / nærhald með stálspöngum? Myndi það slá í gegn?

Samt eru það samantekin ráð nærfataframleiðenda að lauma stálspöngum inn í svo til hvern einasta kvenmannsbrjóstahaldara sem framleiddur er, án tilliti til stærðar, lits eða lögunar. Og já; þetta er nákvæmlega jafn óþægilegt og það hljómar.

Stundum getur konan verið í brjóstahaldaranum með spöngunum í í einhvern tíma, áður en þær fara að stingast einum of þrúgandi inn í rifbeinin undir brjóstunum. Þá er ekki um annað að ræða en að munda skærin, framkvæma nettan uppskurð við enda borðans sem umlykur járnbindingarnar og fjarlægja hinn sveigða aðskotahlut.

Þær konur sem trassa þetta lenda iðulega í því fyrr eða síðar að borðinn gefur sig sjálfkrafa og steypustyrktarjárnið skutlast í gegnum litlu götin á tromlunni í þvottavélinni og eyðileggur gangverkið.

Því lengur sem Véfréttin brýtur heilann um tilgang vírbindinganna, því ringlaðari verður hún. Það eina sem hún getur látið sér detta í hug er að haldararnir líti betur út vírbundnir en vírlausir þar sem þeir hanga á herðatrjám í búðinni og eiga að ganga í augun á væntanlegum kaupendum.

Þegar brjóstahaldarinn er hins vegar kominn í notkun gerir járnið ekkert nema að meiða. Það breytir því þó ekki að haldararnir eru iðulega góðir eftir aðgerðina og gagnast vel vírlausir.

Véfréttin er nýlega búin að fjárfesta í nýjum brjóstahöldurum og eins og lög gera ráð fyrir var hún fljót að framkvæma uppskurð. Eitthvað var hún þó að flýta sér og láðist að fjarlægja járnspangirnar af eldhúsborðinu. Dóttirin fann þær og þótti þær forvitnilegar. Fór með þær til föður síns og spurði hvað þetta væri. Faðirinn klóraði sér í kollinum og stóð á gati.

Véfréttin fylgdist með heilabrotum feðginanna úr laumi um stund og hafði gaman af áður en hún svipti hulunni af leyndardómnum. Hins vegar fannst henni viðbrögð þeirra draga saman allt það sem hún hefur um vír í brjóstahöldurum að segja;

til hvers?

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Því miður verð ég að vera ósammála véfréttinni að þessu sinni. Vírinn hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna hjá konum með brjóst af stæri gerðinni... án vírsins væri haldarinn vitagagnslaus!

mánudagur, júlí 17, 2006 6:00:00 e.h.  
Blogger Véfrétt said...

Iss... tek ekkert mark á svona nafnlausu kommenti - sem þar að auki gerir lítið úr stórfenglegum barmi Véfréttarinnar!

þriðjudagur, júlí 18, 2006 8:07:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

'Uff 'eg gengt nánast aldrei í brjósthaldara!!! en you got to do what you gotta do!!

Hvernig gengur með brúðkaups undirbúininginn?

Hvað langar ykkur í brúðkaupsgjöf?
Knús Hafdís

miðvikudagur, júlí 19, 2006 12:11:00 f.h.  
Blogger Sveimhugi said...

Meira járn...!

Annars stóð ég alltaf í þeirri trú að þetta væri til að lyfta upp brjóstunum þannig að þau virtust stærri. Einskonar pre-Wonderbra.

mánudagur, júlí 24, 2006 10:37:00 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home