mánudagur, júlí 11, 2005

Nú erum við að fara í ferðalag (aftur). Á Stórreykjavíkursvæðinu er rigning. Við vonumst til að finna smugu út úr henni. Það er helsta markmið ferðalagsins.
En eiginlega ættum við að vera lögð af stað fyrir löngu. Ef að Sveimhuginn vissi að ég er að eyða dýrmætum tíma í ekki merkilegri iðju en að blogga myndi hann eflaust hoppa hæð sína í loft upp af bræði. En sælir eru fávísir (sem fara með börn út á róló í rigningu).
Sveimhuginn keypti nýjasta eintakið af Frjálsri verslun. Þar eru taldar upp 70 áhrifamestu konurnar í íslensku viðskiptalífi. Gott og vel. Blaðaði í gegnum blaðið, það er voða fínt. Sætar og krúttlegar myndir af öllum duglegu konunum og nokkrum körlum líka. Á þó eftir að taka sjálft lesefnið út, út frá femínísku sjónarhorni.
Nema hvað, þetta minnti mig á mynd sem ég sá í Fréttablaðinu, eða öðrum sams konar miðli, í síðustu viku. Það var mynd af leiðtogum G8 ríkjanna og nokkrum öðrum mikilvægum einstaklingum frá ýmsum löndum (nokkrir svartir, meira að segja, sem líta má á sem vísbendingu um afríkanskan uppruna) sem stilltu sér upp með þeim til myndatöku. Nema hvað; eitthvað þótti mér torkennilegt við myndina, svo að ég staldraði við hana og rýndi í pínulitlu svarthvítu andlitin þar til ég áttaði mig á því hvað það var. Af 20 lykilpersónum, á fundi G8 ríkjanna, var ekki ein einasta KONA!!! Ég varð svo gáttuð að ég bara glápti og glápti, taldi aftur, rýndi meir og var áfram gáttuð.
Spáið í því...
Og í framhaldi af þessu G8 dæmi öllu langar mig að segja brandara, en hann er svo lame að ég kann ekki við að setja hann á blogg, þar sem hver sem er gæti rekið í það augu... og dæmt mig um aldur og ævi fyrir aulaskap. En ef einhver vill samt leggja það á sig er velkomið að meila mér og ég mun brandarast til baka um hæl...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home