föstudagur, júlí 22, 2005

Í seinni tíð hef ég þróað með mér mikla andúð á hvers konar óhreinindum í almenningssturtum. Í seinni tíð segi ég, því langt fram eftir öllum aldri öslaði ég hár og hor upp í ökkla án þess að hugsa mig tvisvar um. En núorðið er ég mjög pjöttuð og þegar ég fer í sturtuna í Baðhúsinu gríp ég hiklaust til sturtugólfsköfunnar (er til eitthvað official orð fyrir þetta tæki?) ef mér hugnast ekki útgangurinn á gólfinu. Nema hvað, fyrir nokkrum dögum var í búin að púla og puða og taka vel á og var sennilega ekki að líta mikið í kringum mig á leiðinni í sturtuna, en þegar ég stóð undir bununni og leit yfir gólfið fylltist ég hinum mesta viðbjóði. Gólfið var löðrandi í rauðri sokkaló, og slóðin lá þar að auki beint að sturtunni minni. Ég bölvaði sjálfri mér fyrir að hafa ekki horft betur niður fyrir tærnar á mér þegar ég valdi mér sturtu og hneykslaðist hjartanlega á þeirri óforskömmuðu konu sem hafði subbað svona út. Ef að maður á rauða sokka sem láta svona mikla ló, hugsaði ég, þá er það nú það minnsta sem maður getur gert að dusta hana af einhvers staðar yfir ruslafötu eða vaski eða eitthvað áður en maður fer í sturtuna! Ég meina, þetta er náttúrlega svo pínlegt fyrir konugreyið, allir hljóta að sjá þegar hún þrammar inn í sturtuna, löðrandi í rauðri sokkaló og sporar allt út um allt... en vandræðalegt! Ég fylltist megnri vanþóknun og varð litið niður fyrir mínar eigin tær, einna helst í þeim tilgangi að reyna að skola lóna burtu úr sturtunni minni, svo að ég þyrfti nú ekki að standa í henni. Sá ég þá mér til mikillar skelfingar að eitthvað af þessari lævíslegu ló hafði, sennilega þegar ég tiplaði kvenlega yfir að sturtunni eins og mér einni er lagið, þegið far með fótum mínum og festst undir nöglinni á stórutá. Þvílíkur viðbjóður! Annarra manna (/kvenna) sokkaló á mínum tám! Föst! Það var ekki fyrr en ég byrjaði í nettu panikki að reyna að losa hana með hinni löppinni að það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði einmitt verið í rauðum sokkum í ræktinni þennan daginn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home