þriðjudagur, desember 28, 2004

Lítið um færslur undanfarið. Best að öppdeita:

Lyktir jólasögunnar urðu þær að tryggingafélagið (VÍS) var í jólaskapi og borgaði nokkuð þokkalega fúlgu sem næstum því dugði fyrir löglegri viðgerð. Fallegi rauði bíllinn er því núna með vínrautt húdd, fjólublátt grill og smekklega beige stuðara. Engin hætta á að hann týnist, t.d. á stóru bílastæði.

Jólagjafaóskalistinn virðist hafa slegið í gegn, mér til mikillar undrunar og nokkurs kinnroða. Fékk meira en helminginn af því sem þar er tínt til! Furðulegt... eða sko frábært og skemmtilegt, en samt um leið pínu vandræðalegt. Er það ekki?

Kominn tími til að ljóstra því upp hvað mig langaði raunverulega í í jólagjöf, en var of hlédræg til að fara fram á:

Ljósaperur í Zanussi C306 eldhúsviftu...

þriðjudagur, desember 14, 2004

Jólasaga

Einu sinni var háttsettur embættismaður á kapítalistajeppa. Einn góðan veðurdag fyrir jólin fór embættismaðurinn með vísitölufjölskylduna sína (1 kona + 2,5 börn) í bíltúr. Ferðinni var heitið á jólatréssölu skammt utan við borgarmörkin. Þegar embættismaðurinn hafði valið fegursta jólatréð og komið því fyrir í bílnum lagði hann af stað. Hann sá ekki vel út á þjóðveginn, en sagði við sjálfan sig ,,Skítt með það, ég er á jeppa" og gaf í.
Á sama tíma var skrifstofublók úr úthverfabæ á leið heim af vel heppnuðum AA-fundi. Skrifstofublókin ók á löglegum 80 km hraða sömu leið og alla aðra daga vikunnar. Skyndilega sá skrifstofublókin hvar stór og stæðilegur kapítalistajeppi hlunkaðist út á veginn. Skrifstofublókin negldi niður og náði þar með að bjarga eigin lífi, en ekki bílnum.
Bíllinn: Renault 19 RTi, árgerð 1993.
Kaupverð bílsins á sínum tíma: 120.000.-
Listaverð bílsins núna: 80.000.-
Almenningssamgöngur í litla úthverfabænum eru ekki upp á marga fiska. Skrifstofublókin var og er algerlega háð bílnum sínum til að komast til og frá vinnu, að ekki sé minnst á félagslíf og menningarviðburði. Kona og barn skrifstofublókarinnar voru og eru einnig háð bílnum upp á tengsl við umheiminn. Hins vegar getur tryggingafélagið metið dæmið sem svo að ekki taki því að lappa upp á skrjóðinn og borgað skrifstofublókinni bara 80.000.- í staðinn. Þá þarf litla familían að fara á laggirnar og leita uppi nýtt fjölskyldufarartæki. En hvar fæst boðlegt farartæki fyrir 80.000 krónur í dag? Að maður tali nú ekki um farartæki með sögu og sál á við hið gamla?
Sem betur fer fyrir embættismanninn þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því. Reyndar laskaðist stýrisbúnaðurinn í jeppanum hans lítillega, en það er allt í lagi; hann var í kaskó. Þess utan eiga nú allir embættismenn með sjálfsvirðingu a.m.k. tvo bíla (einn borgarjeppa og eina frúarlús). Enda hljómar upphæðin 80.000.- krónur meira eins og verð á jólaskrauti en bíl í eyrum háttsetts embættismanns.

laugardagur, desember 11, 2004

Fer að dæmi heilagrar böku og skelli jólagjafaóskalistanum inn á netið! Ólíkt henni er ég þó ekki nógu göfuglynd til að vinsa (!) úr það sem ber vott um heimtufrekju og skelli því fram öllu sem mér dettur í hug!
Athugið að þeir veraldlegu hlutir sem hér eru upp taldir koma náttúrlega beint á eftir þessu klassíska, ss. heimsfriði, hamingju og heilsuhreysti fjölskyldu og vinum til handa osfr. í röðinni:
  • Rauðar bómullarsokkabuxur
  • Geisladiskurinn Frjáls Palestína (Ýmsir flytjendur)
  • Geisladiskurinn Summer make good (MÚM)
  • Ólöf Eskimói (ef ekki jarðneskar leifar hennar þá dugar bókin)
  • Al-Anon lesefni (hvað sem er)
  • Freyðibað/baðolía - sem ,,náttúrulegast"! Fæst bara í heilsubúðum (ekki Lush eða Body Shop...)!
  • Fínir vetrarskór / stígvél
  • Fín og hlý vetraryfirhöfn! Kápa eða sambærilegt
  • Blásturshljóðfæri sem ég held að heiti Melodica
  • Inniskór (sem jafnast á við mína gömlu rauðu að notagildi og ytri fegurð)
  • Gjafabréf eða inneign í / á ljósmyndanámskeið (sjá ljosmyndari.is), Kringluna, Smáralind, Laugaveginn (er það til?), söngnámskeið (einkatíma, ekki veitir af), námskeið í vefsíðugerð, dekurdag, IKEA eða annað spennandi/hagnýtt.
  • Lottómiði með 5 vinningstölum svo að ég geti keypt allt ofangreint og meira til sjálf

Já, ég veit að þetta er mestallt rándýrt (vitnar um sjúklega efnishyggju) og ólíklegt að ég fái nokkuð af þessu, enda á ég það ekki skilið. En þessu er nú flestu beint að ákveðnum einstaklingi (sem kúkar peningum, nei ég meina pissar sitjandi, nei ég meina fær annað eins að gjöf frá mér) auk þess sem alltaf er hægt að skjóta saman í eitthvað með fleirum! Er það ekki? Annars kemur líka til greina að gefa mér bara koss á kinn og þá eru allir glaðir. Nú eða kinnhest.

föstudagur, desember 10, 2004

Thíhí... enginn þorir að kommenta á málfræðikennslustundina. Leiðinlega Véfréttin, fussum svei.
En vissir þú... að öll orð í íslensku máli sem enda á -a og ekki eru kvenkyns, nema bjúga, vísa til líkamshluta (hjarta, nýra, eyra, auga, milta osfr.). Langar einhvern að reyna að útskýra það?

fimmtudagur, desember 09, 2004

Eyru Véfréttar engjast yfir málfræðiambögum samtíðarmanna hennar. Vegna aðkallandi þarfar vill Véfrétt upplýsa lesendur sína um eðli og merkingu nokkurra orða sem eiga það til að ruglast saman.

Vinsa <> vingsa

Tvennt ólíkt!!!
Sjá orðabók:

Vingsa: Sveifla, láta sveifla > vingsa einhverju
Vinsa: Hreinsa, ná óhreinindum úr
Vinsa úr: Velja það skásta úr einhverju

Véfrétt fær sting í eyrun, roðnar og verður að taka sjálfa sig taki til að missa ekki út fliss þegar hún heyrir fólk tala um að vingsa úr upplýsingum osfr. Meikar ekki sens!

Lunga <> lungi

Ókey, við vitum öll hvað lunga er, er það ekki?
Það sem ekki virðist vera á allra vitorði, hins vegar, er t.d. að dagar eru ekki með lungu, ekki frekar en hjörtu, nýru, miltu eða bris, ekki nema í yfirfærði merkingu. Þar kemur orðið lungi inn í myndina. Sjá aftur orðabók:

Lungi: Kjarni, það besta af einhverju > lunginn úr heyinu.

Samanber frasann lunginn úr deginum (um lungann úr deginum, frá lunganum úr deginum, til lungans úr deginum). Einnig er stundum talað um lungann úr brauðinu, ss. nokkurn veginn allt það sem ekki er skorpa.

Vona að bjartari dagar renni upp fyrir tungur landsmanna.



miðvikudagur, desember 01, 2004

Er búin að vera að jafna mig síðan á föstudag þegar mér bárust til augna þær lamandi fréttir að Bubbi og Brynja væru skilin. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að samband þeirra skipti mig máli, en þegar ég rak augun í þessar fréttir var sem blóðið frysi í æðum mér, hjartað sykki niður í kvið og andardrátturinn hætti um leið að vera eðlilegur og áreynslulaus.
Ég gerði það sem ég geri annars aldrei; keypti DV, í von um að komast til botns í málinu. En þar var litla huggun að fá - og satt að segja harla litlar upplýsingar líka. Greinin um sambandsslitin gekk út á að spyrja frægt fólk hvað því finndist. Fræga fólkið var iðulega nokkuð slegið (þó ekki jafn slegið og ég), en hafði ekkert sérstakt um málið að segja. Einum hraut þó vísa af vörum sem Sveimhugi túlkaði sem svo að Bubbi væri fallinn.
Jæja, það er greinilega engu að treysta í þessum heimi.
Andvarp.