þriðjudagur, desember 14, 2004

Jólasaga

Einu sinni var háttsettur embættismaður á kapítalistajeppa. Einn góðan veðurdag fyrir jólin fór embættismaðurinn með vísitölufjölskylduna sína (1 kona + 2,5 börn) í bíltúr. Ferðinni var heitið á jólatréssölu skammt utan við borgarmörkin. Þegar embættismaðurinn hafði valið fegursta jólatréð og komið því fyrir í bílnum lagði hann af stað. Hann sá ekki vel út á þjóðveginn, en sagði við sjálfan sig ,,Skítt með það, ég er á jeppa" og gaf í.
Á sama tíma var skrifstofublók úr úthverfabæ á leið heim af vel heppnuðum AA-fundi. Skrifstofublókin ók á löglegum 80 km hraða sömu leið og alla aðra daga vikunnar. Skyndilega sá skrifstofublókin hvar stór og stæðilegur kapítalistajeppi hlunkaðist út á veginn. Skrifstofublókin negldi niður og náði þar með að bjarga eigin lífi, en ekki bílnum.
Bíllinn: Renault 19 RTi, árgerð 1993.
Kaupverð bílsins á sínum tíma: 120.000.-
Listaverð bílsins núna: 80.000.-
Almenningssamgöngur í litla úthverfabænum eru ekki upp á marga fiska. Skrifstofublókin var og er algerlega háð bílnum sínum til að komast til og frá vinnu, að ekki sé minnst á félagslíf og menningarviðburði. Kona og barn skrifstofublókarinnar voru og eru einnig háð bílnum upp á tengsl við umheiminn. Hins vegar getur tryggingafélagið metið dæmið sem svo að ekki taki því að lappa upp á skrjóðinn og borgað skrifstofublókinni bara 80.000.- í staðinn. Þá þarf litla familían að fara á laggirnar og leita uppi nýtt fjölskyldufarartæki. En hvar fæst boðlegt farartæki fyrir 80.000 krónur í dag? Að maður tali nú ekki um farartæki með sögu og sál á við hið gamla?
Sem betur fer fyrir embættismanninn þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því. Reyndar laskaðist stýrisbúnaðurinn í jeppanum hans lítillega, en það er allt í lagi; hann var í kaskó. Þess utan eiga nú allir embættismenn með sjálfsvirðingu a.m.k. tvo bíla (einn borgarjeppa og eina frúarlús). Enda hljómar upphæðin 80.000.- krónur meira eins og verð á jólaskrauti en bíl í eyrum háttsetts embættismanns.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home