þriðjudagur, janúar 29, 2008

Fyrir 7 eða 8 árum heyrði Véfréttin skólasystur sína lýsa því yfir af miklum sannfæringarkrafti að hún myndi AAAAALDREI nokkurn tíma framar drekka úr glasi á hótelherbergi. Ástæðan? Jú, hún hafði um skeið unnið sem herbergisþerna á aldeilis flottu fjölstjörnu hóteli við Strikið í Køben. Þar tíðkaðist að hrækja í glösin og pússa svo upp í snatri.

Æ síðan hefur Véfréttin litið hótelglös hornauga. Og jafnvel þó að hún hafi síðan helst dvalið á Fosshótelum og margoft séð vagna með hreinum og fínum glösum á göngunum þegar þernur eru að störfum og jafnvel horft á glösum skipt út og fylgt þeim alla leið að uppþvottavélinni, þá þvær hún þau enn sjálf áður en hún notar þau. Bara til öryggis.

Þannig að á þeim árum sem liðin eru síðan fóbíufræinu var sáð hefur Véfréttin aldrei náð að líta hótelglös réttu auga. Það varð því sem vatn litla fóbíusprotann þegar Véfréttin fékk þennan tengil sendan. Skoðið endilega og myndið ykkur sjálfstæða skoðun á því hvað þið ætlið að gera næst þegar þið þurfið að bursta í ykkur tennurnar á hótelherbergi...

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Um helgina langaði Véfréttina að blogga um að hún hefði farið út að djamma eins og hver annar kærulaus unglingur. Reyndar var meðalaldurinn á djamminu á milli fertugs og fimmtugs, semsagt bara rétt handan við hornið fyrir Véfréttina. Það stafaði af því að tilefni þessa tiltekna djamms, hún Janis okkar Joplin, hefði orðið 65 ára þennan ágæta dag. Ja, eða daginn eftir. Skiptir ekki öllu. Aðdáendur sumsé farnir að reskjast líka. En fullt af frægu fólki söng. Jei!

Og jú, það var voða gaman á ,,djamminu" og Véfréttin varð ung á ný, þrátt fyrir áðurnefndar tölur. En djammið var í skugga leiðinlegri hluta og strax daginn eftir tóku leiðinlegu hlutirnir völdin og halda þeim enn. Pjæ.

Þið dyggustu munið eftir sveppnum. Hann var svartur og mjór, af ættkvíslinni Cladosporium og hafði hreiðrað um sig neðst við kant sturtubotnsins í síðustu heimkynnum Véfréttarinnar löngu áður en hún kom til sögunnar. Þegar upp um hann komst var hann búin að dreifa sínum eitruðu gróum (gróm?) út um allt hús og gera alla veika. Hreinsunarferlið tók marga mánuði.

Og aðeins meiri upprifjun: Véfréttin og Sveihuginn sæti skoðuðu 46 íbúðir í leit að fullkomlega sveppalausri íbúð. Já, þau vildu ekki taka neina sénsa. Því varð að lokum splunkunýtt húsnæði fyrir valinu - alveg flunku-splunku. Ekki að það hafi borgað sig fyrir budduna síléttu, en hey; hvað gerir ekki ábyrgt fólk í viðleitni sinni við að tryggja öryggi fjölskyldunnar?

Þegar þrír dagar voru eftir af nýju ári fór að leka. Lekinn kom úr miðju lofti anddyris hinnar nýju íbúðar - sem var einkar athyglivert þar eð íbúðin var á jarðhæð og 3 hæðir fyrir ofan og þar af önnur hæðin mannlaus. Hjónakornin drituðu meilum og símtölum í allar áttir, á verktaka, tryggingafélagið, fasteignasöluna og þar fram eftir götunum. Samt fengu þau að njóta vætunnar í tvær langar vikur, enda áramót og fólk upptekið af mikilvægari hlutum.

Þegar hlutaðeigendur tóku loks tappana úr eyrunum kom í ljós að vökvinn átti upptök sín í niðurfalli sturtu nágrannanna á fjórðu hæð (sem áður hefur verið getið um hér, þá í sambandi við fljúgandi sígarettur). Og skolpið hafði seytlað óáreitt í gegnum þrjár hæðir, nokkrir dropar höfðu tekið á sig krók og endað förina í fötu á anddyrisgólfinu á jarðhæðinni, en restin seytlað áfram ofan í geymslu fjórðu hæðar reykingaunnendanna sjálfra, í kjallaranum. Í tvær vikur, nota bene.

Nú gerir Véfréttin ekki ráð fyrir því að lesendur hennar séu sérfróðir um sveppi, enda tiltölulega stutt síðan hún varð meðvituð um tilvist þeirra sjálf. En kjarni málsins er fremur einfaldur; þar sem er raki (í íbúðarhúsnæði) - þar koma sveppir.

Önnur vel þekkt staðreynd í myglusveppafræðunum er að ung börn og gamalmenni eru veikust fyrir eitrunaráhrifum af gróm sveppanna, ásamt með þeim óheppnu hræðum sem áður hafa orðið fyrir eitrun (lesist fjölskylda Véfréttarinnar, mínus gamalmenni reyndar - og já, no smart jokes þið þarna).

Það hefði því e.t.v. ekki átt að koma á óvart að ungbarnið skyldi vera fyrst til að veikjast. En það var þó ekki fyrr en það fór að blæða úr nefinu á því, rétt eins og forðum daga fossaði úr nefjum hjónanna seinheppnu, að húsmóðirin sá sér þann kost vænstan að fara.

Til að gera langa sögu stutta - Véfréttin situr á hótelherbergi með sveppaveiki og hlustar á sveppaveiku dætur sínar hrjóta. Tryggingaverkamenn hafa staðið í stórræðum í íbúðinni og komið þar fyrir alls kyns ranimoski sem á að gera góða hluti. Tryggingarnar borga samt ekki hótelherbergi, heilsutjón, sálrænt rask eða annað sem fylgir öllu þessu stússi.

Bíðum og sjáum hvað verða vill.

Æ, hvað þeir mættu miklu frekar vera af þessari tegund.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Eftir 4 mánuði í stífri atvinnuleit hefur Véfréttin smátt og smátt áttað sig á döprum sannleika. Ísland er ekki land atvinnuauglýsinga og jafnrar samkeppni. Ísland er land kunnings- og klíkuskapar. Vinnur veitast í gegnum vina- og fjölskyldutengsl. Þetta vita náttúrlega allir innfæddir, en sumir, eins og Véfréttin, halda þó ansi lengi í ídeólógíuna.
Það hefur runnið upp fyrir Véfréttinni að hún hefur í gegnum tíðina valið sér félagsskap á alröngum forsendum. Vinir og vinkonur Véfréttarinnar er samansafn af fólki sem henni hefur þótt skemmtilegt, fundið til samkenndar með og þótt vænt um.
Þvílík reginmistök. Fáir ef einhverjir úr þessum hópi eru þess megnugir að húkka Véfréttina upp á þeim stöðum sem hún vill vinna á. Það er því með sorg og trega, en hagkvæmni að leiðarljósi, sem Véfréttin kveður ykkur nú, gömlu vinir og vinkonur. Takk fyrir samfylgdina.

Mynd af nýju vinum Véfréttarinnar.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Gleðilegt ár kæru örfáu en sauðtryggu lesendur. Véfréttin ber mikla virðingu fyrir ykkur öllum og gleðst ósegjanlega yfir því að þið skulið láta svo lítið að lesa þessi orð, hvað þá önnur sem af fingurgómum hennar hrjóta.

Og enn á ný viðurkennir Véfréttin að vera plebbi sem pælir í skaupinu. Dómur ársins er á þá leið að væntingar þær sem Véfréttin hafði ómeðvitað alið með sér, meðal annars eftir að hafa velst um af hlátri yfir síðasta skaupi og Næturvaktinni, hafi brostið eftirminnilega.

Eins og afar oft áður voru einhverjir brandarar - einn... kannski tveir, mögulega þrír... sem hægt var að hlægja að. Aulahrollurinn var of yfirþyrmandi megnið af tímanum til að Véfréttinni og skaupsgestir hennar (sem voru 6 talsins auk Sveimhugans og sofandi barna) gætu slakað á. En jæja, það er ekkert svo svakalega langt í næsta skaup.

Efnisorð: ,