þriðjudagur, janúar 22, 2008

Um helgina langaði Véfréttina að blogga um að hún hefði farið út að djamma eins og hver annar kærulaus unglingur. Reyndar var meðalaldurinn á djamminu á milli fertugs og fimmtugs, semsagt bara rétt handan við hornið fyrir Véfréttina. Það stafaði af því að tilefni þessa tiltekna djamms, hún Janis okkar Joplin, hefði orðið 65 ára þennan ágæta dag. Ja, eða daginn eftir. Skiptir ekki öllu. Aðdáendur sumsé farnir að reskjast líka. En fullt af frægu fólki söng. Jei!

Og jú, það var voða gaman á ,,djamminu" og Véfréttin varð ung á ný, þrátt fyrir áðurnefndar tölur. En djammið var í skugga leiðinlegri hluta og strax daginn eftir tóku leiðinlegu hlutirnir völdin og halda þeim enn. Pjæ.

Þið dyggustu munið eftir sveppnum. Hann var svartur og mjór, af ættkvíslinni Cladosporium og hafði hreiðrað um sig neðst við kant sturtubotnsins í síðustu heimkynnum Véfréttarinnar löngu áður en hún kom til sögunnar. Þegar upp um hann komst var hann búin að dreifa sínum eitruðu gróum (gróm?) út um allt hús og gera alla veika. Hreinsunarferlið tók marga mánuði.

Og aðeins meiri upprifjun: Véfréttin og Sveihuginn sæti skoðuðu 46 íbúðir í leit að fullkomlega sveppalausri íbúð. Já, þau vildu ekki taka neina sénsa. Því varð að lokum splunkunýtt húsnæði fyrir valinu - alveg flunku-splunku. Ekki að það hafi borgað sig fyrir budduna síléttu, en hey; hvað gerir ekki ábyrgt fólk í viðleitni sinni við að tryggja öryggi fjölskyldunnar?

Þegar þrír dagar voru eftir af nýju ári fór að leka. Lekinn kom úr miðju lofti anddyris hinnar nýju íbúðar - sem var einkar athyglivert þar eð íbúðin var á jarðhæð og 3 hæðir fyrir ofan og þar af önnur hæðin mannlaus. Hjónakornin drituðu meilum og símtölum í allar áttir, á verktaka, tryggingafélagið, fasteignasöluna og þar fram eftir götunum. Samt fengu þau að njóta vætunnar í tvær langar vikur, enda áramót og fólk upptekið af mikilvægari hlutum.

Þegar hlutaðeigendur tóku loks tappana úr eyrunum kom í ljós að vökvinn átti upptök sín í niðurfalli sturtu nágrannanna á fjórðu hæð (sem áður hefur verið getið um hér, þá í sambandi við fljúgandi sígarettur). Og skolpið hafði seytlað óáreitt í gegnum þrjár hæðir, nokkrir dropar höfðu tekið á sig krók og endað förina í fötu á anddyrisgólfinu á jarðhæðinni, en restin seytlað áfram ofan í geymslu fjórðu hæðar reykingaunnendanna sjálfra, í kjallaranum. Í tvær vikur, nota bene.

Nú gerir Véfréttin ekki ráð fyrir því að lesendur hennar séu sérfróðir um sveppi, enda tiltölulega stutt síðan hún varð meðvituð um tilvist þeirra sjálf. En kjarni málsins er fremur einfaldur; þar sem er raki (í íbúðarhúsnæði) - þar koma sveppir.

Önnur vel þekkt staðreynd í myglusveppafræðunum er að ung börn og gamalmenni eru veikust fyrir eitrunaráhrifum af gróm sveppanna, ásamt með þeim óheppnu hræðum sem áður hafa orðið fyrir eitrun (lesist fjölskylda Véfréttarinnar, mínus gamalmenni reyndar - og já, no smart jokes þið þarna).

Það hefði því e.t.v. ekki átt að koma á óvart að ungbarnið skyldi vera fyrst til að veikjast. En það var þó ekki fyrr en það fór að blæða úr nefinu á því, rétt eins og forðum daga fossaði úr nefjum hjónanna seinheppnu, að húsmóðirin sá sér þann kost vænstan að fara.

Til að gera langa sögu stutta - Véfréttin situr á hótelherbergi með sveppaveiki og hlustar á sveppaveiku dætur sínar hrjóta. Tryggingaverkamenn hafa staðið í stórræðum í íbúðinni og komið þar fyrir alls kyns ranimoski sem á að gera góða hluti. Tryggingarnar borga samt ekki hótelherbergi, heilsutjón, sálrænt rask eða annað sem fylgir öllu þessu stússi.

Bíðum og sjáum hvað verða vill.

Æ, hvað þeir mættu miklu frekar vera af þessari tegund.

Efnisorð: , ,

7 Comments:

Blogger Gudlaug Erla Magnusdottir said...

:S HVernig er líkamlega líðan fjölskyldunnar?

miðvikudagur, janúar 23, 2008 8:08:00 f.h.  
Blogger Véfrétt said...

Súr... láttu vita ef þú vilt nákvæmari lýsingar.

miðvikudagur, janúar 23, 2008 1:23:00 e.h.  
Blogger Véfrétt said...

Súr... láttu vita ef þú vilt nákvæmari lýsingar.

miðvikudagur, janúar 23, 2008 1:23:00 e.h.  
Blogger Unknown said...

fjárans fjári... átt alla mína samúð, þetta er bara ekki eðlileg óheppni hjá ykkur!
Knús+
Hildur

miðvikudagur, janúar 23, 2008 2:51:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

jahérna, en leiðinlegt! Ég á ekki til orð, vonandi verður e-ð hægt að gera við þessu í þetta sinn.

Ösp

miðvikudagur, janúar 23, 2008 5:04:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

leiðinlegt að þetta skyldu ekki vera sveppir sem hýsa strumpa, það hefði verið gaman fyrir unga sem gamla fjölskyldumeðlimi. voruð þið kannski ekki góð? ef maður er það þá sér maður kannski strumpunum bregða fyrir!
drífa þ.

fimmtudagur, janúar 24, 2008 6:59:00 e.h.  
Blogger Skoffínið said...

lol
það er skemmtilegt hvernig Drífa sér bjartar hliðar á svörtum málum.

en djöfull er þetta ömurlegt!!! Ég vona að þið fáið ykkar framgengt í þessu máli og að þið getið flutt heim sem fyrst!

kv,
Eva

föstudagur, janúar 25, 2008 11:31:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home