fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Frú Véfrétt er með eftir-brullaups-timburmenn. Ekki af því að véfréttin hafi verið ölvuð í eigin brúðkaupi (enda tókst hvergi nærri að klára veigarnar sem til var tjaldað - allir velkomnir í heimsókn að þjóra bjór!), heldur bara meira svona andlega. Eða kannski samlíkingalega.

Brullaupið var allt svo ægilega skemmtilegt og allir svo glaðir og góðir og næs og véfréttin fékk brosverki af öllu saman og taldi sig hamingjusömustu konu á jarðríki.

En núna eru svo til allir erlendu brúðkaupsgestirnir farnir (tvær ferðir á Leifsstöð í dag skiluðu samtals 3 hræðum áleiðis til sinna heimalanda) og gjafahrúgan á borðstofuborðinu er farin að safna ryki. Hvergi virðist vera pláss fyrir allar gersemarnar í greinilega-allt-of-plásslitlu íbúð hjónanna nýsamanpússuðu.

Gjafabréfin í IKEA ættu vissulega að geta stuðlað að lausn vanda af þessum toga og því fóru hjónin í IKEA í dag í góðri trú. Það er svo sérstakt með IKEA; öll höfum við annað hvort sjálf, eða þekkjum einhvern náið sem hefur lent í slæmri IKEA-upplifun. En af því að IKEA er ódýrt og hagkvæmt förum við samt alltaf þangað aftur, dálítið eins og heilalausir sauðir.

Í stuttu máli lentum við í einni af þessum slæmu IKEA-upplifunum í dag og langar ekkert voðalega að innleysa gjafabréfin okkar þar alveg á næstunni (ykkur sem splæstuð í þannig fyrir okkur kann ég samt eftir sem áður hinar bestu þakkir fyrir og vil fullvissa ykkur um að þau munu ekki daga uppi ónotuð ofan í skúffu - við eigum bara eftir að finna út úr þessu).

Allavega; það er allt á hvolfi hérna og ekki pláss fyrir neitt. Skólinn er byrjaður (fyrsti tíminn í gær) og króginn kominn aftur á leikskólann og svona. Sveimhuginn mætir aftur til vinnu á mánudag og eftir það verður ekki tími til að svo mikið sem stanga úr tönnum, sverfa neglur (hennar), plokka nasahár (hans) eða draga andann alla leið (bæði), hvað þá meira.

Það er þetta sem Frú véfrétt kallar eftir-brullaups-timburmenn.

P.S. Takk öll fyrir kveðjur, komur, gjafir og kort!

föstudagur, ágúst 25, 2006

Samtals eru nú afstaðnar þrjár mis-viðamiklar gæsanir, ein sérdeilis umfangsmikil og vel heppnuð (af afspurn) steggjun, lóðsun 9 útlendinga inn í landið, í Bláa Lónið, hvalaskoðun o.þ.h., kaup á fjölbreytilegum veigum og veitingum fyrir áður óþekktar fjárhæðir (fyrir véfréttinni allavega)... já og ýmislegt smálegt sem allan daginn tæki að tína til.

Skemmst er frá því að segja að allar líkur eru á að næsta færsla véfréttarinnar verði undir titlinum ,,frú".

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Ehemm... já, véfréttin er nú ekkert alltaf fyrst með fréttirnar. En fyrir ykkur sem eigið heima ofan í djúpri holu ofan í jörðinni og eruð fullkomlega laus við fjarskiptasamband við umheiminn ef frá er talið blogg véfréttarinnar, þá voru haldnir ansi huggulegir tónleikar í Ásbyrgi nú um helgina. Semsagt síðustu helgi, þá einu hér á landi er kennd er við ákveðna starfsstétt (og þá einkum annað kynið).

Þegar véfréttin heyrði fyrst að smala ætti útilegulýð landsins saman á þessum háhelga stað sem haldið hefur hjarta véfréttarinnar í gíslingu frá því hún kom þangað fyrst á barnsaldri (var sko í sveit hjá Lilju frænku steinsnar frá náttúruperlunni), fékk hún nett hland fyrir hjartað.

En óttist eigi. Allt gekk vel. Björgin hrundu ekki, enginn kveikti í skóginum og flestir héldu sig við merktar gönguleiðir.

Myndræn frásögn sýnir glögglega

a) að úlpa er óþörf í 23 gráðu mollu, þó sólin sé engin (þó var þreytandi að halda endalaust á henni, betra að hafa á öxlunum bara).
b) að nóg er af berjum á leiðinni inn í birgið til að lita tunguna bláa (ja, eða það sést kannski ekki á svona smárri mynd?).
Þessa tók véfréttin á fyrsta eða öðru lagi:


... og svo bætti Sveimhuginn um betur þegar himininn var farinn að taka á sig dulúðlegan blæ...

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Ókey, ég hef verið gæsuð.


Þrjár samhentar úr mínum margbrotnu og sundurlausu vinkvennakreðsum (það er annars ekki karlmannsverk að gæsa, er það nokkuð?) ákváðu að engin kona væri yfir það hafin að vera gæs í einn dag. Ekki einu sinni ég.

Nærri vika síðan, en samt freistandi að segja söguna með myndum, þó farið sé að slá í fréttina...Eins og sjá má tekur það á að gæsa (hér gefur á að líta afrakstur áreynslu 66% meðlima gæsunarteymisins)


Farið var með gæsina í Kramhúsið þar sem hún var svo átakanlega minnt á skort sinn á danshæfileikum en lærði að vera mean bitch með attitude í alvöru hipp-hopp danstíma!Svo fékk Véfréttin að slaka á í saunu sem leit einmitt einhvern veginn svona út...Nostalgía við skólann góða þar sem þetta allt byrjaði....


Gæsin var meðhöndluð með silkihönskum og boðið til kveldverðs á hinum ofurhannaða glæsiveitingastað Silfri. Hér í fordrykk (bláberja-mojito, einhver heyrt um það áður?)

To be continued...

Andaktugar að fylgjast með þjóninum með vínið... (borðskrautið er æt hönnun)Minna andaktugar meyjar hinum megin við borðið
Og svo var það Vínbarinn! Sjálf stjarna Aðeins hins besta; Gísli Marteinn var vitanlega á staðnum, en ég get ekki hugsað mér að láta mynd af honum fylgja með...Síðasta pósa kvöldsins. Takk fyrir mig!