fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Frú Véfrétt er með eftir-brullaups-timburmenn. Ekki af því að véfréttin hafi verið ölvuð í eigin brúðkaupi (enda tókst hvergi nærri að klára veigarnar sem til var tjaldað - allir velkomnir í heimsókn að þjóra bjór!), heldur bara meira svona andlega. Eða kannski samlíkingalega.

Brullaupið var allt svo ægilega skemmtilegt og allir svo glaðir og góðir og næs og véfréttin fékk brosverki af öllu saman og taldi sig hamingjusömustu konu á jarðríki.

En núna eru svo til allir erlendu brúðkaupsgestirnir farnir (tvær ferðir á Leifsstöð í dag skiluðu samtals 3 hræðum áleiðis til sinna heimalanda) og gjafahrúgan á borðstofuborðinu er farin að safna ryki. Hvergi virðist vera pláss fyrir allar gersemarnar í greinilega-allt-of-plásslitlu íbúð hjónanna nýsamanpússuðu.

Gjafabréfin í IKEA ættu vissulega að geta stuðlað að lausn vanda af þessum toga og því fóru hjónin í IKEA í dag í góðri trú. Það er svo sérstakt með IKEA; öll höfum við annað hvort sjálf, eða þekkjum einhvern náið sem hefur lent í slæmri IKEA-upplifun. En af því að IKEA er ódýrt og hagkvæmt förum við samt alltaf þangað aftur, dálítið eins og heilalausir sauðir.

Í stuttu máli lentum við í einni af þessum slæmu IKEA-upplifunum í dag og langar ekkert voðalega að innleysa gjafabréfin okkar þar alveg á næstunni (ykkur sem splæstuð í þannig fyrir okkur kann ég samt eftir sem áður hinar bestu þakkir fyrir og vil fullvissa ykkur um að þau munu ekki daga uppi ónotuð ofan í skúffu - við eigum bara eftir að finna út úr þessu).

Allavega; það er allt á hvolfi hérna og ekki pláss fyrir neitt. Skólinn er byrjaður (fyrsti tíminn í gær) og króginn kominn aftur á leikskólann og svona. Sveimhuginn mætir aftur til vinnu á mánudag og eftir það verður ekki tími til að svo mikið sem stanga úr tönnum, sverfa neglur (hennar), plokka nasahár (hans) eða draga andann alla leið (bæði), hvað þá meira.

Það er þetta sem Frú véfrétt kallar eftir-brullaups-timburmenn.

P.S. Takk öll fyrir kveðjur, komur, gjafir og kort!

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Tak for sist!
Er svo að skilja að þið hafið þá engan tíma til að taka á móti okkur öllum í drykkju? Þið verðið þá bara að geyma búsið og halda partý í jólafríinu!
Gangi ykkur vel í skóla og vinnutörninni!
Hildur

laugardagur, september 02, 2006 1:35:00 e.h.  
Blogger Véfrétt said...

Við erum ansi öflug í því að útbýta veigunum, allir sem hafa komið við undanfarna viku eru leystir út með kippu og stundum pepsí eða fleiru. Stefnir í að vera búið fyrir jólafrí!

mánudagur, september 04, 2006 11:00:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home