föstudagur, apríl 30, 2004

Hvað er málið með yfirsetukonurnar í prófum í HÍ? Hefur einhver pælt í þeim? Eru þetta konur sem eru bara í vinnu tvisvar á ári? Kannski sitja sumar þeirra yfir í haustprófum líka? Þá væntanlega þær sem hafa sýnt hvað mesta leiftrandi færni í yfirsetu. Rjóminn af yfirsetukvennaliðinu.
Allir vita að það er ljótt að hæðast að gömlu fólki, einkum og sér í lagi gömlum konum. Því tel ég rétt að taka það fram að ég tel að heimurinn sé fullur af góðum og klárum og framsæknum gömlum konum. En ég áskil mér einnig rétt til að velta fram ýmsum þönkum um prófayfirsetukonurnar í HÍ. Eitt af því sem ég hef íhugað er hvort það er skilyrði fyrir ráðningu að vera heyrnarskert? Annað er hvort ekki þykir taka því að veita þeim ofurlitla tilsögn í yfirsetu? Mér hefur alltaf virst sem minnstu óvenjulegheit setji þær algerlega út af laginu og valdi þeim ákafri sálarangist. Nemandi á vitlausum stað er til dæmis efni í fyrirtaks taugaáfall. Stundum hef ég séð nemendur gera sig seka um svindlhegðun, eða mjög svindllega hegðun, beint fyrir framan nefin á þeim. Það hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að þær viti ekki alveg til hvers þær séu þarna. Svolítið eins og búðardyraverðir í Angóla. Í stórmörkuðum þar er leitað í veskjum viðskiptavina þegar þeir fara inn í búðina (sennilega verið að leita að vopnum, frekar en stolnum varningi!) og allar vörur í innkaupavögnum eru bornar saman við kassastrimilinn á útleið. Einu sinni, sem oftar, þegar ég fór með fulla sekki af seðlum (þess þarf þegar kókdós kostar 350.000 og stærsti seðillin er 10.000) að versla í matinn vikuskammt fyrir 10 manns. Mér til mikillar gleði rakst ég á oggulitlar sírópsdósir, sem ég var samt ekki viss um að væru sírópsdósir. Ákvað að kaupa eina til að sjá, og svo nokkra lítra af G-mjólk, nokkra poka af eplum, nokkur bretti af geymslu- og hitaþolnum jógúrtdósum og svo framvegis. Þegar að kassanum var komið sá ég mér til hrellingar að sírópið hafði smyglast fram hjá kassadömunni í skjóli stærri matvara sem keyptar voru í meira magni og útlit var fyrir að hún hefði ekki slegið það inn í kassann. Af ótta við að þurfa að byrja að telja peninga upp á nýtt (sem er ekki auðvelt þegar upphæðin hleypur á milljónum) beit ég í tunguna á mér og sagði ekkert. Kíkti svo á strimilinn á leiðinni út og sá að sírópið kom hvergi fram. Ansans. Þegar ég kom að dyrunum velti dyravörðurinn öllu dótinu í kerrunni fram og til baka, oft, til að fullvissa sig um að ég hefði til dæmis örugglega keypt 6 poka af hveiti en ekki bara þá 5 sem sáust osfr. Litla sírópsdósin rúllaði fram og til baka, út og suður og þvældist fyrir honum. Hann tók hana og skorðaði hana af úti í horni. Eftir mikla mæðu var hann búinn að fullvissa sig, strangur á svip, um að allt á kassatrimlinum væri óyggjandi í körfunni. Ekkert hafði horfið á leiðinni frá kassanum að útidyrunum! Að eitthvað fleira væri í körfunni, olli honum engu hugarangri.
Svona held ég að prófayfirsetukonurnar í HÍ séu líka.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Kind í 20 jakkafötum? Thíhíhí...

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Samsæriskenningar gefa lífinu lit. Ég er með eina slíka: Er það tilviljun ein að þegar þjóðin gapir samtaka í forundran yfir hroka og ófyrirleitni sjálfskipaðs varnarmálaráðherra sem brýtur lög og rífur kjaft þegar í hann er hnýtt þá kemur forsætisráðherra með splunkunýtt sjokkfrumvarp? Frumvarp sem breytir kannski engu sérstöku fyrir lýðinn, en sem pottþétt nær athygli fjölmiðlanna (og einkum þeirra) þannig að skyndilega falla afglöp fyrrnefnds ráðherra alveg í skuggann? Ég vil meina að tímasetning skipti miklu hér. En kannski er ég að missa af einhverjum málsatriðum?

mánudagur, apríl 26, 2004

Ó lýsir eftir féti, bermi og tukt.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Jæja... tónleikar á morgun. Engir miðar lausir. Fullt af fólki á biðlista hjá 12 tónum en enginn hefur skilað miða. Svindl og svínarí að þetta skildi vera svona lítið og illa auglýst. Veit um stelpu sem vinnur á Broadway og fær frítt inn. Oj barasta! Nema hvað. Vil hvetja alla sem vettlingi geta valdið að skrifa meil á cottoncadaversehf@hotmail.com og hvetja Friðrik og Erik (sem flytja bandið inn) til þess að redda aukatónleikum! Fullseint í rassinn gripið kannski, en ef ekki núna, þá bara seinna! Andvarp.

föstudagur, apríl 16, 2004

Nú eru sex dagar í að ég missi af því að sjá átrúnaðargoðin mín til margra ára á sviði (aftur). Þegar ég segi margra ára, þá meina ég hlutfallslega margra, ef tekið er mið af ævilengd. Mér telst til að nú sé um það bil hálf ævi mín frá því að ég rakst á slána í lopapeysu og með alpahúfu um Verslunarmannahelgi í Þórsmörk sem fjasaði um undur hinna ofbeldisfullu kvenna (VF). Hann lofaði að láta mér í té spólu þegar Verslunarmannahelgi væri lokið. Ólíkt öðrum Verslunarmannahelgaloforðum var staðið við þetta og ég hlustaði heilluð á Violent Femmes í litla höggþétta fermingarvasadiskóinu mínu á hverjum degi er ég gekk berfætt með póstvagn um götur bæjarins.
Í þá daga var ég önnur en ég er nú (svo að ég vitni í leikverk eftir Sjón) og enskukunnátta mín var ofurlítið takmarkaðari þá. Ég verð að viðurkenna að ég skildi alls ekkert alla textana, þó að ég gæti að mestu haldið þræði. Í cult-slagaranum Blister in the sun syngur hann Gano til dæmis ,,I'm high as a kite"... og ég vissi ekki hvað kite var. En af því að hann segir eiginlega kæ-æt, þá taldi ég ekki ólíklegt að hann væri að segja coyote, ss. sléttuúlfur. Reyndar hvarf e-ið í enda coyote, en það gat verið framburðaratriði. Og þó að ég vissi ekki hvers vegna sléttuúlfar ættu að vera hátt uppi, þá hélt ég kannski að svona rebel-hljómsveit væri trúandi til að syngja um sléttuúlfa sem væru háðir fíkniefnum. Ég hélt semsagt að sléttuhundurinn væri ,,high" á dópi. Og það fannst mér alveg meika sens. Og söng hástöfum með.
En þó að skilningi mínum á sumum erlendum tungumálum hafi fleygt fram á þeirri hálfu ævi sem liðin er síðan þá er ég ekkert að halda því fram að ég skilji í dag alla textana þeirra. En það er nefnilega eitt af því sem gerir þá svo góða til að skúra við, maður er alltaf að fatta eitthvað nýtt!

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Plús til Fréttablaðsins fyrir að vera með norskar teiknimyndasögur - ekki af því að þær eru norskar (né eitthvað sérstakar) heldur af því að þær eru ekki bandarískar.
Og Skjár 1 byrjaði ekki klukkan hálfsex í dag.
:(

laugardagur, apríl 10, 2004

Vá, meira en vika á milli blogga. Ég gæti aldrei unnið Íslandsmeistarakeppnina í bloggi. En langaði bara að blogga smá sólargeislablogg núna:
Hrós til Skjás Eins fyrir
a) að vera ennþá ókeypis
b) fyrir að vera með kvikmyndir
c) fyrir að vera með fullt af alveg eins grínþáttum sem maður getur fylgst með alveg án þess að hugsa
d) fyrir að vera með nátthrafna um jólin
e) fyrir að byrja stundum klukkan hálfsex á daginn
f) fyrir að vera vinur litla (kven/)mannsins
g) fyrir Survivor

föstudagur, apríl 02, 2004

Öll fjölmiðlagöbbin sem ég sá í gær voru frekar klén. Í fyrsta lagi gengu þau öll út á að plata athyglissjúkt fólk og í öðru lagi voru þau öll frekar gagnsæ. Mér finnst ekkert gaman nema þegar ég læt í alvörunni gabbast, eða er allavega í vafa!
Hins vegar finnst mér ekkert gaman að falla fyrir persónulegum göbbum.
Vona að fréttir um að uppselt sé á Violent Femmes séu einhvers konar gabb, eða allavega á misskilningi byggðar. :(

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Varúð! Gabbdagur í dag! Ég var næstum því rokin upp í Stöð 2 að fá mér gerfibrjóst, en þá varð mér litið á dagatal.