föstudagur, apríl 30, 2004

Hvað er málið með yfirsetukonurnar í prófum í HÍ? Hefur einhver pælt í þeim? Eru þetta konur sem eru bara í vinnu tvisvar á ári? Kannski sitja sumar þeirra yfir í haustprófum líka? Þá væntanlega þær sem hafa sýnt hvað mesta leiftrandi færni í yfirsetu. Rjóminn af yfirsetukvennaliðinu.
Allir vita að það er ljótt að hæðast að gömlu fólki, einkum og sér í lagi gömlum konum. Því tel ég rétt að taka það fram að ég tel að heimurinn sé fullur af góðum og klárum og framsæknum gömlum konum. En ég áskil mér einnig rétt til að velta fram ýmsum þönkum um prófayfirsetukonurnar í HÍ. Eitt af því sem ég hef íhugað er hvort það er skilyrði fyrir ráðningu að vera heyrnarskert? Annað er hvort ekki þykir taka því að veita þeim ofurlitla tilsögn í yfirsetu? Mér hefur alltaf virst sem minnstu óvenjulegheit setji þær algerlega út af laginu og valdi þeim ákafri sálarangist. Nemandi á vitlausum stað er til dæmis efni í fyrirtaks taugaáfall. Stundum hef ég séð nemendur gera sig seka um svindlhegðun, eða mjög svindllega hegðun, beint fyrir framan nefin á þeim. Það hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að þær viti ekki alveg til hvers þær séu þarna. Svolítið eins og búðardyraverðir í Angóla. Í stórmörkuðum þar er leitað í veskjum viðskiptavina þegar þeir fara inn í búðina (sennilega verið að leita að vopnum, frekar en stolnum varningi!) og allar vörur í innkaupavögnum eru bornar saman við kassastrimilinn á útleið. Einu sinni, sem oftar, þegar ég fór með fulla sekki af seðlum (þess þarf þegar kókdós kostar 350.000 og stærsti seðillin er 10.000) að versla í matinn vikuskammt fyrir 10 manns. Mér til mikillar gleði rakst ég á oggulitlar sírópsdósir, sem ég var samt ekki viss um að væru sírópsdósir. Ákvað að kaupa eina til að sjá, og svo nokkra lítra af G-mjólk, nokkra poka af eplum, nokkur bretti af geymslu- og hitaþolnum jógúrtdósum og svo framvegis. Þegar að kassanum var komið sá ég mér til hrellingar að sírópið hafði smyglast fram hjá kassadömunni í skjóli stærri matvara sem keyptar voru í meira magni og útlit var fyrir að hún hefði ekki slegið það inn í kassann. Af ótta við að þurfa að byrja að telja peninga upp á nýtt (sem er ekki auðvelt þegar upphæðin hleypur á milljónum) beit ég í tunguna á mér og sagði ekkert. Kíkti svo á strimilinn á leiðinni út og sá að sírópið kom hvergi fram. Ansans. Þegar ég kom að dyrunum velti dyravörðurinn öllu dótinu í kerrunni fram og til baka, oft, til að fullvissa sig um að ég hefði til dæmis örugglega keypt 6 poka af hveiti en ekki bara þá 5 sem sáust osfr. Litla sírópsdósin rúllaði fram og til baka, út og suður og þvældist fyrir honum. Hann tók hana og skorðaði hana af úti í horni. Eftir mikla mæðu var hann búinn að fullvissa sig, strangur á svip, um að allt á kassatrimlinum væri óyggjandi í körfunni. Ekkert hafði horfið á leiðinni frá kassanum að útidyrunum! Að eitthvað fleira væri í körfunni, olli honum engu hugarangri.
Svona held ég að prófayfirsetukonurnar í HÍ séu líka.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home