föstudagur, apríl 16, 2004

Nú eru sex dagar í að ég missi af því að sjá átrúnaðargoðin mín til margra ára á sviði (aftur). Þegar ég segi margra ára, þá meina ég hlutfallslega margra, ef tekið er mið af ævilengd. Mér telst til að nú sé um það bil hálf ævi mín frá því að ég rakst á slána í lopapeysu og með alpahúfu um Verslunarmannahelgi í Þórsmörk sem fjasaði um undur hinna ofbeldisfullu kvenna (VF). Hann lofaði að láta mér í té spólu þegar Verslunarmannahelgi væri lokið. Ólíkt öðrum Verslunarmannahelgaloforðum var staðið við þetta og ég hlustaði heilluð á Violent Femmes í litla höggþétta fermingarvasadiskóinu mínu á hverjum degi er ég gekk berfætt með póstvagn um götur bæjarins.
Í þá daga var ég önnur en ég er nú (svo að ég vitni í leikverk eftir Sjón) og enskukunnátta mín var ofurlítið takmarkaðari þá. Ég verð að viðurkenna að ég skildi alls ekkert alla textana, þó að ég gæti að mestu haldið þræði. Í cult-slagaranum Blister in the sun syngur hann Gano til dæmis ,,I'm high as a kite"... og ég vissi ekki hvað kite var. En af því að hann segir eiginlega kæ-æt, þá taldi ég ekki ólíklegt að hann væri að segja coyote, ss. sléttuúlfur. Reyndar hvarf e-ið í enda coyote, en það gat verið framburðaratriði. Og þó að ég vissi ekki hvers vegna sléttuúlfar ættu að vera hátt uppi, þá hélt ég kannski að svona rebel-hljómsveit væri trúandi til að syngja um sléttuúlfa sem væru háðir fíkniefnum. Ég hélt semsagt að sléttuhundurinn væri ,,high" á dópi. Og það fannst mér alveg meika sens. Og söng hástöfum með.
En þó að skilningi mínum á sumum erlendum tungumálum hafi fleygt fram á þeirri hálfu ævi sem liðin er síðan þá er ég ekkert að halda því fram að ég skilji í dag alla textana þeirra. En það er nefnilega eitt af því sem gerir þá svo góða til að skúra við, maður er alltaf að fatta eitthvað nýtt!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home