fimmtudagur, maí 25, 2006





Véfréttin hatar barnaafmælisboð.

Það er ekki af því að Véfréttin

a)hati börn
b)hati foreldra
c)hati afmæli
d)hati boð
e)hati pakka

- þvert á móti. Véfréttin er mjög hrifin af öllu ofangreindu. Einkum og sér í lagi hefðunum að gefa og þiggja, enda hvoru tveggja einkar ánægjulegt.

Það sem að véfréttin hatar er hjörð af uppdubbuðum, hávaðasömum gríslingum í sykursjokki innan um úttaugaða, uppdressaða foreldrar að reyna að halda fronti sem bæði doldið sjík og trendí fólk á framabraut en um leið umhyggjusamir foreldrar við aðstæður sem í besta falli myndu leyfa eins atkvæðis orðaskipti ef vit ætti að vera í. Já og mömmur á rítalíni og barmi taugaáfalls reynandi að halda úti milljón kökutegundum og brauðtertum, blöðrum, skemmtiatriðum, hreinu húsi og vitrænum samræðum. Segi mömmur, því að pabbar virðast ekki undir sérstaklega miklum félagslegum þrýstingi varðandi framkvæmd afmælisboða sinna eigin barna. Sem betur fer fyrir þá.

Þessari andúð á barnaafmælisboðum hefur Véfréttin haldið í 20 ár, eða frá því hún sjálf óx upp úr að vera í fyrstnefnda hópnum.

Þegar Véfréttin var barnlaus brostu barneigandi vinkonur hennar djúpviturlega í kampinn og þóttust nú aldeilis vita að þetta ungæðingslega viðhorf hennar myndi nú aldeilis breytast þegar hún sjálf bættist í þeirra hóp.

Nú eru liðin 2 og hálft ár síðan, en hvað hefur gerst?

Ekkert, nema fóbían hefur ágerst til muna vegna ákveðinna breytinga sem eiga sér stað þegar barn fæðist. Þegar það gerist opnast nefnilega skotveiðileyfi á foreldrana. Það gildir einu þó að hinir nýbökuðu foreldrar eigi ekki nema nokkurra vikna kríli - skyndilega eru þeir skyldaðir til að mæta í afmæli allra afkvæma vina og vandamanna undir 10 ára aldri - stundum eldri. Þannig hefur fóbían nærst og dafnað.

Ef einhver skyldi velkjast í vafa, þá get ég upplýst að dóttir Véfréttarinnar fór ekki fram á afmælisveislu á eins árs afmæli sínu og helst ekki tveggja ára. Þegar þar kemur að munu þau mál tekin fyrir á yfirvegaðan hátt og fundin lausn sem ekki leggur neinn á geðsjúkrahús í kjölfarið.

Þið sem enn eruð barnlaus en teljið möguleika á að það breytist áður en þið farið opinberlega úr barneign getið tekið þessa færslu sem góðlátlega viðvörun.

Þið hin - ég samhryggist. En munið bara - ef þið viljið koma út úr skápnum og játa kvíða ykkar og almenna andúð á þessu stórlega ofmetna félagslega fyrirbæri þá er ég fús til að ræða málin, bjóða öxl til að gráta á og stofna fjöldahreyfingu ef áhugi er fyrir hendi.

Knús,

Véfréttin sem fer í eitt í dag (og vonar að foreldrarnir lesi ekki blogg - eða taki því a.m.k. ekki persónulega ef þeir gera það).

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju með nýtt lúkk, gamla teljarann og nýtt kommentakerfi!

fimmtudagur, maí 25, 2006 1:30:00 e.h.  
Blogger Skotta said...

Jess!

Algjörlega sammála þessu. Þverneita að halda afmælisveislu fyrir barn sem ekki fær neitt út úr henni nema kannski hræðslukast. Hvað þá að halda afmælisveislu bæði heima í Danmörku, svo heima á Íslandi, og í vuggestuen. Blessað barnið man ekkert eftir þessu fyrstu tvö árin, allavega.

Ég er á því að amman hér í DK fái að búa til lagkage með einu kerti sem foreldrarnir geta étið í ró og næði. Sama amma getur líka hent í hann pakka ef því ber við. Ekki að hann fatti muninn, barnið er 6 vikna og hefur þegar mætt þvílíku magni gjafapappír úr ömmuáttinni að fólk er hætt að draga andann í heilli heimsálfu.

Ánægð með lúkkið og alsæl að lesa þig!

fimmtudagur, júní 01, 2006 12:58:00 e.h.  
Blogger Skoffínið said...

heyr heyr... :)
úff er þetta í alvöru svona. Er maður skylduboðinn í öll afmæli ef maður er foreldri??? úfff maður ....þvílík álög

Þetta er rétt að hafa bara eitthvað pínulítið þegar börn eru svona lítil. Þau muna ekki neitt eftir þessu seinna meir.

Þú færð allavega stuðning frá mér og btw stórglæsilegt nýja lúkkið hjá þér. Þetta er alveg sjúklega trendí, hipp end kúl:)

þriðjudagur, júní 06, 2006 7:17:00 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home