mánudagur, ágúst 01, 2005

Ég er unglingur á ný. Ég fór nefnilega út úr bænum um sjálfa verslunarmannahelgina. Hversu langt er eiginlega síðan síðast? En ókey, ég var ekki í 66°N galla, kúldraðist ekki í útældu kúlutjaldi og drakk ekki deigan dropa. Þannig að kannski er ég ekki alger unglingur enn, hugsanlega tekur yngingin lengri tíma. Sjáum til með næsta ár.
Fór með familíunni upp í Borgarfjörð. Kíktum á Hreðavatn. Tókum sightseeing um Bifröst, hvar ég mun hafa komið undir (var ég búin að nefna það?). Gistum svo í vöggu íslenskrar menningar á Fosshóteli Reykholti... voða fínt. Auglýsa? ÉG?
Deildartunguhver kíktum við síðast á í júní, hann hefur ekki breyst mikið síðan þá. Hann er ósköp taminn og manngerður og sorglegur eitthvað. En túristunum virðist finnast hann fínn. Sjálfri finnst mér tómatasjálfsalinn sem þar stendur flottari.
Hraunfossa hef ég aldrei séð áður, né heldur Barnafossa. En þar voru rauðúlpuklæddir túristar að spígspora um allar klappir sem skemmdu alla möguleika á myndatöku og drógu verulega úr ánægju náttúruupplifunarinnar. Fjórir þeirra stilltu sér upp með þrífót á algerum lykilstað og héngu bara þar, væmnir á svipinn. Það gerði það að verkum að nokkurn veginn enginn gat notið náttúruundursins í þá heilu eylífð sem þeir einokuðu það... nema þeir sjálfir náttúrlega. Skítapakk.
Já, svo var það Húsafell. Er ekki viss um að ég myndi finna mig í að eyða verslunarmannahelginni þar. Ekki fyrr en kannski eftir svona þrjú börn í viðbót.
Gefið mér nokkur ár.
Í Borgarnesi var víst eitt sinn bakarí er kennt var við Geira. Þar fengust löngum snúðar með alvöru súkkulaði, löngu áður en öðrum bökurum hugkvæmdist að baka svoleiðis. Fyrir nokkrum árum hætti Geiri að vera með bakarí upp á eigin spýtur en einbeitti sér að því að selja í búðirnar á svæðinu. Ég náði síðasta súkkulaðisnúðnum í Samkaupum í gær. Hann var ekki í hillunni sinni, heldur lá hann í reiðileysi í annarri hillu, í poka með gati á. Ég ýtti burt ásæknum hugsunum um hvað á daga hans hefði hugsanlega getað drifið áður en ég fann hann og hámaði hann í mig. Hann var dáldið þurr og mér varð reyndar svolítið bumbult á eftir. En ég neita staðfastlega að hugsa um ástæður þess að hann var skilinn eftir í götóttum poka í fjarlægri hillu.
Heima er annars best.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home