þriðjudagur, maí 31, 2005

Vissir þú að...

... enginn kennari við lögregluskólann er með háskólapróf? Engar upplýsingar liggja á lausu um hvort einhver þeirra sé með framhaldsskólapróf heldur.
... að lögregluskólinn á Íslandi tekur aðeins 1 ár á meðan sambærilegir skólar á Norðurlöndunum taka 2,5 - 4 ár.
... að menntunarkröfur inn í lögregluskólann eru ,,tveggja ára almennt framhaldsnám eða annað sambærilegt nám með fullnægjandi árangri eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms"...
... að sjálfsagt þykir að tala um ,,grjón" þegar vísað er til fólks af asískum uppruna í talstöðvakerfi lögreglunnar?

Finnst þér þú ekki örugg (/-ur)?

Heimildir (m. a.):
http://www.logregla.is/embaettin.asp?cat_id=75
http://www.phs.no/templates/Page.aspx?id=141
http://www.ug.dk/Uddannelse.aspx?article_id=udb-politibetjent
http://www.polisen.se/inter/nodeid=4422&pageversion=1.html

miðvikudagur, maí 25, 2005

Í fréttum í gær var verið að fjalla um mikið tækniundur - garðsláttuvél sem slær garðinn sjálf. Lopast semsagt um upp á eigin spýtur, slær fullt af grasi og safnar því saman í leiðinni. Ef fólk fer í sumarfrí má prógrammera fyrirbærið þannig að það slái samt sjálft, í fjarveru húsbænda sinna. Vera má að ég sé viðkvæm týpa, en ég verð bara að lýsa því yfir að tilhugsunin ein um þennan grip veldur mér hrolli langt niður eftir rófubeini, eiginlega bara niður í hæla og upp aftur og út um allt - þvílíkur horror. Fyrir utan hvað þetta er augljóst efni í hryllingsmynd (litla græna sláttuvélin sem eltir þig uppi - hvar sem þú ert...!) þá langar mig aðeins að varpa fram þeirri spurningu hvort engum hafi dottið í hug að krakkar að leik gætu orðið á vegi fyrirbærisins? Nú eða gæludýr?
Maður skilur ekki eftir búrhníf úti á bletti, hann gæti valdið slysi. En hvað þá með mörg hárbeitt blöð á fullum snúningi?
Ég vona að einhverjir fleiri en ég eigi eftir koma auga á mögulega vankanta nýjasta vinar lata úthverfaplebbans.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Ég var að leita að nafninu mínu á leit.is - mér var sagt að þannig gæti maður sannreynt mikilvægi sinnar eigin persónu.
Nema hvað, það kom upp fullt af linkum, en þegar betur var að gáð voru það allt þeir sömu endurteknir aftur og aftur. Þannig að í heild var um að ræða 4 linka sem tengjast mínu merka nafni. Einn af þeim innihélt skrif fyrir mannfræðiblaðið Homo frá árinu 2000 sem ég var að mestu búin að gleyma. Ég varð svo glöð að ég ákvað að setja linkinn hér inn, af því a mér fannst þau bera keim af því hvað það var einu sinni gaman að skrifa.

http://www.hi.is/nem/homo/Gamalt/Gamalt-blad/blad5.html#3

mánudagur, maí 23, 2005

Eins og áður hefur komið fram valda einkanúmer mér nokkrum heilabrotum. Um helgina keyrði ég á eftir jeppa með svona háa númeraplötu, semsagt ekki svona venjulega ílanga. Jeppaeigandinn hafði, eins og fleiri í hans sporum, fengið sér einkanúmer. Það var svona:

NO
KIA

Mig minnir sterklega að jeppinn hafi verið Mitsubishi, semsagt ekki Kia. Því langar mig að vita hvort meiningin var áróður gegn Kia bifreiðum, eða auglýsing fyrir símategund (eða stígvélategund). Þó að ég hafi ekkert á móti Kia vona ég að hið fyrra hafi vakað fyrir jeppaeigandanum - hið síðara væri bara of hallærislegt, jafnvel þó að hann væri einkainnflutningsaðili Nokia á Íslandi.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Ókey, vera má að skopskyn mitt sé á köflum í einfaldari kantinum, en ég get ekki stillt mig um að spyrja:

Finnst engum það fyndið nema mér að einhverjir helstu keppinautarnir um kaup Símans séu Almenningur og Lýður...?!?

Pfffghrrrhntsjhíhíhíhíhí...

föstudagur, maí 13, 2005

Nokkrir punktar:

Hefur einhver reynt að finna húsnúmer á milli Laugavegs 166 og 178? Kannski í rigningu og sagga, snemma morguns?

Tillaga: Allir húseigendur skulu skyldaðir til að merkja húsin sín skýrt og skilmerkilega með stórum og góðum númerum. Allavega eigendur iðnaðarhúsnæðis hvers konar.

Í fyrradag áttu Kópavogur og dóttir mín afmæli. Annað afmælisbarnið varð fimmtugt, hitt átján mánaða. Þarf ég að taka fram hvort afmælið mér þótti merkilegra?

Ályktun: Eigendur jeppabifreiða fá sér jeppa til að fela það hversu slæmir ökumenn þeir eru. Þetta er ekki sleggjudómur, heldur niðurstaða langra rannsókna minna, sem hafa í gegnum tíðina leitt til beygla og brothljóða á hinum ýmsu farartækjum sem ég hef átt, keyrt eða verið farþegi í. Aldrei minnist ég þess (enn sem komið er) að hafa lent í nokkrum vandræðum með ökumenn fólksbifreiða í umferðinni. Ávinningurinn fyrir jeppafólkið í því að vera á svona stórum bíl er að þar með er það ekki sjálft í jafn mikilli lífshættu og ella, en allir aðrir ættu að halda sig fjarri.

P.S. Blogglesandinn Káradís er vinsamlegast beðinn um að láta ummæli um jeppafólk ekki hafa langvarandi áhrif á samskipti við bloggskrifandann Véfrétt (- sennilega eru til undantekningar frá öllu)...