föstudagur, október 19, 2007

Ungfrú Guyana 2003 kom að máli við Véfréttina í dag. Henni er vandi á höndum. Eftir að hún landaði krúnunni þarna um árið hélt hún að fegurð hennar yrði aldrei framar véfengd. En henni til hrellingar er búið að búa til lúalega fegurðadrottningasamkeppni á vefsíðu nokkurri í heimalandi hennar, þar sem lesendum gefst kostur á að kjósa þá fegurstu af fegurðardrottningum undanfarinna ára.

Eins og gefur að skilja vill ungfrú Guyana 2003 ekki láta valta svona yfir sig. Hún bað því Véfréttina, og fleiri góðar konur, að greiða henni atkvæði.

Véfréttin skilur alvöru málsins og biður hér með lesendur sína að greiða hinni núverandi Reykjavíkurmær atkvæði sitt síðunni: http://www.gemmagonline.com/

Efnisorð: , ,

Goðið

miðvikudagur, október 10, 2007

Getraun

Eitt sinn var Véfréttin (hin hógværa) ung og óspjölluð. Í upphafi unglingsáranna átti hún sér draumaprins einn stórkostlegan. Sá vann á nýstofnaðri og frakkri útvarpsstöð sem Véfréttina minnir eindregið að hafi heitið FM (með fyrirvara um kölkun). Hann átti frægan bróður og var sjálfur kannski pínu frægur, eða líklegur til frægðar, allavega. Hann var undurfagur ásýndum, með ómótstæðilega late-80's-liði í gelstroknu hárinu. Véfréttarunglingurinn hélt ekki vatni.

Langa sumardaga þegar Véfréttin unga undi sér við barnagæslu í blokkaríbúð í Kópavogi hlýddi hún með dreymandi bros á vör á útvarpsmanninn unga lýsa Adamsson-teiknimyndasögunni í DV hvern dag og mæla ýmis viskukorn af vörum.

Að minnsta kosti tvisvar var Véfréttin svo lánssöm að hitta goðið augliti til auglits. Annað skiptið átti sér stað á strætóskiptistöðinni við Grensás. Það hlaut að vera góðs á viti að útvarpsstjarnan gerðist svo alþýðleg að nota almenningssamgöngur eins og sauðsvartur almúginn - og hin unga Véfrétt.

Unglingsvéfréttinni til nokkurrar armæðu var stjarnan þó ekki einsömul við þetta tækifæri, heldur með ástkonu sína sér við hlið. Til að bæta gráu ofan á svart virtust þau einkar ástfangin, stungu saman nefjum, pískruðu og skríktu yfir einhverjum einkahúmor sem Véfréttinni var framandi. Véfréttin unga afréð þó að líta á samband þeirra sem tímabundið, létt fling áður en goðið myndi láta dáleiðast af töfrum hins unga en ört blómstrandi aðdáanda síns.

Í annað skipti var Véfréttin stödd í Háskólabíói og hafði misreiknað fjölda tíkalla ofan í kóksjálfssala. Einn tíkall vantaði upp á og sjálfssalinn fékkst ekki til að skila aftur þeim sem hann hafði þegar gleypt. Þá birtist hann, hetjan, sem í rósrauðum bjarma og sagði ,,Vantar þig tíkall?" og ljáði hinni ungu mey í nauðum einn af sínum eigin, gljáfægðu...

Eins og nærri má geta snerti Véfréttarunglingurinn ekki yfirborð jarðar í marga daga á eftir.

Nú, svo liðu einhver ár og Véfréttin eyddi mörgum þeirra á erlendri grundu. Dag einn, skömmu eftir að Véfréttin hafði flutt heim, sá hún hetjuna í skammlífum sjónvarpsþætti á Skjá 1, sem snerist um fyrigefningarbeiðnir. Þar var hinn frægi bróðir mættur til að biðja fyrrum prins drauma Véfréttarinnar fyrirgefningar á einhverju smáræði. Unglingsárin rifjuðust upp fyrir Véfréttinni í einu vetfangi. Hetjan fyrrverandi virkaði þó eitthvað fýluleg í þessum þætti, sjarminn einhvern veginn máður af.

Smám saman fór þó Véfréttin að taka meira og meira eftir goðinu fölnaða í fjölmiðlaumræðu. Henni til nokkurar undrunar kom í ljós að maðurinn sem hún hafði ætlað að ala börn sín með reyndist hægrisinnaður með eindæmum og skammaðist sín ekkert fyrir að vinna við að greiða götu kapítalismans hér á landi.

Nú síðast var umræddur maður í sviðsljósinu fyrir einkar kapítalíska framgöngu sína hjá ákveðnu þekktu og stóru fyrirtæki, þar sem hann vakti hvað helst athygli fyrir að hafa rekið rótgróinn starfsmann sem hafði gert athugasemdir við ráðningu hans sem yfirmanns.

Nú spyr Véfréttin lesendur sína; hver er maðurinn?

(Káradís má ekki svara, þar sem hún var viðstödd báðar hinar stóru stundir unglingsáranna og er sennilega sú eina sem veit þetta allt...).

föstudagur, október 05, 2007

Véfréttinni liggur aðallega tvennt á hjarta í dag; stubbar og kettir.

Véfréttin er ekki mjög andsnúin reykingafólki, þó að hún þoli reyk ekkert voðalega vel. Frá því á unglingsárunum (þegar allir þurftu að taka afstöðu) hefur Véfréttin þó ekkert haft svo brennandi skoðanir á reykingum. Þar sem hún reykir ekki sjálf er hún voðalega fegin reykingabanninu á kaffihúsum og sjálfsagt gæti hún sýnt vanda hins aðþrengda reykingafólks meiri skilning en hún gerir.

Þó getur það komið fyrir besta fólk - og bestu véfréttir - að missa andlitið (hvað eftir annað) af réttlátri hneykslun.

Þegar Sveimhuginn reykti, semsagt þar til í febrúar nú í ár, notaði hann til þess svalirnar og potaði svo stubbunum samviskusamlega ofan í tóma krukku undan skyndikaffi og lokaði á eftir þeim. Þegar krukkan var orðin full var henni hent og ný tekin í notkun. Flókið?

Greinilega of flókið fyrir nágranna Véfréttarinnar og Sveimhugans. Í tvo og hálfan mánuð hafa þau frjálslega hent sígarettustubbunum sínum fram af svölunum og á pall Sveimhugans og Véfréttarinnar, í garðinn þeirra og í garðinn og beðin fyrir utan þeirra afmarkaða einkasvæði. Einn og einn jónufilter fengu að fljóta með í upphafi líka (þeim hefur fækkað).

Athugasemdir Sveimhugans við hinn sólarbekkja-appelsínugula heimilisföður, sem og líflegar umræður á húsfundi hafa engu skilað.

Véfréttinni leiðist á tína upp annarra manna / kvenna rusl. Véfréttinni leiðist að fá brunabletti á pallinn sinn (þeir eru orðnir tveir og á eftir að fjölga með þessu áframhaldi). Véfréttin hlakkar ekki til þegar yngri dóttir hennar fer að skríða um úti - og smakka á því sem fyrir ber. Brestir eru farnir að myndast í hina friðsamlegu umburðarlyndisstefnu Véfréttarinnar.


Að hinu:


Véfréttin fær engin málgögn í póstkassann þessa dagana nema auglýsingabæklinga, bæjarmálgagnið og stöku sinnum Blaðið. Blað dagsins í dag upplýsti um hneykslan sómakærra borgara á kattamatreiðsluleiðbeiningum.


Véfréttin fílar kisur. Véfréttin hefur aldrei gerst sek um að fá sér bita af ketti. Véfréttinni finnst kattamorð og -át hinn mesti ribbaldaskapur. En Véfréttin skilur samt ekki á hvaða hátt er ósiðlegra að matreiða ketti og hunda en kindur (t.d. krúttleg, lítil, krullótt lömb) og beljur? Svín og hænsn? Hreindýr og rjúpur?

miðvikudagur, október 03, 2007

Eflaust blogga allir alvarlegir Moggabloggarar um stefnuræðu og aðrar ræður í dag. Sem betur fer er Véfréttin ekki of upptekin af alvarleika.

Véfréttin horfði á hátt í tvo tíma af beinni útsendingu frá Alþingi í gær og fannst á köflum ansi fyndið (óháð því hvort það var tilgangurinn hverju sinni).

Véfréttin komst að þeirri niðurstöðu að það þurfi að finna nýja leið til að stjórna löndum. Þetta flokkakerfi er gallað. Einstaklingarnir ættu að fá að njóta sín meira. Þegar Véfréttin nær heimsyfirráðum mun hún finna leið til að endurbæta lýðræðið og afnema flokkakerfið.

Og talandi um lýðræði, einhver útlensk stúlkukind hefur gengið svo fram af sómakærum íslenskum yfirvöldum að henni hefur verið vísað úr landi fyrir að ógna grunngildum samfélagsins (skv. blaðinu).

Véfréttina langar í framhaldi að vita hver séu hin skilgreindu grunngildi samfélagsins sem konan ógnaði. Samkvæmt félags-, mann- og uppeldisfræðilegum bakgrunni Véfréttarinnar snúast grunngildin oftast um sifjareglur, fjölskylduform, ýmis siðferðileg viðmið og annað í þeim dúr. Hvað gerði þess Miriam? Hafði hún mök við náinn fjölskyldumeðlim? Reyndi hún að leysa upp hina íslensku kjarnafjölskyldu? Sveik hún, skrökvaði, prettaði eða stal?

Eru hagsmunir ónefndra erlendra fyrirtækja nokkuð farnir að afmarka íslensk grunngildi?
(mynd af www.siggun.blog.is)