miðvikudagur, október 10, 2007

Getraun

Eitt sinn var Véfréttin (hin hógværa) ung og óspjölluð. Í upphafi unglingsáranna átti hún sér draumaprins einn stórkostlegan. Sá vann á nýstofnaðri og frakkri útvarpsstöð sem Véfréttina minnir eindregið að hafi heitið FM (með fyrirvara um kölkun). Hann átti frægan bróður og var sjálfur kannski pínu frægur, eða líklegur til frægðar, allavega. Hann var undurfagur ásýndum, með ómótstæðilega late-80's-liði í gelstroknu hárinu. Véfréttarunglingurinn hélt ekki vatni.

Langa sumardaga þegar Véfréttin unga undi sér við barnagæslu í blokkaríbúð í Kópavogi hlýddi hún með dreymandi bros á vör á útvarpsmanninn unga lýsa Adamsson-teiknimyndasögunni í DV hvern dag og mæla ýmis viskukorn af vörum.

Að minnsta kosti tvisvar var Véfréttin svo lánssöm að hitta goðið augliti til auglits. Annað skiptið átti sér stað á strætóskiptistöðinni við Grensás. Það hlaut að vera góðs á viti að útvarpsstjarnan gerðist svo alþýðleg að nota almenningssamgöngur eins og sauðsvartur almúginn - og hin unga Véfrétt.

Unglingsvéfréttinni til nokkurrar armæðu var stjarnan þó ekki einsömul við þetta tækifæri, heldur með ástkonu sína sér við hlið. Til að bæta gráu ofan á svart virtust þau einkar ástfangin, stungu saman nefjum, pískruðu og skríktu yfir einhverjum einkahúmor sem Véfréttinni var framandi. Véfréttin unga afréð þó að líta á samband þeirra sem tímabundið, létt fling áður en goðið myndi láta dáleiðast af töfrum hins unga en ört blómstrandi aðdáanda síns.

Í annað skipti var Véfréttin stödd í Háskólabíói og hafði misreiknað fjölda tíkalla ofan í kóksjálfssala. Einn tíkall vantaði upp á og sjálfssalinn fékkst ekki til að skila aftur þeim sem hann hafði þegar gleypt. Þá birtist hann, hetjan, sem í rósrauðum bjarma og sagði ,,Vantar þig tíkall?" og ljáði hinni ungu mey í nauðum einn af sínum eigin, gljáfægðu...

Eins og nærri má geta snerti Véfréttarunglingurinn ekki yfirborð jarðar í marga daga á eftir.

Nú, svo liðu einhver ár og Véfréttin eyddi mörgum þeirra á erlendri grundu. Dag einn, skömmu eftir að Véfréttin hafði flutt heim, sá hún hetjuna í skammlífum sjónvarpsþætti á Skjá 1, sem snerist um fyrigefningarbeiðnir. Þar var hinn frægi bróðir mættur til að biðja fyrrum prins drauma Véfréttarinnar fyrirgefningar á einhverju smáræði. Unglingsárin rifjuðust upp fyrir Véfréttinni í einu vetfangi. Hetjan fyrrverandi virkaði þó eitthvað fýluleg í þessum þætti, sjarminn einhvern veginn máður af.

Smám saman fór þó Véfréttin að taka meira og meira eftir goðinu fölnaða í fjölmiðlaumræðu. Henni til nokkurar undrunar kom í ljós að maðurinn sem hún hafði ætlað að ala börn sín með reyndist hægrisinnaður með eindæmum og skammaðist sín ekkert fyrir að vinna við að greiða götu kapítalismans hér á landi.

Nú síðast var umræddur maður í sviðsljósinu fyrir einkar kapítalíska framgöngu sína hjá ákveðnu þekktu og stóru fyrirtæki, þar sem hann vakti hvað helst athygli fyrir að hafa rekið rótgróinn starfsmann sem hafði gert athugasemdir við ráðningu hans sem yfirmanns.

Nú spyr Véfréttin lesendur sína; hver er maðurinn?

(Káradís má ekki svara, þar sem hún var viðstödd báðar hinar stóru stundir unglingsáranna og er sennilega sú eina sem veit þetta allt...).

8 Comments:

Blogger Sveimhugi said...

þorgeir ástvaldsson

miðvikudagur, október 10, 2007 7:49:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Góð ágiskun...

miðvikudagur, október 10, 2007 10:27:00 e.h.  
Blogger St.Pie said...

Get ekki giskad, ekki nogu vel ad mjer i ... neinu, en get ekki bedid, seg fra!!

fimmtudagur, október 11, 2007 7:14:00 e.h.  
Blogger Drífa Þöll said...

í sveitinni á unglingsárum mínum var einungis hægt að hlusta á rúv 1 og 2. þar að auki er ég ekki mikill fréttahaukur svo að ég stend á gati en er einkar spennt að fá að vita hvur maðurinn er!

fimmtudagur, október 11, 2007 7:37:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

má ég má ég má ég má ég!!!!!!!

föstudagur, október 12, 2007 2:25:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

bróðir Felix Bergssonar???

Var hann ekki með þennan fyrirgefningar-þátt??

hmmm....

Kv. Ösp

föstudagur, október 12, 2007 7:00:00 e.h.  
Blogger Véfrétt said...

Já, góð lógík Ösp, en Felix Bergsson var bara í því að fá alls konar fólk til að biðja aðra fyrigefningar.

Allt í lagi Káradís, láttu vaða...

laugardagur, október 13, 2007 10:17:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Steingrímur hárprúði Ólafsson!
Sjarmi hans dofnaði ört þegar hann varð alltí einu aðstoðarmaður Davíðs Oddsonar eða e-h þaðan af verra!!
Hinn ekkijafnsjarmerandienfrægi bróðir hans er Jón Ólafsson!
Eru verðlaun?????

laugardagur, október 13, 2007 4:01:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home