laugardagur, maí 12, 2007

Margt liggur Véfréttinni á hjarta í dag.

Mestu skiptir þó mál dagsins, kosningar. Véfréttin kaus (þriðja best skv. xhvad.bifrost.is) og meira getur hún víst ekki gert.

Ef breytingar verða engar vill Véfréttin flytja úr landi. Það eina sem flækir slíkt plan er Sveimhuginn fordómafulli sem telur frændþjóðir okkar samanstanda af leiðindapésum.

Krossum putta.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Lesendum aðeins hins besta tilkynnist hér með að Véfréttin er EKKI móðursjúk. Hávísindalegar niðurstöður úr sveppasýni sem sent var alla leið til Bandaríkja Norður-Ameríku til greiningar leiða í ljós að ógnvaldurinn var RAUNVERULEGUR og var úr hinni illræmdu Cladosporium fjölskyldu.

Nánar um einkenni eitrana hér (athugið að öll hin almennu eitrunareinkenni sem talin eru upp fremst eiga líka við).

Véfréttin vonast til að geta flutt heim til sín um eða eftir helgi. VEI, VEI, VEI!!!


Og fyrir ykkur Júrónörda... Véfréttin hefur vissulega gaman að smáborgaraskap og mainstream-lifnaðarháttum, en áhugi hennar á Júróvisjón er fyrst og fremst mannfræðilegs eðlis. Véfréttin hefur ekki lagt sig sérstaklega eftir því að hlýða á framlög frændþjóða (eða annarra þjóða) í ár, en hefur þó heyrt eitt skemmtilegt lag; þetta þýska. Áfram Þýskaland!

miðvikudagur, maí 09, 2007

Véfréttin heldur áfram að kynda upp stemmningu fyrir kosningarnar sem nálgast óðfluga (er enginn að lesa þetta blogg, annars? Hvar eru kommentin?)

Hér er hægt að komast að því hvar hjarta manns / konu slær í raun og veru.

Hjarta Véfréttarinnar reyndist slá næstnæstmest í þeim flokki sem hún ætlar að kjósa... það upplýsist þó að þeir tveir sem lentu fyrir ofan eru heldur ekki í núverandi stjórn, þannig að þetta kemur út á eitt... er það ekki?

þriðjudagur, maí 08, 2007

Get ég annað en verið að springa úr stolti?

mánudagur, maí 07, 2007

Hey, í framhaldi af stjórnmálaumræðu gærdagsins fann Véfréttin hér skemmtilegt myndband.

Njótið!

sunnudagur, maí 06, 2007

Innra með Véfréttinni togast á löngunin til að blogga um kosningar annars vegar og Stubbana hins vegar. Alveg spurning hvort er mikilvægara.

Stubbarnir: Lenti í þeim ósköpum í dag að liggja berrössuð með nálar í þjóhnöppunum og hlusta á Stubbana (þeir sem ekki þekkja til fjölskylduhaga Véfréttarinnar furða sig e.t.v. á þessari aðstöðu?). Nema hvað; Stubbarnir voru eitthvað að eiga við hurðar. Og ítrekað heyrðist fullyrt: ,,Stubbarnir ganga í gegnum hurðina".

Því miður var Véfréttin ekki í þeirri aðstöðu að sjá hvaða myndskeið fylgdi með þessari fullyrðingu, kannski var þetta hryllingsmyndin Stubbarnir ganga aftur, sem vissulega hefði verið fróðlegt að sjá. En þetta var sumsé endurtekið... og endurtekið... og í hvert sinn var sem sparkað væri í berrassaða og varnarlausa málkennd Véfréttarinnar. Og engrar undankomu auðið.

Kosningar: Um kosningarnar hefur Véfréttin í raun ekki margt að segja. Hluti af hjarta Véfréttarinnar er þrunginn réttlætiskennd og pólitískum áhuga, hinn hlutinn hefur mikla andúð á öllu sem tengist stjórnmálum. En báðir hlutarnir eru einróma sammála um að það þurfi NÝJA RÍKISSTJÓRN. Og báðir hlutarnir óttast og skelfast þann stóra hóp fólks sem er ekki á sama máli. Hvernig er hægt að vilja ekki nýja ríkisstjórn?

(Já, ég veit að þessi býður sig ekki fram í ár, en ekki er það sem á eftir fylgdi vænlegra)