mánudagur, september 26, 2005

Véfréttin unga býður til kaffisamsætis - á morgun klukkan svona 18.30, að heimili sínu.
Véfréttin er að vinna til 17.00 og nennir engan veginn að elda. Telur sig í fullum rétti til að bjóða bara upp á einhverjar kökulufsur, popp, snakk eða annað sem henni dettur í hug að framreiða á þessum merkisdegi. Fer allt eftir fýsnum morgundagsins.
Allir blogglesendur eru hjartanlega velkomnir.

föstudagur, september 16, 2005

Jæja, búin að horfa á þessa vitleysu.

ISS!

Annars er ég að fara á einkar mikilvægan pólitískan viðburð á morgun og vegna sérstaks núverandi vaxtarlags lendi ég í þeim einkar óspennandi vandræðum að finna ekkert til að fara í!

Pirr.

miðvikudagur, september 14, 2005

Jæja, þá er stuttum en farsælum verkfræðiferli mínum lokið í bili. Er komin í 50% vinnu og mun því ekki hafa tíma fyrir alveg fullt MA-nám samhliða, plús náttúrlega mann og barn og annað á leiðinni og svona - nóg að gera. Þannig að valfagið fékk að fjúka fyrst.
Því miður, ég syrgi það mjög. Er staðráðin í að taka það á næsta ári!
Og af því að ég var að tala um LOST um daginn - lokaþátturinn var á mánudaginn og ég er ekki enn búin að hafa tíma til að horfa á hann. Hann var tekinn upp fyrir mig, en ég hef ekki tíma fyrir neitt!
Þannig að EKKI segja mér hvað gerist... ekki heldur þið sem eigið vanda til að missa svoleiðis út úr ykkur...

sunnudagur, september 11, 2005

Sunnudagsmorgun.
Ég er afar stolt af því að hjá kommentunum fyrir neðan síðasta blogg skuli, í þessum rituðum, standa talan 8. Jafnvel þó að þegar nánar sé að gáð komi í ljós að aðeins 3 einstaklingar standa að baki þessum 8 kommentum, þar af ég sjálf tvisvar.
Ég kann allavega mun betur við töluna 8 í þessu samhengi en töluna 0.
Annars...
Fór á bíó í gær. Sá Strákana okkar. Við vorum eiginlega búin að ákveða fyrir löngu að sjá þessa mynd, þennan dag, semsagt þegar við fengjum pössun. En svo sáum við á kvikmyndir.is, áður en við lögðum af stað, að hún fékk bara eina stjörnu. Þannig að við hættum næstum við.
Það kom hins vegar á daginn að hún var alls ekkert svo slæm. Hún var ekkert stórvirki heldur, en ég hefði alveg gefið henni tvær. Ef Friðrik Þór hefði staðið að baki hennar hefði hún fengið að minnsta kosti tvær og hálfa stjörnu í fjölmiðlum, sbr. floppið Fálka. Strákarnir okkar eru mörgum klössum ofar en Fálkar, en samt ekkert svo spes. Róbert Douglas er ágætur í að varpa skemmtilegu ljósi á hversdagslega atburði, en ekkert sterkur þegar kemur að söguþræðinum.
En ég er alveg sátt við að hafa eytt laugardagskvöldi í Strákana okkar.
Nú ætla ég að fara að læra (fyrir verkfræðifagið mitt, hvað annað?).

fimmtudagur, september 01, 2005

Ég fór í minn fyrsta tíma í verkfræðideild í dag. Í raun minn fyrsti tími í raunvísindageiranum - flokkast verkfræði annars ekki sem raunvísindi þó hún sé ekki í raunvísindadeild? Eða er hún kannski í raunvísindadeild?
Jæja. Þetta var allavega ansi scary.
30 manns í stofunni, samt meirihlutinn kvenkyns. Ég sem hélt að verkfræðideild væri full af gaurum. Enginn var með fartölvu. Ég þorði ekki að taka mína upp, það er nógu einangrandi að vera úr annarri deild, þó ég sé nú ekki að flíka líka tæknibúnaði sem er samnemendum mínum ókunnur.
Fagið virðist samt ekkert svo óyfirstíganlegt. Reyndar finnst mér það mjög spennandi, en samt er það eitthvað svo yfirþyrmandi að þetta sé kennt innan verkfræði. Öll þessi rökhugsun er mér framandi...
En það kemur nú fljótlega í ljós hvort að véfréttin flosnar upp úr þessu fagi með skottið á milli lappanna (af því að allar góðar véfréttir eru með skott) eða þjösnast í gegn af þrautseigju og eljusemi þeirri er einkennir félagsvísindafólk.