fimmtudagur, júní 30, 2005

Fann nýtt blogg í gær - drivethehrive. Hafði ekki tíma til að skoða það en er afar kát yfir því að viðkomandi persóna skuli blogga og mun drekka í mig hvert orð við síðara tækifæri. Jibbí!
Hvað er annars málið með að fá góða afgreiðslu? Það er eitthvað sem ég lendi ekki of oft í. Hef þó tekið eftir því að ef svo vill til að ég er íklædd dragt, með hárið sett upp í hnút og gjarnan með gleraugun á mér virðist sem afgreiðslufólk sé meira smér í höndum mér en ella. Ég hef þó enn ekki gengið svo langt að dulbúa mig í þennan galla til þess eins að fara að versla.
Í fyrradag fór ég í Húsasmiðjuna á Smáratorgi. Rambaði þar ráðvillt um uns ég fann einkennisklædda konu sem var fús til að svara öllum mínum spurningum og greiða úr öllum mínum vandamálum. Hún var sérdeilis alþýðleg í viðmóti og frjálsleg í fasi, bara með sítt hár í lauslegu tagli, lítt eða ómáluð og frekar afslöppuð. Þori að veðja að eftir vinnu fer hún beint í þægilegustu og eflaust um leið ódýrustu joggarana sem fást í Hagkaupi við hliðina. Hún brosti líka, svona tvisvar, en ekki svona sölugrettu eins og margir í sama bransa, heldur bara einlægu ánægjubrosi af því að henni tókst að fiska nytsamlegar upplýsingar, mér til handa, upp úr samstarfsmönnum sínum. Veit ekki hvað hún hét, því starfsfólk Húsasmiðjunnar gengur ekki með nafnspjald á sér. Í gær fór ég svo í Húsasmiðjuna í Grafarvogi, í svipuðum erindagjörðum, nema nú ætlaði ég að taka framkvæmdirnar einu skrefi lengra og láta verða af því að panta og/eða kaupa ákveðna hluti. Fór inn með sæla minningu gærdagsins í huga og staðráðin í því að vinda mér beint að starfsmanni og æskja aðstoðar, í stað þess að ramba stefnulaus um í hálftíma fyrst. En þá vildi svo óheppilega til að í þjónustubásnum í hreinlætistækjadeildinni var heill hópur af strákum, sennilega flestir á aldrinum 20 – 25 ára. Þeir voru niðursokknir í heitar strákaumræður sem ég veit reyndar ekki um hvað snérust þar eð ég lagði ekki við hlustir heldur frekar árar í bát og ákvað að snúa mér ekki til starfsmanns eftir aðstoð fyrsta kastið. Strunsaði fram hjá þeim og blótaði í hljóði (áður en ég svaraði) þegar einhverjum þeirra varð á að bjóða mér góðan daginn. Fann eitthvað af því sem ég þurfti en ekki allt og sá þá mér til gleði að testósterongengið hafði fært sig út í horn og á básnum var aðeins eftir einn ungur piltur. Snéri mér að honum og spurði hvar ég finndi borðplötur og svo í framhaldi af því þurfti ég að fá svolitlar frekari upplýsingar um þær, sem hann veitti eftir bestu getu. Ég spurði hann nafns. Hann hét Jón og var greinilega nýr í starfinu því hann þurfti að spyrja aðra um allt sem ég spurði hann að og fletta endalaust mikið upp í tölvunni. Loks fól hann mig öðrum pilti sem hét Fjölnir. Fjölnir taldi sig nú aldeilis hafa svör við öllu á reiðum höndum. Til dæmis taldi hann að uppgefið verð fyrir borðplötur, þar sem stóð 1RÚN væri ekki með viðkomandi rúnningu innifaldri heldur bættist við verðið fyrir slíka þjónustu. Hann gat þó ekki útskýrt hví plötur með áletruninni 2RÚN væru því dýrari og þurfti að fara í tölvuna til að átta sig á að hið rökrétta væri rétt. En hann fullvissaði mig um að rúmir fimm metrar væru til af borðplötunni sem hugur minn girntist.
Næst spurði ég Fjölni hvort nóg væri til af ákveðinni tegund þvottahúsvaska. Hann fór í tölvuna og sagði að engir slíkir væru til. Ég spurði hann þá hvort þeir væru til í öðrum verslunum og hann fór aftur í tölvuna og sagði svo ekki vera. Ég sagði honum þá frá því að stórvinkona mín á Smáratorgi hefði svarið og sárt við lagt að nóg væri til af þeim þar og hann fór aftur í tölvuna og sá þá að vissulega var nóg til af þeim, bæði hjá honum og öðrum, hann hafði bara verið með vitlaust númer.
Að lokum spurði ég Fjölni hvort ég mætti hugsa málið um stund og hringja svo inn pöntun á borðplötu. Hann taldi að slíkt ætti að vera í lagi og mælti með því að ég hringdi þá í Val sem hann sagði vita mest um allt. Ég spurði hann hvernig greiðslu væri háttað þegar maður hringdi inn pöntun, hvort hægt væri að greiða þegar varan væri sótt. Hann taldi það af og frá, sagði að ég þyrfti að gefa upp kortanúmer og tilheyrandi í símann.
Hringdi svo í Val þegar heim var komið og komst þá að því að borðplatan sem Fjölnir hafði fullvissað mig um að til væri í metravís var ekki til nema í nokkurra sentimetra bútum. En áður en ég komst svo langt að hallmæla Fjölni tók Valur upp fyrir hann hanskann og sagði að ekki væri nú von að hann hefði getað vitað það, blessaður. Valur fann hins vegar fyrir mig álíka góða (vona ég) borðplötu á viðráðanlegra verði, sem ég pantaði að bragði. Hann vildi ekki sjá neitt kortanúmer og var helst á honum að heyra að honum þætti út í hött að stinga upp á svoleiðis, taldi langeinfaldast að ég greiddi bara þegar ég sækti plötuna.
Andvarp.

þriðjudagur, júní 28, 2005

Sveimhuginn sveif á braut.
Steinerinn svífur heim á miðnætti.
Meðalþvottahúsvaskur kostar um 19.000 (með festingum, borði og tilheyrandi er hægt að reikna með 30 - 35.000).
Senn mun véfréttin svífa svefninum á hönd.

sunnudagur, júní 19, 2005

Niðurstaða rannsókna undanfarinna 9 daga:

Ísland er magnað!

Þess ber þó að geta að Ísland er töluvert magnaðara þegar maður fær ekki hálsbólgu, eyrnaverk og gigtarkast við það eitt að stíga út úr bílnum - semsagt í sumaryl. Ylur er þó teygjanlegt hugtak, hann fór ansi nærri frostmarki á ákveðnum tímapunkti í hringferðinni miklu, en skaust svo upp í dásamlegustu hæðir á Hellu á sumardaginn fyrsta, þar sem tölvuvæddi hitamælirinn á hótelinu sýndi tölu sem hafði 20 fyrir framan kommu. Það er svo sjaldgæft að þau andartök sem slíkt gerist á Íslandi eru greipt inn í huga manns um aldur og ævi og maður kallar þau fram með fjarrænt bros á annars pinnfrosnu andlitinu þegar maður norpar í norðanbyl í óvindheldu strætóskýli í febrúar.

Nú, auðvitað langar mig að skrifa um ferðalagið og deila með mínum fáu en dyggu lesendum, en það er erfitt að átta sig á því hvar skyldi bera niður.

Byrjaði á því að koma við á Bifröst, en þar kom ég einmitt undir. Hef ekki gist þar síðan í móðurkviði, en svaf bara nokkuð vel, sennilega ekkert síður en þá.

Bæjarnöfn og örnefni eru annars forvitnileg. Einu bæjarnöfnin sem mér koma í hug svona allajafna eru Hóll eða Brekka eða eitthvað álíka solid. En þarna úti á landi er alveg endalaus flóra af langsóttum samsettum bæjarnöfnum sem stundum er ógerlegt að ímynda sér hvernig hafa orðið til. Man því miður ekkert þeirra núna (nema Hól og Brekku), jú annars; Kolfreyjustaður. Og svo rétt hjá var Kolfreyja. Og svo keyrðum við yfir Þvottá og hálfri mínútu síðar yfir Skottá... thíhí nafngefandi forfeður á einhverju flippi. Svo eru bæjarnöfnin Stóri Kroppur og Litli Kroppur einnig mjög áhugaverð, svo nokkuð sé nefnt. Sjálf átti ég formæður á Amsturdammi hér eigi langt undan, ef það bæjarnafn er ekki til komið fyrir tilstuðlan erlendra áhrifa þá verð ég mjög hissa.

Á ekki orð til að lýsa Hallormsstað - þetta er eitthvað svo óíslenskt, allur þessi gróður! Verð að skoða þetta betur við tækifæri!!!

Reyðarfjörður er sorglegur. Ég sparkaði ekki í neinn og skyrpti heldur ekki á tröppurnar á skrifstofu Alcoa þegar ég trillaði erfingjanum (sem b.t.w. erfir örfoka mengunarsker, þökk sé Alcoa) þar fram hjá. Tók hins vegar eftir því að hinn mikli upp- (og/eða niður-) gangur hefur ekki enn skilað bænum eigin bakaríi. Þar á hann sumsé eitthvað sameiginlegt með Kópaskeri.

Húsavík stendur náttúrlega alltaf fyrir sínu. Þar er einmitt bakarí. Einnig hvalir og endur.

Laugasel í Reykjadal í Þingeyjasveit er og verður eitt mesta menningarsetur Íslands. Það er ekki bara veitingahús, verslun, sjoppa, bensínstöð, vídeóleiga, bar og félagsmiðstöð, heldur einnig listagallerí sem tekur púlsinn á listalífi sveitarinnar. Þar stendur nú yfir ljósmyndasýning eftir ungan sveitunga - slær alveg út skopmyndirnar af kennurum framhaldsskólans sem sýndar voru þar fyrir tveimur árum.

Jæja, það er ekki hægt að útlista rúma viku af intens landsbyggðar- og náttúruupplifunum í fáum orðum. En við ætlum aftur í sumar, alveg klárt.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Er að fara í ferðalag, á morgun. :)

föstudagur, júní 03, 2005

Var að tala við vinkonu mína (já, ég á enn nokkrar þannig, þrátt fyrir búsetu fjarri hringiðu mannlífsins, fjölskylduformið og aldurinn). Hún var að byrja að vinna á sambýli þar sem hún verður fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu vistmanns (sem er þroskaheftur, 17 ára og kvenkyns). Hún vill ekki vinna við slíkar aðstæður og langar að fara að vinna í fjölmiðlabransanum. Var að hugsa um að sækja um hjá dagblöðunum. Ég benti henni á að sækja um í útvarpinu, held að hún væri góð þar. Það er ekki eins og það sé offramboð á góðu útvarpsefni, nú eða góðum konum til að matreiða það ofan í pöpulinn. Heyrðist hún taka mig á orðinu.

Annars... vá, engar fréttir. Ekkert sérstakt til að nölda yfir heldur. Er að fara að hitta fólk annað kvöld - jibbí! Fólkið samanstendur af tveimur einstæðum mæðrum, einni verðandi móður og einni giftri tveggja barna móður úr Grafarvogi.

Svakalega thirty something.

Bráðum fer ég hringinn, með minni eigin vísitölufjölskyldu, sem reyndar vantar komma eitthvað börn upp á til að ná réttri stærð. Munum stoppa á öllum hótelunum og ganga úr skugga um að enga fæðutegund (af fyrirfram ákveðnum lista) vanti á morgunverðarborðin, að öll herbergi séu óaðfinnanlega þrifin, að barnarúm séu alls staðar til reiðu, að móttökustarfsfólk sé í réttum klæðnaði og alúðlegt í viðmóti, ja, eða í stuttu máli: Vinalegri um allt land.

Já og svo sjáum við bara til.